Finkle missti reyndar vitið vegna atviksins í Ofurskálinni og var vistaður á geðsjúkrahúsi um hríð.

Umræðan um franska knattspyrnustjórann Arsene Wenger hjá Arsenal hefur verið mikil upp á síðkastið. Aðdáendur enska knattspyrnuliðsins hafa skipst í tvo hópa; annars vegar þá sem hrópa hástöfum „Wenger Out!“ og hins vegar þá sem vilja halda tryggð við þennan reynslubolta sem hefur stýrt liðinu í um tvo áratugi samfleytt og byggt upp lið sem spilar skemmtilegan fótbolta, oftast nær, en ekki alltaf jafn árangursríkan.

Aðdáendur Manchester United hafa margir hverjir verið í sömu tilvistarkreppu í vetur með Hollendinginn Louis van Gaal við stjórnvölinn en þessi pistill snýst ekki um það lið.

Ég verð að viðurkenna að sem Arsenal-maður var ég tvístígandi til að byrja með og vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga. Fyrir tímabilið var ég bjartsýnn og hugsaði með mér að síðustu tveir bikarmeistaratitlar og tilkoma tékknesku markkempunnar Petrs Cechs gætu orðið nóg til þess að liðið myndi hampa langþráðum Englandsmeistaratitli í ár, eða þeim fyrsta síðan 2004.

Það virðist ekki ætla að ganga eftir, enda hefur lítið sem ekkert gengið hjá liðinu upp á síðkastið og núna hef ég endanlega ákveðið að ganga til liðs við fyrrnefnda hópinn (The dark side?) sem vill losna við Wenger og það sem fyrst.

„Wenger Out!“ minnir mig reyndar á frasa úr gamanmyndinni ágætu Ace Ventura, „Laces out!“. Frasinn var hafður eftir persónunni Ray Finkle, ruðningskappa sem mistókst að spyrna knettinum í mark í Ofurskálinni með hræðilegum afleiðingum.

Finkle kenndi þeim sem stillti boltanum upp fyrir hann um spyrnuna misheppnuðu og hélt því ranglega fram að reimarnar hefðu ekki verið „úti“ eins og hann vildi, heldur hefðu þær verið á sjálfu spyrnusvæðinu. Þess vegna hefði spyrnan misfarist.

Það getur verið þægilegt að stinga höfðinu í sandinn og kenna einhverjum öðrum um ef manni gengur illa. Dómurunum, óheppni, sérlega góðum andstæðingum (MSN) eða jafnvel peningaaustri annarra liða í leikmenn. Arsene Wenger hefur einmitt tekist að verða meistari í þeirri íþrótt en núna mætti hann fara að líta í eigin barm og viðurkenna mistök sín. Finkle missti reyndar vitið vegna atviksins í Ofurskálinni og var vistaður á geðsjúkrahúsi um hríð. Þó að einhverjir Arsenal-aðdáendur telji að hann hafi fyrir löngu misst vitið er ég ekki á sömu skoðun. Það er enn einhver vitglóra eftir í karlinum en hún verður minni með hverri mínútunni.

Freyr Bjarnarson freyr@mbl.is

Höf.: Freyr Bjarnarson freyr@mbl.is