Miðað við lögreglufréttir á netmiðlum í gær má ætla að árshátíð sé framundan hjá lögreglunni eða lögreglukórinn að fara á túr.

Miðað við lögreglufréttir á netmiðlum í gær má ætla að árshátíð sé framundan hjá lögreglunni eða lögreglukórinn að fara á túr. Fram kom að í fyrrinótt hefði lögreglan sett sektarmiða á 27 bifreiðar sem var lagt ólöglega – á gangstéttum, göngustígum, umferðareyjum og víðar – í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti og varla fer lögreglan að rífa sig upp á nóttunni og læðast um í úthverfum nema mikið liggi við.

Víkverji hefur oft furðað sig á forgangsmálum lögreglunnar og þessar fréttir draga ekki úr þeirri undrun. Á sama tíma og verið er að sekta sofandi bíleigendur í úthverfum fara ökumenn á ólöglegum hraða um helstu umferðargötur í grennd við miðbæinn og nota tímann á meðan óáreittir til þess að tala í farsíma, senda sms-skilaboð, snyrta sig og þar fram eftir götunum.

Annars er ekki fyrir hvern sem er að aka um götur borgarinnar og ökumenn þurfa að hafa góða tilfinningu fyrir því að bruna á svigskíðum til þess að ná að aka vagni sínum heilum á leiðarenda. Það nægir samt ekki vegna þess að ekkert skipulag virðist vera á holunum frekar en öðru hjá borgarstjórn Reykjavíkur og því ógerningur að varast þær. Stefna stjórnenda borgarinnar er enda að draga úr umferð og gera hana óaðgengilegri fyrir ökumenn einkabifreiða með því að fækka götum, bílum og ökumönnum. Því má líta á holurnar sem rússneska rúllettu og ástandið að undanförnu er aðeins byrjunin, því enn eru eftir tvö ár af kjörtímabili meirihlutans.

Einu sinni var sagt að þrennt væri óteljandi á Íslandi, eyjarnar á Breiðafirði, Vatnsdalshólarnir og vötnin á Arnarvatnsheiði. Nú hafa holurnar á götum Reykjavíkur og frambjóðendur til embættis forseta Íslands bæst við. Sumir hafa nefnt frambjóðendur til formanns Samfylkingarinnar í þessu sambandi en það er á misskilningi byggt, jafnvel þó að allir stuðningsmenn flokksins væru í framboði.