Meistari Jón Þorsteinsson kom, eins og venjulega, hlaðinn verðlaunum úr keppni kjötiðnaðarmeistara. Það gerðu einnig átta samstarfsmenn hans hjá SS. Sex afurðir sem hann sendi inn fengu gullverðlaun.
Meistari Jón Þorsteinsson kom, eins og venjulega, hlaðinn verðlaunum úr keppni kjötiðnaðarmeistara. Það gerðu einnig átta samstarfsmenn hans hjá SS. Sex afurðir sem hann sendi inn fengu gullverðlaun. — Ljósmynd/SS
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Frá því ég kynntist þessum hráverkuðu vörum fyrst hef ég haft brennandi áhuga á þeim. Verið að fikta í þessari verkun heima og í vinnunni,“ segir Jón Þorsteinsson, Kjötmeistari Íslands 2016.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Frá því ég kynntist þessum hráverkuðu vörum fyrst hef ég haft brennandi áhuga á þeim. Verið að fikta í þessari verkun heima og í vinnunni,“ segir Jón Þorsteinsson, Kjötmeistari Íslands 2016. Hráskinkan hans gerði útslagið í keppninni.

Þetta er í þriðja skiptið sem Jón sigrar í Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna og hefur hann verið sigursælasti keppandinn síðustu árin. Keppnin er að jafnaði haldin annað hvert ár og sigraði Jón 2010, 2014 og núna og varð í öðru sæti árið 2012.

Hver keppandi sendir afurðir í fimm flokka undir nafnleynd og dæmir hópur dómara gæðin. Jón fékk gullverðlaun fyrir sex afurðir, sem þýðir að dómararnir hafa talið þær gallalausar, og þrenn silfurverðlaun. Meðal gullverðlaunaafurðanna var hráskinka og hún vann auk þess tvo flokka; var talin besta varan unnin úr svínakjöti og besta sælkeravaran.

„Þetta er fyrst og fremst mikill heiður og viðurkenning á því sem maður er að gera,“ segir Jón um þýðingu þess að vinna þessa keppni.

Hugmyndum skýtur upp

Jón starfar í kjötiðnaðarstöð Sláturfélags Suðurlands á Hvolsvelli, er þar verkstjóri í pylsugerð og heldur auk þess utan um vöruþróun stöðvarinnar. „Fagmaður fram í fingurgóma, hugmyndaríkur og öllum hnútum kunnugur,“ segir samstarfsmaður hans.

Jón segir að hugmyndirnar við vöruþróunina komi víða að en aðallega þó eftir tveimur leiðum. „Stundum erum við með hráefni sem við þurfum að afsetja. Þá er farið í hugmyndavinnu til að leita leiða til þess. Stundum skýtur líka upp sniðugum hugmyndum hjá okkur.“ Hann bætir því við að oft komi frá neytendum hugmyndir sem hægt er að vinna út frá.

Þótt SS-pylsurnar séu vinsæl vara sem reynt er að breyta sem minnst fær hugmyndaauðgin líka að njóta sín í pylsugerðinni. Framleiddar eru aðrar gerðir af pylsum. Þannig öfluðu chilipylsur Jóni gullverðlauna í fagkeppninni. Þær eru seldar í einhverjum veitingastöðum N1.

Hægt að verka hér

Hráskinkan er svínslæri sem er saltað og látið hanga og þorna, þekkt afurð í Suður-Evrópu og hefur verið að sækja í sig veðrið víðar. Jón segir greinilegt af viðtökum dómnefndarinnar að hægt sé að gera góða vöru úr þessu hráefni hér. Hráskinkan frá SS er ekki á markaði en Jón telur að sölu- og markaðsdeildin hafi hér verðugt verkefni.

20 ár á sama vinnustað

Jón er ættaður úr Vík í Mýrdal. Hann lærði kjötiðn hjá Sláturfélagi Suðurlands og hefur unnið hjá fyrirtækinu í tuttugu ár samfleytt. Áður hafði hann unnið við sauðfjárslátrun hjá SS.

Hann verður 46 ára á þessu ári. Kona hans er Guðrún Berglind Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri dvalarheimilisins Hjallatúns í Vík. Þau eiga þrjú börn.