Matmóðir „Fólk er orðið hagsýnna,“ segir Hulda Margrét Birkisdóttir hjá Kvenfélagasambandi Íslands.
Matmóðir „Fólk er orðið hagsýnna,“ segir Hulda Margrét Birkisdóttir hjá Kvenfélagasambandi Íslands. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gengið er á gæði náttúrunnar með sóun matvæla. Sé dregið úr er það sparnaður og innlegg til umhverfisverndar og sparar peninga. Verkefninu Saman gegn sóun er ætlað að sporna gegn förgun. Kvenfélagskonur láta málið til sín taka.

Gengið er á gæði náttúrunnar með sóun matvæla. Sé dregið úr er það sparnaður og innlegg til umhverfisverndar og sparar peninga. Verkefninu Saman gegn sóun er ætlað að sporna gegn förgun. Kvenfélagskonur láta málið til sín taka. Hulda María Birkisdóttir segir viðhorfin í þessum málum vera að breytast til hins betra.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Matarsóun er ástæðulaus og hugarfar almennings er að breytast. Þá er fólk orðið hagsýnna en var og þá er vitund um umhverfismál – svo sem baráttan gegn hlýnun andrúmsloftsins – að aukist. Kaupmenn greina þessi viðhorf og mæta þeim með því til dæmis að bjóða vörur sem eru nærri síðasta söludegi á afsláttarkjörum og fleira slíkt. Fólk kallar eftir slíku,“ segir Hulda Margrét Birkisdóttir hjá Kvenfélagasambandi Íslands.

Nú í vikunni var haldinn fundur á vegum umhverfisráðherra um verkefnið Saman gegn sóun . Segja má að titilinn útskýri verkefnið en næstu á tveimur árum verður barátta gegn matarsóun í forgangi þess. Á áðurnefndum fundi voru kynntar ýmsar aðgerðir sem geta stuðlað að minni sóun. Einnig var farið vítt yfir sviðið, svo sem ýmsar staðreyndir sem fyrir liggja.

Gengið á gæði náttúru

Síðasta haust var gerð könnun á vegum Landverndar um matarsóun í Reykjavík. Þar kom fram að hver Reykvíkingur sóaði minnst 48 kílóum af mat á ári hverju, sem jafngildir 37 þúsund krónum á ári. Sé sú tala margfölduð með fjórum, og miðað við að í fjölskyldu séu hjón með tvö börn, er niðurstaðan 148 þúsund krónur. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt framfærslumiðuðum Umboðsmanns skuldara eyðir fjölskylda af áðurnefndri stærð 150 þúsund krónum á mánuði í mat og hreinlætisvörur. Því má í raun segja að matarskammtur fjölskyldunnar einn mánuð á ári fari í ruslagáminn.

„Með matarsóun er gengið á gæði náttúrunnar. Til að rækta eina appelsínu þarf, fræ, jarðveg, vatn og áburð – svo og umbúðir og flutning til dæmis hingað heim. Keðjan frá Kaliforníu er óslitin og alltaf er gengið á gæði náttúrunnar, einnig ef ávextinum er fargað hér heima,“ segir Hulda Margrét.

Góð húsráð

Nokkur ár eru síðan Kvenfélagasamband Íslands fór fyrst að láta til sín taka í baráttunni gegn matarsóun, ásamt fleiri félagasamtökum. Þar hafði áhrif málflutningur dönsku baráttunnar Selina Juul sem fékk náttúru- og umhverfisverndarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir frumkvæði sitt í þessu málum. Verkefninu hér heima, sem ýmsir koma að, var hrundið af stað árið 2013 og það var svo sl. haust sem Hulda tók við málinu.

Kvenfélögin hafa í áratugi starfrækt Leiðbeiningastöð heimilanna hvar fólk hefur geta nálgast góð húsráð. Í því efni er allt undir, ekki matarmenning í víðustu merkingu. „Vakning gegn matarsóun og leiðbeiningastarfið eru af sama meiði; það að fara vel með og huga að umhverfismálum,“ segir Hulda.

Stuðli að lægra verði

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn sem út kom á síðasta ári er nokkuð fjallað um matarsóun. Þar segir að lengi hafi tíðkast að matvöruverslanir hafi skilarétt á vörum sem þær kaupa af birgjum. Þetta eigi meðal annars við um ferskar kjötvörur sem sé yfirleitt hent ef þær eru ekki farnar út á síðasta söludegi „Af þessu hlýst sóun á matvöru sem leiðir jafnframt til hærra vöruverðs. Þá er ljóst að núverandi fyrirkomulag dregur úr hvata dagvöruverslana til að stýra innkaupum og framboði á viðkvæmum ferskum vörum í samræmi við raunverulega eftirspurn,“ segir Samkeppniseftirlitið. Þar segir ennfremur að brýnt sé að bregðast við þessu með því að finna leiðir sem bæði birgjar og kaupmenn geti sætt sig við. Endurskoða beri núverandi vinnubrögð til að koma í veg fyrir matarsóun og „stuðla þannig að lækkuðu verði til neytenda,“ segir ennfremur. – Þá segir á vef Umhverfisstofnunar að magn þeirra matvæla sem sóað sé í vestrænum löndum ætti að geta brauðfætt milljónir manna. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna meti umfang þessa sem svo að 1,3 milljónir tonna af matvælum í heiminum fari í ruslið á hverju einasta ári.

Eldað úr öllu og útbúin veisla

Boðskapnum gegn matarsóun hafa kvenfélögin komið á framfæri með fyrirlestrum og útgáfu ýmiskonar upplýsingaefnis. Einnig hafi verið haldin matreiðslunámskeið í samvinnu við Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara. Á einu þessara námskeiða hafi félagskonur verið beðnar um að koma með matvörur heiman frá sér sem ýmist voru útrunnar eða aðeins farið á slá í. En samt var hægt elda úr öllu – og útbúa veislu. „Jú, það er alveg rétt að fyrst eftir efnahagshrunið tók fólk lífsstíl sinn til endurmats; henti út óþarfa og kaus að búa betur að sínu,“ segir Hulda og heldur áfram „Þessi viðhorf kunna að hafa breyst eitthvað en þó fremur þróast. Með betri nýtingu á mat má spara heilmikið. Það má til dæmis nýta afgangana af lambalæri páskanna á ýmsa vegu; útbúa smurbrauð, kjötbökur eða pottrétti sem kosta alveg sáralítið,“ segir Hulda.

Á vef Umhverfisstofnunar er má finna ýmis heillaráð sem komið geta í vef fyrir sóun matar. Þar segir að mikilvægt sé að fylgjast með hvað sé til í ísskáp og búri – og kaupa aðeins inn ef eitthvað fer að vanta og þá í hóflegu magni. Afganga megi svo nýta, til dæmis taka með sér í vinnuna eða borða næsta dag, sem varla komi að sök af vel sé gengið frá afgöngunum. Merkja eigi krukkur með deginum þegar þær voru opnaðar svo hægt sé að átta sig á því hvað þær eru orðnar gamlar. Einnig þurfi að gera greinarmun á síðasti söludegi og fyrir hvaða tíma sé best að neyta vörunnar. Yfirleitt megi neyta þurrvöru lengur en dagsetningin segi til um. Dagvöru sé svo yfirleitt hægt að frysta og nýta þar með lengur. Í þessu öllu sé samt lykilatriði að þegar farið sé í búðina sé minnislisti tiltækur – og samkvæmt honum skuli innkaupin ráðast.