Guðrún Helga Sigurðardóttir fæddist í Hnífsdal 8. júlí 1938. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 5. mars 2016. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmunda J. Bæringsdóttir, f. 22. október 1904, d. 26. desember 1994, og Sigurður G. Sigurðsson, f. 19. febrúar 1902, d. 21. maí 1969. Systkini Guðrúnar eru: Hermann, f. 12. júlí 1926, d. 18. desember 1986, Arnór, f. 4. október 1927, d. 14. september 1993, Jóna Sigríður, f. 12. febrúar 1929, d. 24. desember 1929, Marinó, f. 23. mars 1931, Kristinn, f. 3. september 1934, d. 31. desember 1952, Baldur, f. 1. nóvember 1935, og Kristín, f. 9. mars 1942.

Guðrún Helga ólst upp á Ísafirði, lauk þar gagnfræðaprófi en árið 1954 fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar. Hinn 14. janúar 1967 giftist hún Böðvari S. Daníelssyni f. 19. maí 1923, d. 2. apríl 1998. Þau hjónin bjuggu í Foss-seli í Hrútafirði og síðar á Hvammstanga. Þeim varð ekki barna auðið, en fyrir átti Guðrún tvær dætur, fæddar og uppaldar í Hafnarfirði: 1) Ragnheiður Elísabet, f. 10. ágúst 1956, faðir, Jón Rafn Einarsson, f. 15. júlí 1937. Fyrri maki Ragnheiðar, Jóhann Guðjónsson, f. 5. júlí 1950, dóttir þeirra er Guðrún Eva, f. 18. júlí 1978, maki, Óskar Pétur Einarsson, f. 12. júní 1972. Börn þeirra eru Jóhanna Eldey, f. 1. september 2008, og Daníel Orri, f. 14. október 2012. Maki Ragnheiðar, Þorvaldur Örn Árnason, f. 15. desember 1947, dóttir þeirra er Eyþrúður, f. 24. júní 1994, sambýlismaður Óskar Þór Arnarsson, f. 27. júlí 1990. 2) Kristrún Ólöf, f. 11. febrúar 1962, faðir, Þorsteinn Ólafur Jónsson, f. 6. apríl 1936, d. 19. mars 1971. Fyrrverandi sambýlismaður Kristrúnar er Yngvi Harðarson, f. 27. júlí 1961. Börn þeirra eru: Hrafnkell Ari, f. 4. júlí 1988, Eygló, f. 3. febrúar 1993, og Hafþór Logi, f. 5. október 1994.

Guðrún Helga vann ýmis störf eftir því sem heilsan leyfði, t.d. við fiskvinnslu á Ísafirði, í Hafnarfirði og á Hvammstanga, á Sólvangi í Hafnarfirði í eldhúsinu og sem gangastúlka. Hún gerðist kaupakona og síðar húsmóðir í Foss-seli með tilheyrandi sveitastörfum, en sá bær fór í eyði 1979, eftir að þau hjónin brugðu búi vegna heilsubrests. Þau fluttu íbúðarhúsið til Hvammstanga og bjuggu þar, á Hlíðarvegi 17, allt þar til Böðvar andaðist. Guðrún fluttist þá suður til Hafnarfjarðar og naut þess vel að vera nær ættingjum sínum og afkomendum. Síðasta áratuginn dvaldist hún á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík.

Útför Guðrúnar Helgu fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. mars 2016, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku amma.

Minni mitt er ekki jafn gott og þitt gat verið og ég á ekki sérstaklega sterkar minningar úr æsku um samveru okkar. Þetta eru minningabrot frá því þegar við fjölskyldan komum við á Hvammstanga á leiðinni norður eða að norðan og stoppuðum hjá þér og Böðvari, þið áttuð hesta og ég elskaði að fá að fara á hestbak. Stundum komuð þið Böddi saman í bæinn og pabbi lóðsaði ykkur gegnum villandi borgarumferðina í Hafnarfjörðinn til okkar. Stundum komst þú ein í bæinn og við mamma heimsóttum þig í Fossvoginn. Seinna heimsótti ég þig á marga staði sem áttu að kallast heimili en urðu það aldrei, það er að segja ekki fyrr en þú fannst griðastað á Sóltúni. Ég kom oft að heimsækja þig á Sóltún, við gátum spjallað um ýmislegt, hvort sem það var um fjölskylduna, ferðalög, tónlist, sögur úr fortíðinni eða þá bara að þú sagðir mér frá einhverju spennandi úr Leiðarljósi. Stundum nægði okkur að sitja bara og horfa á barnabarnabörnin þín leika sér. Þau glöddu þig svo mikið og fengu alltaf hlýjar móttökur með piparkökum, þó að ég giski á að stundum hafirðu líka verið hálffegin þegar allt varð aftur rólegt eftir að við kvöddum. Ég er svo innilega þakklát fyrir samverustundirnar okkar á Sóltúni og fegin því að hafa fengið þennan tíma til að kynnast þér betur.

Elsku amma, ég ætlaði að tala bara undir rós um veikindin sem þú glímdir við nánast alla ævina, geðsjúkdómar hafa alltaf verið svo mikið feimnismál. En sjúkdómurinn gerði þig að þeirri persónu sem þú varst, stundum erfið en líka margbrotin og litrík, veik en samt svo undarlega sterk. Þú varst afskaplega fjölskyldurækin og umhyggja þín fyrir okkur kristallaðist í því hvernig við vorum þér alltaf efst í huga þó að stundum hafi verið erfitt hvernig áhyggjurnar af okkur bjuggu til undarlegar myndir í huga þínum. Ég sakna þín, amma mín, og ég elska þig.

Þín,

Eva.