Kristinn Arnar Stefánsson, Addi, fæddist í Reykjavík 10. febrúar 1974. Hann lést á heimili sínu 8. mars 2016 eftir stutt veikindi.

Foreldrar hans eru Linda Lou Arthur, f. 28. október 1956, og Stefán Stefánsson, f. 27. ágúst 1953. Systir hans er Telma Lind Stefánsdóttir, f. 28. mars 1977. Sonur Telmu Lindar er Nói Stefán Þorsteinsson, f. 16. september 2014.

Eftirlifandi eiginkona Kristins Arnars er Berglind Ósk Sigurðardóttir, f. 21. nóvember 1979. Foreldrar hennar eru Sigrún Magnúsdóttir, f. 11. desember 1958, og Sigurður Þorsteinsson, f. 18. janúar 1956, d. 26. október 1995.

Sonur Kristins Arnars og Berglindar er Sigurður Arnar, f. 28. febrúar 2016.

Kristinn Arnar var fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann bjó í æsku í Starrahólum í Breiðholti og gekk í Hólabrekkuskóla. Þaðan fór hann í Verzlunarskóla Íslands og lauk stúdentsprófi árið 1994. Að því námi loknu fór hann í lagadeild Háskóla Íslands og lauk þaðan Cand. Juris prófi árið 2001 með I. einkunn. Hann tók lögmannsréttindi hjá Lögmannafélagi Íslands árið 2006. Þá hafði hann nýverið lokið prófi í alþjóðlegri regluvörslu.

Kristinn Arnar var alla tíð virkur í félagsmálum. Hann tók m.a. þátt í félagsstörfum á vegum nemendafélags Verzlunarskóla Íslands, sat í stjórn Orators 1997-1998, í stjórn Vöku 1996-1997, var framkvæmdastjóri lögfræðiaðstoðar Orators 1999-2000 og formaður Delta Thea Phi 1999-2000.

Eftir útskrift frá lagadeild Háskóla Íslands hóf Kristinn Arnar störf hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann starfaði til ársins 2006. Í framhaldi af því hóf hann störf hjá Landsbankanum hf. og starfaði þar til ársins 2007 er hann hóf störf sem regluvörður hjá Glitni banka hf., síðar Íslandsbanka þar sem hann starfaði til haustsins 2015. Hann leiddi þar þá miklu umbreytingu sem orðið hefur á regluvörslu í bankanum síðustu ár. Kristinn Arnar hóf síðan störf hjá Arion banka hf. í lok árs 2015.

Á undanförnum árum flutti Kristinn Arnar fyrirlestra um regluvörslu og íslenska bankakerfið víða erlendis.

Útför Kristins Arnars Stefánssonar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 18. mars 2016, klukkan 13.

Elsku sonur okkar með stóra hjartað. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt.

Þú færðir hamingju inn í líf okkar þegar þú fæddist og við ungir foreldrarnir héldum varlega á þér yfir þröskuldinn á Háteigsveginum, hjá ömmu Huldu, þar sem við bjuggum fyrstu mánuðina. Síðar lá leið okkar í Breiðholtið sem var þinn uppvaxtarstaður og Starrahólar heimili okkar. Breiðholtið var góður staður fyrir unga drengi með forvitni fyrir lífinu að alast upp og íþróttir og veiði áttu hug þinn. Fjögurra ára varstu byrjaður að veiða, alltaf svo þolinmóður og lunkinn. Veiðiáhuginn fylgdi þér til fullorðinsára þegar laxveiðin tók við og alltaf naustu þín við bakkann, í kyrrð og tengslum við náttúruna.

Við fjölskyldan stunduðum veitingarekstur og alla tíð hjálpaðir þú til. Á Rauðará varstu alltaf til staðar þó þú værir í erfiðu námi eða vinnu. Þú varst lífið og sálin á staðnum, með einstaka þjónustulund og alltaf hlýr og jákvæður. Eftir Verslunarskólann fórstu í laganám og eignaðist góða vini sem fylgdu þér lífið á enda. Við fylgdumst svo með þér standa þig vel í vinnu og undruðumst stundum hvernig þú gast sinnt öllu svo vel. Í fríi erlendis varstu oft að vinna um leið en lést okkur samt líða eins og þú værir aðeins þar með okkur.

Árið 2012 kynntist þú henni Berglindi Ósk, ástinni í lífi þínu. Við erum þakklát fyrir kynni ykkar og hamingjuna sem sambandið færði þér. Þið nutuð lífsins saman, ferðuðust og áttuð fallegt tilhugalíf. Fréttir af frumburðinum á vormánuðum í fyrra glöddu okkur öll svo mikið.

Þú varst guðfaðir Nóa litla hennar Telmu Lindar og frá fyrstu stundu tengdust þið frændur böndum sem við hin skildum ekki. Hann var líka sem eftirmynd þín í útliti strax frá byrjun og nú gengur 18 mánaða drengur um, leitar þín og biður mömmu sína um að kveikja á kerti fyrir þig.

Eftir margra mánaða þrautagöngu í leit að því sem angraði þig fékkstu loks svar. Útlitið var dökkt en aldrei misstir þú móðinn og hvattir okkur hin áfram. Ég vil enga meðaumkun, bara ljós og kærleika, sagðirðu þá. Þú sýndir einstakt baráttuþrek og þor en þér hrakaði hratt. Þú kvartaðir þó aldrei og ekki virtistu hræddur þrátt fyrir mótlætið sem mætti þér; í staðinn hughreystir þú okkur og sagðir: Mamma mín, ég er ekki að fara neitt. Þegar þú heyrir vindinn blása þá er ég þar og þegar þú horfir í augun á honum Nóa þá er ég þar. Fullvissa og trú þín var einlæg og smitandi allt til enda.

Áður en þú kvaddir náðuð þið að giftast og skíra nýfæddan son ykkar. Það voru fallegar stundir og augnablikið þegar þú fékkst son þinn í fangið í fyrsta sinn verður falleg minning okkar um ókomna tíð. Eftir það gastu ekki meir. Mamma klappaði þér á kinnina eins og mæður gera og gaf þér leyfi til að hvílast, elsku sonur.

Elsku Berglind Ósk. Betri maka fyrir son okkar hefðum við ekki getað hugsað okkur. Takk fyrir að elska Arnar okkar eins og við gerðum. Hvíl nú í friði, kæri sonur, og vertu viss um að við munum gæta vel að Sigurði Arnari, ljósinu í myrkrinu sem nú ríkir. Við munum hjálpa til við að fylgja honum eftir út í lífið.

Pabbi og mamma.

Elsku Addi minn. Mikið getur lífið verið ósanngjarnt. Hvernig eigum við að lifa án þín. Þú varst kletturinn okkar, hélst okkur á jörðinni með jákvæðni þinni, góðleika og varst fullkominn bróðir og frændi. Þótt við systkinin værum ólík náðir þú að halda mér í veruleikanum og studdir mig í öllu og vildir allt fyrir mig gera. Ég mun eyða allri minni ævi í að heiðra gildin sem þú kenndir mér; að vera góð, jákvæð og halda áfram að berjast eins og þú sagðir oft við litlu systur þína.

Þú verður ávallt mín fyrirmynd. Mikið er ég fegin að þú náðir að kynnast guðsyni þínum, Nóa Stefáni. Betri frænda gat hann ekki átt og strax frá upphafi tengdust þið tveir einstökum böndum. Ég veit að þú munt passa vel upp á hann og fylgja honum í gegnum lífið og vernda hann eins og þú gerðir alltaf. Í staðinn skal ég lofa að passa vel upp á Berglindi og Sigurð Arnar sem þú fékkst allt of lítinn tíma með. Ég mun líka standa mig sem dóttir, móðir, frænka og mágkona.

Ég mun hugsa um mömmu og pabba. Það verður erfitt að fylla í þín spor en þú átt eftir að vera svo stoltur af systur þinni, því lofa ég. Ég sakna þín svo mikið og þetta er allt svo erfitt. Sofðu nú, elsku bróðir, og ég veit að þegar vindur er úti þá ert þú þar, þegar ég horfi á Nóa Stefán þá ert þú þar og þegar ég syng þá syngur þú með mér. Ég elska þig svo mikið og hlakka til að hitta þig aftur.

Kveðjustundir eru mér slæmar

með sanni eru þær

mér sárnar þig að kveðja

því þú ert mér svo kær

Allt annað vil ég gera

en að þurfa að kveðja þig

ég læt oft sem þú sért nærri

það er smá huggun fyrir mig

Þegar ég horfi á eftir þér fara

þá verð ég svo rosa sár

ég get ekki þig kvatt

án þess að komi tár

Alltaf er þó gaman

þig að sækja á ný

en kveðjustundirnar slæmu

eru þó ei fyrir bí

Þessi slæma hringrás

er komin til að vera um stund

ég get þó ekki beðið eftir að komast

aftur á þinn fund.

(Katrín Rut.)

Þín systir,

Telma Lind Stefánsdóttir.

Ég vildi bara ekki trúa því að þú værir að fara þegar pabbi þinn hringdi í okkur. Von okkar um bata var svo sterk. Undanfarið var svo mikið að gerast í lífi þínu. Fæðing sonarins, skírn og gifting ofan í veikindi þín.

Stórt skarð er höggvið í frændsystkinahópinn. Margar minningar koma upp í hugann núna, alveg frá því að vera í löggu- og bófaleik sem krakkar upp í alvarlegri þjóðfélagsmál. Elsku Addi minn, takk fyrir að hafa fengið að taka þátt í þínu lífi. Þú varst einstakur. Ég á eftir að sakna hlátursins og brossins þíns. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá þér og áttum við margar stundir saman eins og þegar við vorum á ættarmóti á Úlfljótsvatni þar sem við nenntum ekki að taka þátt í gleðinni með hinum og löbbuðum niður að vatni til að veiða í grenjandi rigningu. Mikið var þetta góð stund og við komum alsæl til baka, rennandi blaut en fisklaus. Minningar koma upp um margar veiðiferðir sem krakkar og sérstaklega á Heiðarvatni þar sem við veiddum marga silunga en þú seinna meir fórst í laxveiðina sem átti mikinn part í þér og svo auðvitað enski fótboltinn og misstir þú varla af leik með Liverpool og meira að segja þegar þú varst mikið veikur var horft á leik með vinunum.

Mikið varstu stoltur þegar drengurinn þinn fæddist. „Ég er orðinn pabbi“ var það fyrsta sem þú sagðir við mig. Við sem eftir erum þurfum að vera dugleg að segja honum sögur af þér og hvað pabbi hans var frábær maður.

Elsku Berglind, Sigurður Arnar, Stebbi, Linda, Telma og Nói Stefán, megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Minningin hans lifir.

Anna María.

Það er á þessum tímum sem maður áttar sig á hversu sum augnablik eru dýrmæt og mikilvæg. Ekki óraði mig fyrir því síðast þegar við hittumst, í október þegar ég var á landinu einmitt til að vera viðstaddur útför föður unnustu minnar, að ég myndi skrifa minningarorð um þig – en lífið er víst óútreiknanlegt, elsku Addi minn. Við höfum upplifað svo margt saman enda bara fjögur ár á milli okkar, frá því sú ferð hófst var eitt sem tilfinningin mín nam, það var að þú passaðir ávallt upp á litla frænda, það fór ekki framhjá neinum. Minnisstætt er mér þegar þið vinirnir voruð nýkomnir með bílpróf og ætluðuð að njóta dagsins í Kaplakrika á frægum útitónleikum sem þar fóru fram. Það kom smá „babb í bátinn“ þegar litli frændi átti að fara með í þá ferð. Linda setti það fram sem kröfu ef þú skyldir fá bílinn og auðvitað „reddaðir“ þú litla frænda með því að tjá öllum vinunum, þeim til lítillar skemmtunar, að ég hefði unnið miða á umrædda tónleika og yrði því að fara með. Þar fann ég fyrir miklu stolti og það stolt hvarf aldrei allt til loka, elsku Addi minn.

Þó að búseta mín erlendis hafi markað ákveðin skil í okkar samskiptum þá lágu leiðir okkar oft saman og þá fann ég hversu stoltur maður var að eiga Adda Reddara sem náinn frænda. Veiðiferðanna og dagsferðarinnar okkar til Dublin hugsa ég oft til og hlakkaði ég til að fara yfir þær með þér næst þegar við hittumst því það er ekki allt prenthæft sjáðu til elsku frændi. Spánarferðunum gleymi ég heldur aldrei, hversu stoltur þú sýndir mér umhverfið þar sem við dvöldumst svo oft og hversu stoltur ég sýndi mínu fólki umhverfið, því þó þú vissir það ekki þá apaði litli frændi oft upp staðreyndirnar sem stóri frændi sagði. Þegar við hittumst síðast vorum við ákveðnir í að þegar þú og Berglind væruð búin að eignast litla kraftverkið ykkar þá myndum við sko skella okkur til Spánar eins og okkur einum var lagið, en sú ferð verður víst að bíða. Eitt er ég þó viss um að þú reddar því þegar sú stund rennur upp. Sendi styrk og ljós eins og þú baðst um til Sigurðar Arnars, Berglindar, mömmu þinnar, pabba, Telmu og fjölskyldu. Elska þig, Addi minn, og mig langar að enda þennan hitting okkar á einu kvæði. Þangað til næst.

Addi minn.

Þetta er Diddi þinn.

Flestir kölluðu þig reddarinn.

Margt var þér til lista lagt

en kærleikurinn var þér allt,

ávallt gastu alla glatt.

Með ekka kveð ég þig nú.

Ég mun alltaf hafa þá trú

að stóri frændi sé hjá mér nú.

Sameinaðir við skulum hittast með börn okkar og frú.

Það er nú alveg eftir Reddarans trú.

Elska þig.

Þinn,

Diðrik (Diddi).

Elsku Addi minn, lífið er hverfullt og ótal minningar koma upp í huga mér um samband okkar. Alveg frá því að ferðalag okkar hófst uppi í Starrahólum fann maður alltaf fyrir hversu mikla réttlætiskennd þú hafðir, þú varðir alltaf mína hagsmuni þegar til þess kom. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar Thelma Lind og bróðir minn höfðu fengið nóg af mínum prakkaralátum og ætluðu að hefna sín á mér en þá kom stóri frændi minn eins og oft áður mér til bjargar eins og honum einum var lagið. Lögfræðin var okkar sameiginlegi vettvangur; þar gat ég ávallt stuðst við þín ráð og þau voru mér mikils virði. Þegar við ræddum um lokaritgerðina mína á þínum síðustu dögum kom í ljós eins og oft áður hversu mikinn þroska og skilning þú hafðir á lögfræði sem og lífinu sjálfu. Það samtal verður mér hvatning um ókomna framtíð, þó að leiðir okkar skiljast nú mun ég ávallt vita og trúa að þín ótæmandi vitneskja mun geta stutt mig þegar þörf er á.

Vertu sæll, Addi minn. Ég syrgi þig en góðu minningarnar og þakklætið eru sorginni yfirsterkari. Þú hefur markað líf mitt sem og fjölda annarra og sá sem auðgar líf annarra hefur vissulega lifað góðu og þýðingarmiklu lífi.

Takk fyrir samveruna, skilninginn, gleðina og umhyggjuna.

Þinn frændi,

Andri Rúnar Gunnarsson.

Elsku bróðir og fjölskylda, þvílíkur harmur hvílir yfir okkur öllum, fjölskyldu og vinum. Tekinn frá eiginkonu og nýfædda barninu sínu, foreldrum, systur og ömmu. Addi var strax sem lítið barn alltaf gleðigjafinn en samt hugsandi og alvörugefinn og að hugsa um alla í kringum sig, hjálpa og bjarga því sem hægt var. Við systkinin með maka og börn fórum alltaf saman á sumrin í bústaði, veiði og í tjaldferðalög þar sem öll börnin höfðu hlutverk, t.d. að halda uppi súlunum á stóra tjaldinu sem var þrjú herbergi, eldhús og bað í minningunni. Aldrei neitt vesen, bara allir að veiða allan daginn. Þau eldri að hjálpa þeim yngri við að beita maðki og henda út. Þessu hélt hann áfram alla tíð, veiðin var ástríða. Það var mikil sorg þegar við misstum Möllu okkar úr veikindum aðeins þrettán ára. Þau voru jafnaldrar og ólust mikið upp saman hjá Huldu ömmu sem hefur tekið vel á móti honum. En alltaf hélt hann áfram að vera stoð og styrkur fyrir fjölskyldu sína og alla aðra sem hann gat aðstoðað og var elskaður af öllum sem þekktu hann. Elsku fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur. Guð gefi ykkur styrk til að halda áfram. Elsku Arnar, takk fyrir allt.

Birna og Elsa.

Kveðja frá Íslandsbanka

Það voru mikil sorgartíðindi að fá fregnir af veikindum og andláti vinar okkar og fyrrverandi samstarfsfélaga. Kristinn Arnar, eða Addi eins og hann var jafnan kallaður, starfaði sem regluvörður bankans í nær tíu ár. Hann tókst á við fjölmörg krefjandi verkefni á þeim tíma enda stóð hann vaktina yfir stormasamt tímabil. Hann var með eindæmum jákvæður og lausnamiðaður. Það kom sér svo sannarlega vel bæði til að fá fólk til liðs við sig og leysa krefjandi verkefni. Hann tókst á við verkefni með léttleikann á lofti og var því mjög hvetjandi fyrir annað starfsfólk. Fræg er setning hans sem oft er rifjuð upp hér innan bankans „þið eruð öll að gera frábæra hluti“. Já, það var aldrei leiðinlegt þar sem Addi var enda var hann vinsæll innan bankans. Hann var hvers manns hugljúfi, nærgætinn við vinnufélaga og var umhugað um líðan fólks. Addi skilur eftir sig góðar minningar og stóran hóp af kærum vinum í bankanum.

Addi var einstaklega hlýr og maður fann hvað hann bar mikla umhyggju fyrir foreldrum sínum og fjölskyldu. Það var svo sannarlega gleðifrétt þegar hann sagðist eiga von á sínu fyrsta barni, en að sama skapi sorglegra en orð fá lýst að hann skyldi aðeins fá nokkra daga með syni sínum. Þegar örlögin taka völdin stöndum við eftir og skiljum ekki þessa sorglegu atburðarás. Kæra Berglind, foreldrar og fjölskylda, orð eru fátækleg en minningin um góðan félaga lifir.

Birna Einarsdóttir.

Í dag kveðjum við góðan vin, Kristin Arnar Stefánsson, eða Adda eins og við kölluðum hann.

Leiðir okkar lágu saman á mismunandi tímum, nokkrir okkar kynntust honum á fyrstu grunnskólaárunum í Hólabrekkuskóla og hinir þegar komið var í Verzló.

Það var aldrei leiðinlegt í kringum Adda og ekki óvanalegt að heyra sögur eins og að hann hefði lagt skólatöskuna sína ofan á helluborð og brennt gat á hana, eða að Bangsi, hundurinn hans, hefði étið stykki af sætunum úr bílnum hans. Ekki var farið í veiðiferð án þess að brjóta hið minnsta tvær veiðistangir.

Þegar Addi var með í hópnum var alltaf meira líf og fjör, enda ótæmandi uppspretta að uppákomum og fyndnum atvikum sem fylgdu honum og hann hafði sjálfur mikinn húmor fyrir. Í gegnum tíðina hefur margt verið gert, ferðir til útlanda, veiðiferðir, spilaður fótbolti og spilaklúbbur. Í gamla daga var oft hist í Starrahólunum, horft á erlendar sjónvarpsstöðvar, spilað pool og margt fleira, um áramótin buðu svo feðgarnir, Addi og Stefán, upp á glæsilega flugeldasýningu og veisluhöld fram í nýja árið. Á háskólaárunum var Rauðará sá staður þar sem við vinirnir hittumst og ekki var ónýtt að fá humarsúpu og nautasteik hjá Stefáni og Lindu. Þetta voru góðir tímar og margar góðar minningar.

Addi var þannig gerður að hann vildi að öllum liði vel og var alltaf tilbúinn að hjálpa ef eitthvað vantaði; „Ég redda þessu,“ sagði Reddarinn.

Það var mikið ánægjuefni hjá okkur vinunum þegar við heyrðum að Addi og Berglind ættu von á barni. Við hlökkuðum mjög til að sjá hann í pabbahlutverkinu enda einstaklega barngóður. Það er því sárt til þess að hugsa að loksins þegar Sigurður Arnar kemur og næsti kafli í lífi hans að hefjast, að hann fái ekki að njóta hans.

Með Adda er farinn einstakur maður með stórt hjarta. Það verður sárt að fá aldrei aftur að hitta hann Adda okkar og heyra setningar eins og „við erum að gera frábæra hluti“ eða „blessaður, sykurpúði“. Minning um góðan dreng mun þó lifa og áfram verða rifjaðar upp sögur af þessum einstaka manni sem gladdi svo marga og gaf svo mikið af sér með sínu einstaka hjartalagi. Berglindi, Sigurði Arnari, Stefáni, Lindu og Telmu vottum við okkar dýpstu samúð.

Helgi, Baldvin, Brynjar,

Kristján, Hákon, Ingþór,

Jón Eðvald, Matthías og Lárus.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð vin minn Kristinn Arnar, eða Adda eins og hann var alltaf kallaður. Ég kynntist Adda á Verslunarskólaárunum og tók fljótt eftir þessum hressa strák með fyndna hláturinn. Mér er afar minnisstætt þegar við fórum í útskriftarferð til Portúgals en þá mætti Addi í flugið í Hawaii-skyrtu, með stráhatt, skrautleg sólgleraugu og kút samnemendum sínum til mikillar ánægju. Leiðir okkar lágu líka saman í gegnum lögfræðina og allar götur síðan og mikið var lífið skemmtilegra með Adda. Hann var alltaf hrókur alls fagnaðar og eins og góður maður komst að orði þá var Addi allra. Honum var umhugað um alla, vildi öllum hjálpa og stærra hjarta verður ekki fundið. Ef eitthvað bjátaði á var Addi alltaf með þeim fyrstu til að mæta, hjálpa eða hugga og mætti vanalega með mat líka, enda rak hann veitingastað öll lagadeildarárin ásamt fjölskyldu sinni. Ein af skemmtilegri minningum mínum um Adda í seinni tíð var þegar við vorum bæði stödd í New York og Addi á hækjum eftir fall. Hann lét það ekki stöðva sig í að ferðast á hinn endann á Manhattan til þess að kaupa sér górillubúning svo hann gæti hrekkt vinnufélagana og nýja maka í matarklúbbnum okkar. Svona var hann Addi og væri auðvelt að fylla heila bók með sögum um hann. Þegar ég hugsa til baka get ég ekki annað en fyllst þakklæti fyrir að hafa fengið að vera vinur hans í yfir 25 ár. Eins er ég þakklát fyrir að Addi hitti og fékk að eyða frábærum árum með henni Berglindi sinni, sem gerði hann svo hamingjusaman, og fékk að lokum að eyða síðustu dögunum með litla, fallega drengnum þeirra. Við Eiríkur sendum innilegar samúðarkveðjur til elsku Berglindar, Sigurðar Arnars, Stefáns, Lindu og Telmu. Minning um góðan og einstakan vin lifir.

Telma Halldórsdóttir.

Haustið 1996 kom saman hópur ungra manna úr mörgum áttum í lagadeild HÍ. Ekki hafði liðið langur tími þegar við uppgötvuðum það afl sem Kristinn Arnar Stefánsson var – Addi reddari eða einfaldlega Reddarinn – eins og hann er líklega betur þekktur þeim sem kynntust honum á þessum tíma. Viðurnefnið Reddarinn er fjarskalega lýsandi fyrir þann mann sem Addi hafði að geyma. Hann var alltaf reiðubúinn að létta öðrum lífið og rétta hjálparhönd, hvort sem var með því að aðstoða við prófundirbúning, blanda kokteila eða almennt að gera annað það sem þurfti til að láta vinum sínum, og reyndar laganemum öllum, líða betur í amstri hversdagsins. Umfram allt var Addi sannur vinur.

Á þessum tíma rak Addi, ásamt foreldrum sínum, veitingastaðinn Rauðará þar sem okkur, svöngum laganemum, var iðulega boðið upp á humarsúpu og annan viðurgjörning þegar prófatíð stóð sem hæst. Þar byrjuðu og enduðu ófá kvöldin þegar prófum var lokið – og stundum þar á milli.

Hér væri hægt að rifja upp mikinn fjölda af óborganlegum sögum og uppákomum, hvort sem er úr starfi Orators, norrænum laganemavikum, veiðiferðum eða ótal öðrum samverustundum, sem eiga það sammerkt að Addi var þar miðpunktur. Við viljum þó fyrst og síðast minnast verðmætrar vináttu og þess hve frábær félagi Addi var. Hann hafði jákvætt viðmót til lífsins og var ávallt til staðar fyrir vini sína og var óeigingjarn á tíma sinn og orku þegar kom að því að aðstoða og gleðja aðra.

Auk þess að vera vinur vina sinna var fjölskyldan Adda mjög mikilvæg. Í Berglindi fann hann ástina og ekki leyndi sér hvað þau voru innilega hamingjusöm. Langþráður draumur þeirra rættist þegar þeim fæddist fyrir skemmstu sonurinn Sigurður Arnar.

Á síðustu mánuðum háði Addi snarpa og erfiða baráttu við illvíg veikindi. Í þeirri glímu komu persónueinkenni Adda glöggt í ljós þar sem hann lagði iðulega áherslu á að þeim sem í kringum hann voru liði betur, fremur en sína eigin líðan.

Við félagarnir fáum seint fullþakkað þá blessun að hafa notið vináttu Adda og fengið að kynnast óþrjótandi bjartsýni, glaðværð og jákvæðni hans. Ef fleiri deildu viðhorfum Adda til lífsins væri heimurinn betri staður.

Kveðja frá Piparsveinafélaginu,

Atli Björn, Birgir, Guðmundur Ingvi, Gunnar, Friðbjörn, Heiðar Ásberg, Jón, Magnús, Skarphéðinn, Vífill, Rósant,

og Hjalti.

Við Addi hittumst voða óformlega fyrst. Þá vann ég í sjoppu í Mjóddinni, sem hann og vinir hans komu reglulega í. Líklega árið 1993. Hann var kurteis og sætur, þessi jafnaldri minn, og ég mundi vel eftir honum þegar ég hóf nám við lagadeild HÍ tveimur árum síðar. Svo fór að við urðum bekkjarsystkini eftir að hafa bæði þurft að hafa dálítið fyrir því að hafa „Almennuna“ undir. Þá líkt og endranær var Addi hrókur alls fagnaðar og smitaði út frá sér stuðinu og skemmtilegheitunum. Og fékk viðurnefnið „Reddarinn“. Sá til þess að partíin gætu staðið aðeins lengur, orðið aðeins skemmtilegri. Bjórinn búinn? Addi reddaði því. Vantaði græjur? Addi reddaði þeim. Verst að hann skyldi vera í Vöku. Það var hans helsti löstur að mati Röskvuliðans. Samt var ekki annað hægt en að líka vel við hann frá fyrstu kynnum. Hann var bara þannig.

Svo átti hann þennan vinahóp í lagadeildinni, sem samanstóð meðal annars af ansi hressum sveitastrákum sem mér fannst svona í bilaðri kantinum. Í dag bý ég með einum þeirra og á með honum þrjú börn. Og þykir svo vænt um þennan vinahóp – Piparsveinafélagið, sem er löngu hætt að standa undir nafninu, og orðsporinu. Einna vænst þótti mér um Adda. Hann var bara þannig.

Svo fór ég að vinna hjá Adda, í Regluvörslu Íslandsbanka. Þá kynntist ég vel hans dýrmætustu mannkostum. Hvað hann var skilningsríkur og hugulsamur. Vildi allt fyrir alla gera, alltaf að hugsa um að láta fólkinu sínu líða vel, hvort sem það var fjölskyldan, vinirnir eða samstarfsfólkið. Er einhver lasinn heima? Ekkert mál, Anna mín. Við verðum að forgangsraða. Ertu voða ófrísk í dag, Anna mín? Drífðu þig heim. Þetta er það sem lífið snýst um. Hvað segirðu, varstu að missa bróður þinn? Taktu þér þann tíma sem þú þarft. Já, að sjálfsögðu eldum við mamma og pabbi súpu fyrir ykkur fjölskylduna, til að gæða ykkur á eftir kistulagninguna. Nei, það kemur ekki til greina að taka við greiðslu fyrir.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að verja flestöllum virkum dögum með þessum öðlingi, undanfarin sjö ár. Fyrir allt það sem hann kenndi mér í starfi. Alla vináttuna og umhyggjuna sem hann sýndi okkur Bóa og börnunum. Fyrir að þau Berglind skyldu koma og vera hjá okkur í nokkra daga á Spáni í fyrrasumar. Og glöð yfir því að Addi skyldi fá að kynnast þessari yndislegu ást lífs síns og eiga með henni síðustu árin. Að þau hafi náð að eignast dásamlega drenginn sinn.

Að þessi litla fjölskylda skuli ekki fá að eiga framtíðina saman er með öllu óskiljanlegt. Ég votta þeim mæðginunum, fjölskyldu Adda og ástvinum öllum samúð mína, frá dýpstu hjartarótum.

Hvíldu í friði, elsku vinur. Ég veit að þú ert farinn að gera frábæra hluti, hvar sem þú ert.

Anna Ragnhildur.

Addi var gull af manni. Gleðigjafi af Guðs náð. Einstakur maður sem lét öllum líða vel í kringum sig og átti marga vini úr ólíkum áttum. Addi var trúr fjölskyldu sinni og vinur vina sinna. Hann var vinnusamur með stórt hjarta og hafði þægilega nærveru. Æðrulaus og sveigjanlegur en samt ákveðinn með mikla réttlætiskennd. Hann átti auðvelt með að verða fyrir hughrifum og það var gaman að ferðast með honum í þrjátíu þúsund fetum og sjá ólíka, stundum ógerlega, hluti verða að veruleika. Addi var mikill sögumaður og sagði skemmtilega frá. Hann var líka aðalpersónan í mörgum sögum sem urðu öðrum innblástur. Addi var allt annað en farþegi í lífinu heldur sat við stýrið á stórum stundum í lífinu hjá mörgum okkar. Honum þakka ég maríulaxinn minn í Langá. Flest okkar erum allt lífið að vinna í því að verða besta útgáfan af okkur sjálfum. Addi var „orginal“. Hann var fyrirmynd og lífið verður fátækara án hans. Ég votta fjölskyldu hans og vinum, eftirlifandi eiginkonu og nýfæddum frumburði innilega samúð á þessum erfiðu tímum. Í sorginni reyni ég að vera þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast Adda og deila með honum ógleymanlegum stundum. Minningin um þennan góða dreng lifir í hjartanu að eilífu.

Kjartan Örn Sigurðsson.

Kristinn Arnar, elsku Addi, var einstök manneskja og sannur vinur okkar. Við, eins og hinn einstaki vinahópur Adda, fjölskylda og vinnufélagar, þurfum nú að sjá að baki þessum mikla öðlingi sem bjó yfir ríkri kímnigáfu og glettni ásamt því að geisla af nærgætni, gjafmildi og næmni. Það sagði maður að Addi hefði lýst upp hvert það herbergi sem hann steig fæti inn í. Við gerum þau orð að okkar.

Addi fann lífsförunaut sinn í þrítugsafmæli Guðrúnar Ingu og voru þau óaðskiljanleg upp frá því. Berglind er fyrrverandi mágkona Guðrúnar Ingu og góð vinkona, yndisleg og hlý, með stórt og sterkt faðmlag. Þegar Addi og Berglind fóru að rugla saman reytum urðum við glöð í hjörtum okkar. Það var fallegt að fá að fylgjast með sambandi þeirra vaxa og dafna og þakkarvert að vera svo heppin að njóta samvista við þau.

Það er erfitt annað en að vera reið forsjóninni fyrir að hafa með einkar kaldranalegum hætti tekið Adda frá eiginkonu sinni, nýfæddum syni, fjölskyldu og vinum. En neikvæðni af þeim toga er í mótsögn við allt sem Addi stóð fyrir. Það stendur ekki til boða að gefa sig henni á vald. Fyrir honum var glasið alltaf hálf fullt og helst vildi hann skála í því líka. Við hjónin tókum fram besta kampavínið í safninu til að skála í til heiðurs þeim hjónum á brúðkaupsdegi þeirra, nokkrum dögum fyrir andlát Adda. Ekki annað hægt en að fanga augnablikið og fagna lífinu að hætti okkar kæra vinar.

Í dag kveðjum við Adda með djúpu þakklæti fyrir samferðina en jafnframt sárum trega. Minningin mun lifa og ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð, á meðan við hlúum sem best við megum að þeim sem eftir lifa.

Elsku Berglindi, Sigurði Arnari litla og fjölskyldum þeirra hjóna sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðrún Inga Torfadóttir og Einar Páll Tamimi.

Elsku Addi hefur kvatt okkur og það er bæði sárt og erfitt að skilja.

Það er erfitt að lýsa Adda í fáum orðum. Hann var svo margt. Hann var heiðarlegur, góður vinur og umhugað um fólkið í kringum sig. Það er fáum gefið að vera jafn rausnarlegir og gefandi. Addi átti bara vini, sagði einhver við mig um daginn og það er svo rétt. Addi átti bara vini. Hann var hreinn og beinn, óvenjulegur fyrir ýmsar sakir, ævintýragjarn og framkvæmdaglaður, alltaf með eitthvað á prjónunum en um leið jarðbundinn og tók sig ekki of hátíðlega. Hann var af mölinni, úr Breiðholtinu, en var líka náttúrubarn sem elskaði að veiða, njóta lífsins og gleðjast með vinum. Hann var góður, alltaf góður.

Við Addi kynntumst í Breiðholtinu, sjö ára bekkjarbræður árið 1981 í sakleysi og einfaldleika þess tíma og lékum okkur innan um himinháar nýsteyptar blokkir í ævintýralegu hverfi í uppbyggingu, á efsta tindi Reykjavíkur, með heilt Indíánagil fyrir neðan holtið. Ég flutti síðar og við misstum tengslin en hittumst á ný í Verzló og eyddum miklum tíma saman síðar á ógleymanlegum árum í miðborginni, piparsveinar á þrítugsaldri. Við höfum fylgt hvor öðrum í yfir 30 ár með hléum en aldrei misst þráðinn. Addi kynntist líka vinum mínum úr Hafnarfirði sem einnig urðu vinir hans og það þótti mér vænt um. Jafnvel kunningjar mínir sem hann varla þekkti bera honum söguna vel og minnast þess hversu vel hann ávallt tók þeim, með faðmlagi, vinalegum orðum eða sem vertinn á Rauðará þegar stundin þurfti að vera sérstök. Það gerði hann bara af því að þeir voru vinir mínir. Þetta var Addi, hann snerti þá sem urðu á vegi hans, hann hafði áhrif á alla í kringum sig. Addi var alltaf jákvæður, glaður og til í allt með öllum. Eflaust hefur honum stundum liðið illa, verið undir álagi í erfiðri vinnu eða leiður eins og við hin. En hann bar það ekki utan á sér heldur spurði hvernig þér liði. Bara vel. Glæsilegt, þú ert að gera frábæra hluti, sagði hann þá og brosti. Addi setti aðra í forgang, var alltaf umhugað um líðan okkar hinna. Addi var líka hetja. Æðruleysinu, kjarkinum og baráttuandanum sem hann sýndi þessa erfiðu síðustu mánuði er vart hægt að lýsa. Það var sönn hvatning að fylgjast með því hvernig Addi tókst á við veikindi sín og áminning til okkar, sem göngum lífsleiðina nokkrum skrefum lengra, að fylgja fordæmi hans. Að njóta augnabliksins og stunda með vinum, koma fram við þá af virðingu og ást, oftar og alltaf. Addi fór alltof snemma en hann skilur þó svo mikið eftir fyrir okkur hin, öll góðu gildin og hugmyndir um nálgun til lífsins.

Þegar Addi átti afmæli í febrúar gaf ég honum rauðvínsflösku og við tókum loforð af hvor öðrum að við myndum deila henni þegar veikindin væru að baki. Þau eru að baki en flaskan stendur eftir. Addi, við geymum hana á góðum stað og deilum henni einhvers staðar síðar. Ég sakna þín, vinur, nú sem framvegis. Hvíl í friði, elsku vinur.

Elsku Berglind Ósk, Sigurður Arnar litli, Stefán, Linda, Telma Lind og aðrir aðstandendur Adda. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Darri.

Hrókur alls fagnaðar, alltaf í góðu skapi, svo afslappaður, sannkallaður gleðigjafi en líka svo ljúfur og hjartahlýr. Þannig var Addi. Ég kynntist Adda í lagadeildinni í HÍ. Hann var allt í öllu í félagslífinu, þekkti alla, reddaði öllum hlutum, sá okkur laganemum almennt fyrir veitingastað til að borða á eftir kokteila en það var ekki sjaldan sem við enduðum á Rauðará, staðnum hans Adda. Addi var alþjóðaritari Orators, sem hefur það hlutverk að vera í forsvari fyrir móttöku norrænna og bandarískra laganema sem heimsækja íslenska laganema í eina viku. Þetta var svo skemmtileg vika, Addi sá til þess að alltaf var nóg að gera og endalaus skemmtidagskrá. Hann átti afmæli í vikunni og bauð þá öllum í veglegt afmæli sitt. Seinna tók ég svo við þessu hlutverki Adda en í raun deildum við hlutverkinu, því hann var með mér í því. Það var svo ljúft að treysta á hann enda meistari í að redda hlutum, skipuleggja og halda utan um allt, alltaf með bros á vör. Svo talaði hann einhvern veginn öll Norðurlandatungumálin, átti svo auðvelt með að blanda geði og var svo gott að geta hnippt í hann ef ég þurfti að halda þakkaræðu í lögmannakokteil á skandinavísku því hann vílaði ekki fyrir sér að stökkva í hlutverkið. Eftirminnileg er alþjóðaritaravikan í Finnlandi haustið sem ég tók við hlutverkinu en þá kom Addi með mér til halds og trausts og kynnti mig fyrir öllum „de nordiske venner“ og varaði mig við stystu partíum norðan Alpafjalla en þau innihalda söngva og mikið af Koskenkorva. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Adda enda vinamargur og léttur í lund. Í návist hans leið mér alltaf vel, hann var traustur og fékk mann til að hafa það viðhorf að sama hversu mikið var að gera í deildinni þá myndi allt reddast og örugglega fara á besta veg.

Ég geymi ennþá tvö staup merkt Codex 60 år sem við fengum í Finnlandsferðinni og ég tók Adda staup með heim í ferðatöskuna mína. Þegar ég minntist á það við hann eftir heimkomu sagði hann mér að hann vildi endilega fá sitt til minningar. Ég ætlaði alltaf að skila því en svo fórst það fyrir og ég geymi enn staupið hjá mér. Manni hættir til að hugsa að það sé alltaf nægur tími til að gera hitt og þetta en svo snögglega er tíminn á þrotum.

Ég minnist elsku Adda með mikilli hlýju og votta fjölskyldu hans mína innilegustu samúð.

Hulda Guðný Kjartansdóttir.

Kristinn Arnar Stefánsson bjó yfir þeim töframætti að hvar sem hann kom leið fólki vel. Nærvera hans ein og sér dugði til þess að blása fersku lífi og gleði í hvaða hóp sem var.

Við vorum nokkuð stór hópur sem byrjaði að taka þátt í starfi Vöku í Háskólanum um síðustu aldamót og kynntumst Kristni Arnari Stefánssyni í fyrsta sinn. Hann var ekki einn af þeim sem höfðu mikinn áhuga á því að vera ofarlega á framboðslista, en var engu að síður, og alveg óumdeilanlega, einn af aðalmönnunum – spaði eins og það var kallað.

Hann var þá aldrei kallaður annað en Addi reddari og frásagnir af hæfileikum hans til þess að láta hina ólíklegustu hluti ganga upp voru goðsögulegar. Og það voru engar ýkjur að fyrir honum var hugtakið „ómögulegt“ algjörlega framandi. Hann hafði til þess gáfur, hugmyndaflug og persónutöfra að finna leið þegar aðrir hefðu gefist upp.

Hvort sem allar sögurnar voru sannar eða ekki þá er það dagsatt sem allir sögðu um Kristin Arnar Stefánsson; að hann væri einhver ljúfasti og bónbesti maður sem fyrirfyndist. Í kringum hann var ætíð fyrirhafnarlaus gleði, græskulaus húmor og yfirvegað athafnaþrek.

Þótt ævi hans hafi ekki talið mörg ár þá rúmaðist innan þeirra ótrúlegur fjöldi af brosum, hlátri og hlýjum tilfinningum, sem Kristinn Arnar gaf öðrum. Fyrir að hafa fengið að kynnast honum erum við þakklát. Hann gerði lífið skemmtilegra og betra.

Minninguna um öðlinginn Kristin Arnar Stefánsson geymum við á góðum, hlýjum og björtum stað í hjörtum okkar og biðjum Guð að blessa fjölskyldu hans og minninguna um góðan dreng.

Fyrir hönd vina hans úr Vöku,

Brynjólfur Ægir Sævarsson, formaður 1998-1999,

Þórlindur Kjartansson,

formaður 1999-2000.

Það er einhvern veginn óskiljanlegt að okkar góði vinur hafi kvatt. Hrifinn burtu í blóma lífsins, nánast fyrirvaralaust.

Við Addi kynntumst fljótlega eftir að ég hóf störf hjá Íslandsbanka 2006 og náðum strax vel saman. Úrræðagóður, skemmtilegur og hlýr náungi sem brann af áhuga á stangveiði og elskaði Liverpool.

Adda er í mínum huga best lýst sem einstaklega jákvæðum og góðum dreng. Alltaf reiðubúinn til aðstoðar og oftar en ekki reddaði hann því sem redda þurfti. Enda ekki kallaður „Reddarinn“ af engu.

Upp í hugann koma góðar stundir m.a. í vinnuferð í New York. Í einni slíkri kynntist Berglind kona mín Adda – við opnun veitingastaðar sem við seinna áttum öll eftir að heimsækja oft. Látum ósagt hvernig kertaglas af þessum ágæta stað endaði heima í stofu hjá okkur en Reddarinn kom þar við sögu. Ekki grunaði okkur að nokkrum árum síðar myndum við kveikja á því sama kerti til að senda vini okkar kærleiksljósið sem hann bað svo einlæglega um og trúði á.

Þær eru jafnframt ófáar veiðiferðirnar sem við fórum í góðra vina hópi og ekki sáum við fyrir okkur í síðasta túr, fyrir hálfu ári, að höggvið yrði svo stórt skarð í okkar hóp. Enda var Addi ákveðinn í því fram á síðustu stund að koma með okkur í opnunina á Affallinu í sumar eins og hann hafði gert undanfarin ár, sem einn af árnefndarmönnum þar.

Í þessum ferðum var Reddarinn í essinu sínu. Og það var einmitt í einni slíkri ferð sem við kynntumst Berglindi hans. Þetta var týpískur „strákatúr“ en áður en hann hófst hringdi hann í mig og spurði hvort mín Berglind yrði með í för, sem ekki var. Saman komu þau samt, brosandi glöð og ástfangin. Það var ekki laust við að við vorkenndum henni innan um grófgerðan karlpeninginn sem hlífði henni hvergi við groddasögum og vindgangi. Hún kærði sig kollótta og Addi sömuleiðis.

Í kjölfarið fylgdu fleiri túrar. Berglindirnar okkar stundum með í för og stundum ekki. Þráðurinn milli okkar alltaf sterkur. Í lokatúrnum síðasta haust var Addi glaður og tilhlökkunin mikil, enda fyrsta barn þeirra Berglindar væntanlegt. Við fundum það glögglega hversu mikið hann hlakkaði til og samglöddumst innilega. Og ekki grunaði mig, eða sennilega nokkurn okkar, í hvað stefndi.

Það var á milli jóla og nýárs sem fréttin barst okkur hjónum að krabbamein hefði greinst í okkar góða vini. Við tóku sveiflukenndir tímar þar sem ýmist voru góðar fréttir eða slæmar. En eftir því sem á leið varð það sífellt ljósara að baráttan yrði hörð.

Það lýsir Addanum okkar best hversu æðrulaus og jákvæður hann var, að allt fram á síðasta dag stappaði hann stálinu í okkur vini sína með afdráttarlausri trú á það að hann myndi sigra meinið. Og koma með okkur í opnunina

Við hjónin vottum Berglindi og nýfædda syninum, Sigurði Arnari, okkar dýpstu og innilegustu samúð. Guð blessi ykkur og allt ykkar fólk.

Við munum alltaf minnast Adda af mikilli virðingu og hlýju og það eitt er víst að minningu hans verða gerð góð skil í opnun Affallsins í sumar sem og um ókomna tíð.

Árni Magnússon og

Berglind Bragadóttir.

Elsku Addi.

Það er svo óréttlátt að búið sé að taka þig frá okkur. Ég man svo eftir símtalinu nánast orð fyrir orð þegar þú hringdir í mig þann 30. desember síðastliðinn og tjáðir mér að þú værir með krabbamein. Ég heyrði á rödd þinni að veikindin væru alvarleg en við vorum ákveðnir að berjast gegn þessu saman og sigra óvininn. En í þeirri baráttu áttum við við ofjarl að etja og rétt rúmum tveimur mánuðum síðar er baráttan töpuð. Eftir sitjum við sár en með fullt af góðum minningum.

Við kynnumst í veiði fyrir um 15 árum og höfum veitt saman síðan á hverju ári og oftast saman á stöng. Það verður skrítið í sumar að standa úti í miðri á og líta yfir á árbakkann og sjá ekki Adda liggjandi þar í makindum sínum og spyrja mig hvort hann eigi ekki að færa mér kjúklingavængi frá Stefáni, föður sínum, eða kaldan bjór. Tala ekki um að liggja í herbergi 7 í Aðaldalnum og líta yfir í hitt rúmið og sjá ekki þennan yndislega mann liggja þar sofandi eins og ungabarn.

Addi var að gera „frábæra hluti“ eins og hann sagði svo oft. Hann var vinaríkur og vorið 2012 hitti hann Berglindi, sem breytti lífi hans og er það svo gaman að hugsa til baka þegar hann var með okkur Dögg í Laxá í Dölum og gat varla kastað flugunni þar sem hann var svo upptekinn af að senda skeyti á þessa vinkonu sína sem hann var að hitta. Fljótlega hittum við hana Berglindi og varð góður vinskapur á milli okkar Daggar og Berglindar enda fann Addi þarna konu, sem elskaði hann fyrir það sem hann var og gæfa þeirra átti eftir að aukast. Símtalið frá Heydal nokkrum dögum eftir brúðkaup okkar Daggar 2014, þar sem Addi tilkynnti mér að næsta brúðkaup yrði hans því Berglind hafði sagt já við bónorði hans á Vestfjörðunum, var ánægjulegt, en ekkert toppaði gleðina í andliti hans þegar hann tjáði mér að það væri erfingi á leiðinni.

Elsku Addi minn, mikið á ég eftir að sakna þín og þakka ég þér fyrir allar þær góðu minningar sem við eigum saman. Ég sit eftir með hugann fullan af góðum minningum og ég mun aldrei gleyma öllum þeim góðu stundum sem við áttum saman þrátt fyrir að vinskapur okkar hafi varað allt of stutt. Ég er einnig þakklátur fyrir dýrmætan tíma sem við áttum saman síðastliðna tvo mánuði á rölti um Þingholtin og allt spjallið, þar gerði okkur enn nánari.

Mig langar að kveðja þig með þessari vísu sem mér finnst eiga við, elsku sykurpúðinn minn eins og þú kallaðir mig svo oft, enda er hún samin af Steingrími Baldvinssyni úr Nesi þar sem við höfum veitt saman í áratug:

Fiskur er ég á færi í lífsins hyl,

fyrr en varir kraftar mínir dvína.

Djarfleg vörn mín dugir ekki til,

dauðinn missir aldrei fiska sína.

Elsku Berglind, Siggi litli, Stefán, Linda og Thelma, ég votta ykkur samúð og þakka Adda fyrir að hafa kynnst ykkur því hjartahlýrra og betra fólk er vandfundið. Ég og mín fjölskylda verðum til staðar hvenær sem þið þurfið á að halda.

Ólafur Br. Finnbogason.

Það er vor í lofti og sólríkt þegar ég fæ fregnir af því að hann Addi sé genginn. Tíminn stöðvast og þau verkefni, sem hugurinn hefur fangað þann daginn, renna mér úr hendi.

Ég kynntist Adda þegar ég hóf störf hjá Íslandsbanka í ársbyrjun 2009. Fyrstu kynni mín af honum gáfu strax til kynna hvaða mann hann hafði að geyma. Addi hafði sérstaka nærveru og útgeislun sem var einstök blanda af gleði og kærleika sem enginn nærstaddur gat verið ósnortinn af. Sumt fólk sem maður kynnist á lífsleiðinni hefur meira að gefa en annað. Þannig var Addi, alltaf jákvæður og alltaf tilbúinn til að styðja þá sem í kringum hann voru.

Oft er sagt að þeir sem guðirnir elska deyi ungir. Það á vel við í huga mínum núna. Með þessum orðum kveð ég þig, elsku vinur.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Guð blessi minningu um góðan dreng. Ég votta Berglindi, Sigurði Arnari litla, Lindu, Stefáni og Telmu mína dýpstu samúð. Megi Guð vernda ykkur og styrkja.

Elsa María Rögnvaldsdóttir.

Oft er sagt að fólk sýni á sér ólíkar hliðar í einkalífi annars vegar og vinnu hins vegar. Við sem unnum við hlið Kristins Arnars, Adda, síðustu árin getum þó sagt að hann hafi svo sannarlega verið undantekningin frá meginreglunni, líkt og lögfræðingarnir kalla það. Á degi hverjum var hann jákvæður, glaður, hlýr og einlægur og umfram allt skemmtilegur og gefandi, sama hversu erfið og krefjandi verkefnin og áskoranirnar gátu verið. Alla þessa sömu eiginleika sáum við hvort sem var á Kirkjusandinum, í félagslífinu, í lagadeildinni, á ferðalögum eða bara í rólegheitum að spjalla fram á kvöld – hvað þá á karókíkvöldum. Það var einfaldlega alltaf gaman að vera innan um Adda því þar voru gerðir „frábærir hlutir“.

Addi hafði einstakt lag á að hrífa fólk með sér. Okkur gat þótt jafn gaman að vinna utan hefðbundins vinnutíma og klára þau verkefni sem á lá hverju sinni og að hittast eftir vinnu utan Kirkjusandsins af allt öðru tilefni þar sem ávallt mátti treysta á hlátur og gleði eins lengi og fólk hafði úthald til.

Hann smitaði ekki bara út frá sér lífsgleði og ómetanlegum húmor heldur sýndi einnig einstaka hlýju og hluttekningu og snart þannig líf okkar allra. Sama hvað á bjátaði í leik eða starfi þá var ávallt hægt að ræða málin við Adda og má með sanni segja að hann hafi ekki bara verið kær vinnufélagi heldur góður vinur.

Það var ólýsanlega erfitt að fylgjast með Adda þessar síðustu vikur því lífsglaðari mann var vart hægt að finna. Gleðin og húmorinn, ótrúlegustu sögur og aðstæður sem endalaust er hægt að rifja upp og hlæja að því Addi var einstakur maður sem ávallt var gaman að vera með. Þannig er minningin sem við varðveitum um þennan ljúfa dreng og munum ávallt halda á lofti.

Berglindi, Sigurði Arnari litla og fjölskyldum þeirra sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kveðja,

Rut, Anna Ragnhildur, Kristjana, Aldís,

Ragnheiður, Hugrún

og Hildigunnur.

Leiðir okkar Adda lágu saman hjá Glitni banka seinni hluta árs 2008. Báðir höfðum við nýlega hafið störf hjá bankanum þegar tók að halla undan fæti í bankakerfinu. Við tóku flókin og erfið verkefni þar sem mikið reyndi á regluvörslu, enda mörg þeirra fordæmislaus. Addi hafði einstakt lag á því að takast á við þessi verkefni af jákvæðni og drifkrafti og ávallt tók hann vel á móti þeim sem til hans leituðu með úrlausnarefni. Hann var ítrekað fenginn til að halda fyrirlestra um málefni regluvörslu á ráðstefnum erlendis vegna reynslu sinnar og þekkingar.

Við Addi fórum nokkrum sinnum til útlanda saman vegna starfa okkar hjá bankanum. Nokkur atriði eru sérlega minnisstæð frá þvælingi okkar um heiminn. Rétt fyrir eina ferðina hafði Addi runnið í bleytu á baðherbergisgólfinu heima hjá sér með þeim afleiðingum að hann var í raun ógöngufær. Fengum við því sérmeðferð á flugvöllum, þar sem ég ýtti Adda í hjólastól framhjá biðröðum, í lyftur og fyrstir út í vél. Vorum við þó sammála um að við vildum frekar bíða í röð fullfrískir en að tileinka okkur þennan ferðamáta til frambúðar. Í Nýju Jórvík studdist kappinn svo við hækjur, en það kom ekki í veg fyrir að við færum allra okkar ferða eins og ekkert hefði í skorist.

Í annarri ferð vorum við á ráðstefnu um varnir gegn peningaþvætti í Bandaríkjunum. Á sama tíma höfðu foreldrar Adda líklega verið að sjá um þorrablót Íslendinga í Orlando og komu að því búnu keyrandi til að hitta son sinn og bauðst mér í leiðinni hin besta leiðsögn um Miami. Í þessari ferð var mér kynnt til sögunnar hin víðfræga stórverslun Costco, en yfirleitt þurfti Addi að skjótast í slíka búð ef haldið var til Bandaríkjanna. Því miður entist honum ekki aldur til að taka út vöruúrval þeirrar verslunar á Íslandi, en líklega hefur hann átt sinn þátt í áhuga keðjunnar á útrás til Íslands.

Addi var hrókur alls fagnaðar og átti marga vini og kunningja sem voru svo heppnir að fá að kynnast þessum gæðadreng. Hann var ávallt vel liðtækur í skipulagningu viðburða, enda hafði hann alist upp í veitingageiranum og rak á tímabili veitingahús ásamt fjölskyldu sinni. Svo mikill áhugamaður var hann um karókí að fáum hef ég kynnst utan Asíubúa sem einokað hafa lagalistana jafn markvisst og hann. Varla mátti fara á knæpurölt öðruvísi en komið væri við á a.m.k. einum karókístað og var þá jafnan erfitt að draga kappann út aftur.

Ég á eftir að sakna þess góða drengs, sem genginn er langt fyrir aldur fram. Mest sárnar mér þó að Addi skuli ekki hafa fengið meiri tíma til samvista við eiginkonu sína og nýfæddan son. Sendi ég Berglindi, Sigurði Arnari, Stefáni, Lindu, Telmu og öðrum ættingjum og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ágúst Hrafnkelsson.

Okkar kæri vinur Kristinn Arnar Stefánsson er látinn. Með okkur lifa minningar um góðan dreng og þær samverustundir sem við vorum svo lánsamir að eiga með honum.

Við kynntumst Adda (sjaldan kallaður annað en Addi „reddari“) ýmist í Verslunarskóla Íslands eða við upphaf náms við lagadeild Háskóla Íslands haustið 1994. Okkur varð það ljóst strax í upphafi að hér var á ferðinni einstakur persónuleiki og hvers manns hugljúfi. Addi birtist okkur sem jákvæður, kraftmikill og hugmyndaríkur einstaklingur sem vildi öllum vel. Þjónustulund var honum í blóð borin og hafði hann mikla ánægju af því að gleðja samferðamenn sína. Betri og traustari vin er ekki hægt að hugsa sér.

Addi kom mönnum sífellt á óvart með uppátækjum sínum, samanber þegar hann varð sér úti um poppvél í fullri stærð og hóf að framleiða popp í miklu magni í kjallara Lögbergs með tilheyrandi lykt sem fyllti ganga hússins næstu daga og vikur. Ef einhver annar en Addi „reddari“ hefði staðið fyrir þessari uppákomu er ekki víst að því hefði verið jafn vel tekið.

Við munum seint gleyma fyrstu „vísindaferðinni“ til Þingvalla undir skeleggri forystu „véfréttarinnar“ Sigurðar Líndal prófessors. Þar sýndi Addi sitt rétta andlit og töfraði fram hanastél að hætti hússins úr aftasta sæti langferðabifreiðarinnar fyrir okkur ferðafélagana.

Vinátta okkar styrktist enn frekar þegar hluti af okkur félögunum sat með Adda í stjórn Orators, félags laganema, veturinn 1997-1998. Addi gegndi þar hlutverki alþjóðaritara og lifði sig svo inn í það hlutverk að starfið umbreyttist fljótlega í starf alþjóðareddara enda var alþjóðastarf og þá sérstaklega norrænt samstarf honum mjög hugleikið.

Til marks um kraftinn sem bjó í Adda þá gerði hann sér lítið fyrir og stofnaði veitingastaðinn Rauðará steikhús ásamt foreldrum sínum snemma í lagadeild. Í minningunni var hann þar öllum stundum, sá um innkaup og tilboðsgerð ásamt því að þjóna til borðs. Við félagarnir vorum þar fastagestir og nutum ómældrar gestrisni Adda og foreldra hans, en það var aðdáunarvert að fylgjast með hversu samstillt og náin fjölskyldan var.

Í gegnum árin höfum við farið í fjölda skemmtiferða innanlands sem utan. Sumar þeirra með veiði- eða golfívafi og aðrar bara ómengaðar skemmtireisur. Undantekningalaust var Addi hrókur alls fagnaðar og sá til þess að allar helstu nauðsynjar væru með í för.

Við höfum verið svo lánsamir að geta kallað okkur vini Adda í yfir tuttugu ár. Það er erfitt til þess að hugsa að fá ekki að njóta vináttu Adda lengur en við yljum okkur við ljúfar minningar um góðan dreng sem við verðum ævinlega þakklátir fyrir að hafa kynnst.

Addi var svo lánsamur að kynnast yndislegri konu, henni Berglindi, og eignuðust þau fallegan dreng, Sigurð Arnar. Við vitum að það veitti Adda ómælda gleði að eyða síðustu ævidögunum með nýfæddum syni sínum.

Berglindi, Sigurði Arnari og fjölskyldu ásamt ótalmörgum vinum Adda vottum við okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Grétar Már Ólafsson, Þórir Skarphéðinsson, Þórarinn Þorgeirsson

og Guðmundur

J. Oddsson.