Öflugur KR-ingurinn Michael Craion brýtur sér leið framhjá Grindvíkingnum Jens Valgeir Óskarssyni. KR og Grindavík mætast aftur á sunnudagskvöldið.
Öflugur KR-ingurinn Michael Craion brýtur sér leið framhjá Grindvíkingnum Jens Valgeir Óskarssyni. KR og Grindavík mætast aftur á sunnudagskvöldið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Kristján Jónsson kris@mbl.is Flaggskip Knattspyrnufélags Reykjavíkur um þessar mundir, karlalið félagsins í körfuknattleik, er byrjað að leggja drög að sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð.

Í Vesturbænum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Flaggskip Knattspyrnufélags Reykjavíkur um þessar mundir, karlalið félagsins í körfuknattleik, er byrjað að leggja drög að sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð. Liðið mætti til leiks í úrslitakeppni Íslandsmótsins í gærkvöldi sem handhafi allra þriggja bikaranna. KR afgreiddi Grindavík fagmannlega 85:67 í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum í Frostaskjólinu en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslitin.

Flaggskipið var vel skreytt á þeirri hátíðarstundu sem fyrsti dagur úrslitakeppninnar er fyrir körfuboltaáhugafólk. Ekki ósvipað sjómannadeginum sem Grindvíkingar fagna iðulega vel. Meistararnir skoruðu fyrstu ellefu stig leiksins og létu forystuna aldrei af hendi. Héldu Grindvíkingum í góðri fjarlægð lengst af og lönduðu sigrinum að því er virtist áreynslulítið. Grindvíkingar minnkuðu muninn niður í tíu stig seint í þriðja leikhluta og þá var mesta spennan í leiknum. Segir það ef til vill nokkuð um hversu öruggur sigurinn var.

Brynjar gaf tóninn

Leikurinn í gær var ágæt vísbending um hversu erfitt er að verjast KR-liðinu. Iðulega voru einhverjir í opnu færi og skyttur eins og Brynjar og Helgi nýttu sér það vel en þeir skoruðu 17 og 19 stig. Brynjar skoraði raunar þrjár þriggja stiga körfur á fyrstu þremur mínútum leiksins og gaf þar tóninn.

Nú er það svo sem ekkert nýtt að KR spili vel og framkvæmi hlutina fagmannlega. Þeir eru jú meistarar síðustu tveggja ára en í gær var áberandi hversu einbeittir þeir voru. Slökuðu aldrei á upp að því marki sem hættulegt gæti reynst. Grindvíkingar komust því aldrei almennilega inn í leikinn.

Leikgleðina vantaði

Grindavík hlýtur að geta gert betur í næsta leik á heimavelli en liðið gerði í gærkvöldi. KR er vissulega betra lið í vetur enda fékk liðið helmingi fleiri stig í deildakeppninni. En Grindvíkingar geta þó alla vega byrjað á því að berjast betur og sýna meiri baráttuanda. Leikmenn virtust hálfdofnir og leikgleðin sem maður hélt að fylgdi úrslitakeppninni var ekki sjáanleg.

Þrátt fyrir að KR-liðið sé sterkara er byrjunarlið Grindavíkur þannig skipað að þeir eiga að geta strítt hvaða liði sem er. Jón Axel er smám saman að verða einn af bestu leikmönnum deildarinnar og Þorleifur, Jóhann og Ómar hafa allir orðið meistarar með liðinu. Það er hins vegar ekki nóg að fletta gömlum Moggum frá meistaraárunum. Þeir verða að sýna inni á vellinum að þeir geti ennþá afrekað eitthvað. Lítið framlag kom frá Jóhanni og Þorleifi í gær en Ómar stóð þó fyrir sínu.

KR – Grindavík 85:67

DHL-höllin, Dominos-deild karla, 8-liða úrslit, 1. leikur, fimmtudag 17. mars.

Gangur leiksins : 11:0, 19:6, 24:11, 27:15 , 29:19, 35:24, 43:31, 49:33 , 57:38, 59:46, 61:51, 68:55 , 72:55, 80:57, 83:63, 85:67.

KR : Michael Craion 19/7 fráköst/4 varin skot, Helgi Már Magnússon 19, Brynjar Þór Björnsson 17/4 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 8, Björn Kristjánsson 7, Snorri Hrafnkelsson 6, Darri Hilmarsson 5/5 fráköst, Pavel Ermolinskij 4/12 fráköst/8 stoðsendingar.

Fráköst : 30 í vörn, 6 í sókn.

Grindavík : Charles Wayne Garcia Jr. 21/12 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 20/8 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 10/12 fráköst/10 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 7/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 5/3 varin skot, Kristófer Breki Gylfason 3, Hinrik Guðbjartsson 1.

Fráköst : 23 í vörn, 19 í sókn.