Baksvið
Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Alþingi samþykkti í fyrradag þingsályktunartillögu forsætisnefndar Alþingis og allra þingflokksformanna um siðareglur Alþingis. Þær taka til alþingismanna og starfa þeirra og fela í sér viðmið um hátterni þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa. Tilgangur þeirra er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi, líkt og segir í 1. grein reglnanna, þar sem kveðið er á um tilgang þeirra.
Náðist ekki 2013
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að aðdragandi þessa máls er að „Alþingi samþykkti í júní 2011 ýmsar breytingar á þingsköpum Alþingis er fólu m.a. í sér að forsætisnefnd skyldi undirbúa og leggja fram þingsályktunartillögu um siðareglur fyrir alþingismenn. Í framhaldinu kom forsætisnefnd á fót nefnd til að vinna drög að slíkum reglum. Nefndin skilaði tillögum stuttu fyrir þinglok í febrúar 2013 og sendi þingflokkum til umsagnar en ekki bárust formleg viðbrögð frá þeim. Lá þá ljóst fyrir að ekki mundi nást samkomulag milli þingflokkanna um afgreiðslu málsins.Á sumarfundi forsætisnefndar 19.-20. ágúst 2013 var fjallað um setningu siðareglna fyrir alþingismenn og kynnt það starf sem unnið hafði verið í málinu á fyrra kjörtímabili. Á sumarfundinum 2013 lagði forseti Alþingis til að horft yrði til siðareglna Evrópuráðsþingsins, sem nær öll þjóðþing Evrópu eiga aðild að, og óskaði eftir því að íslensk þýðing á reglunum yrði lögð fyrir forsætisnefnd til kynningar með það í huga að kanna hvort samkomulag gæti náðst um að láta þær reglur gilda, að breyttu breytanda, sem siðareglur þingmanna á Alþingi, a.m.k. fyrst um sinn.“
Skulu sýna Alþingi virðingu
7. grein siðareglnanna fjallar um hátterni þingmanna og er svohljóðandi: „Þingmenn skulu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu og fylgja meginreglum um hátterni og aðhafast ekkert með athöfnum sínum sem kann að skaða orðspor, tiltrú og traust almennings á Alþingi.“Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að þingsályktunin fæli fyrst og fremst í sér viðmið sem menn hafi komið sér saman um. „Við lögðum af stað í þessari vinnu með því að leggja til grundvallar sambærilegar reglur sem Evrópuráðið hefur notað alllengi og virðist hafa gengið snurðulaust fyrir sig. Við aðlögum okkar reglur að því að við erum auðvitað þjóðþing, en ekki fjölþjóðleg stofnun eins og Evrópuráðið,“ sagði Einar.
Einar segist leggja áherslu á að hér sé fyrst og fremst um að ræða ákveðinn ramma og eitt og annað þurfi að koma til fyllingar. „Það er til dæmis hagsmunaskráningin, sem var sett á laggirnar á árinu 2009 og endurskoðuð í árslok 2011.
Auðvitað er það þannig að siðareglur af þessu tagi, leysa ekkert allan vanda. fyrst og fremst eiga þingmenn um þetta við sjálfa sig, en við teljum, ekki síst frá sjónarhóli þingmanna, mikilvægt fyrir þá að hafa ákveðnar meginreglur til þess að styðjast við,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, jafnframt.
Ábyrgð og ráðvendni
Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar:rækja störf sín af ábyrgð, ráðvendni og heiðarleika; taka ákvarðanir í almannaþágu án þess að vera bundnir af fyrirmælum sem kunna að vera í andstöðu við siðareglur þessar; ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni; nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti; ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra; greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra og leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi; efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi.