Washington. | AFP. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti yfir því í gær að fjöldamorð liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams á kristnum mönnum, jasídum og sjítum jafngilti þjóðarmorði og hét því að stöðva það.
Kerry lýsti þessu yfir eftir að Bandaríkjaþing þrýsti á um að ríkisstjórnin segði fullum fetum að fyrir samtökunum vekti að þurrka út trúarlega minnihlutahópa.
Kerry sagði að samtökin hefðu sjálf lýst yfir því að fyrir þeim vekti að fremja þjóðarmorð og það kæmi fram í „hugmyndafræði þeirra og gerðum, í því sem þau segja, trúa og gera“. Hann bætti við að þau bæru einnig ábyrgð á glæpum gegn mannkyni og þjóðernishreinsunum, sem beindust gegn sömu hópum.
Ríki íslams leitar sér liðsmanna meðal öfgamanna úr röðum súnníta og hefur reglulega framið fjöldamorð á múslimum úr röðum sjíta, kristinna manna og jasída.
Gera þegar sitt ýtrasta
Rannsakendur á vegum Sameinuðu þjóðanna vöruðu við því í mars í fyrra að Ríki íslams, sem lýst hefur yfir stofnun kalífadæmis, væri að reyna að þurrka út jasída.Þjóðarmorð er glæpur samkvæmt alþjóðarétti. Bandarískir embættismenn sögðu hins vegar að „siðferðisleg yfirlýsing“ Kerrys breytti engu um lagalega skuldbindingu Bandaríkjamanna til aðgerða. Þeir sögðu að bandarísk stjórnvöld gerðu nú þegar sitt ýtrasta til að til að „veikja og eyða“ Ríki íslams.
Kerry sagði að alþjóðlegur dómstóll yrði þegar þar að kæmi að taka á staðreyndum málsins og Bandaríkin myndu gera allt sitt til að Ríki íslams yrði sótt til saka. Hann bætti því við að bandalagið gegn Ríki íslams hefði hrakið það frá 40% þess lands, sem það hafði á sínu valdi í Írak þegar mest var, og 20% landsins, sem það réð yfir í Sýrlandi, meðal annars með loftárásum og stuðningi við sveitir á jörðu niðri.
Höggvið skörð í forustuna
„Við höfum höggvið skörð í forustu þeirra, ráðist að tekjulindum þeirra og rofið birgðalínur þeirra og um þessar mundir vinnum við að diplómatísku frumkvæði um að reyna að binda enda á stríðið í Sýrlandi,“ sagði Kerry.Kerry sagði að miskunnarlaus hernaður Bashars al-Assads til að halda völdum ýtti undir ringulreiðina, sem hefði gert Ríki íslams kleift að sölsa undir sig land. Um leið hét hann því að halda áfram að þrýsta á um samkomulag til að binda enda á borgarastríðið svo beina mætt kröftum heima fyrir og alþjóðlega að ógn öfgaaflanna.
Flækir friðarviðræður
Kúrdar í Sýrlandi lýstu í gær yfir stofnun sambandssvæðis þar sem þeir fara með völd í norðurhluta landsins. Bæði ríkisstjórn landsins og andstæðingar hennar höfnuðu yfirlýsingunni. Í þessu felst að Kúrdar líta á land á þeirra valdi sem sjálfstjórnarsvæði.Fréttaskýrendur segja að yfirlýsingin muni enn flækja viðræðurnar í Genf til að koma á friði í Sýrlandi. Bandaríkjamenn hafa stutt Kúrda í baráttunni gegn Ríki íslams í Írak og Sýrlandi, en sagt að þeir muni ekki viðurkenna sjálfstjórnarsvæði þeirra innan Sýrlands. Tilkynningin mun einnig falla í grýtta jörð í Tyrklandi. Ráðamenn þar í landi líta alla viðleitni Kúrda til stofnunar sjálfstæðs ríkis hornauga.
„Viðræðurnar í Genf munu ekki takast án okkar,“ sagði Aldar Khalil, sem tók þátt í að undirbúa stofnun sambandssvæðisins. „Við erum á vettvangi, berjumst við [Ríki íslams], verndum okkar svæði og stjórnum því.“