Verk Tuma „Anddyri og stigagangur safnsins hefur tekið skemmtilegum stakkaskiptum með flennistórum ljósmyndum, nærmyndum af andlitshlutum (auga, nefi, eyra og tönnum) í verkinu Fjölskylduportrett,“ skrifar rýnir.
Verk Tuma „Anddyri og stigagangur safnsins hefur tekið skemmtilegum stakkaskiptum með flennistórum ljósmyndum, nærmyndum af andlitshlutum (auga, nefi, eyra og tönnum) í verkinu Fjölskylduportrett,“ skrifar rýnir. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 1. maí 2016. Opið þri.-su. kl. 11-17. Aðgangur 1.200 kr. 67 ára og eldri, öryrkjar, námsmenn, hópar 10+ kr. 600. Yngri en 18 ára: ókeypis.

K vartett heitir samsýning fjórmenninganna Chantal Joffe, Gauthier Huberts, Jockum Nordströms og Tuma Magnússonar í sal 1, í anddyri og á stigapalli í Listasafni Íslands. Aðferðir og áherslur listamannanna eru ólíkar en þó má segja að allir fáist þeir við fígúrasjón í verkum sínum, auk þess sem ýmis krosstengsl eru á milli verka þeirra. Portrettformið er áberandi á sýningunni og þá sérstaklega í málverkum Joffe og Huberts og ljósmyndaverkum Tuma sem skírskota engu að síður til málverksins, bæði formrænt og listsögulega. Samklippiverk Nordströms eru unnin með blandaðri tækni og þar koma m.a. við sögu ljósmyndir, vatnslitir, vaxlitir og blýantur. Þá sýnir Tumi vídeóinnsetningu í sal 2.

Sýningin gefur góða innsýn í viðfangsefni samtímalistamanna sem fást við tvívíða miðla. Tumi skapaði sér í upphafi ferilsins nafn fyrir málverk sín og hefur í seinni tíð unnið með blendingsform sem tengjast m.a. tölvutækni. Rýmið er iðulega mikilvægur þáttur í verkum hans og eru verkin á þessari sýningu unnin sem innsetningar í safnrýmið. Anddyri og stigagangur safnsins hefur tekið skemmtilegum stakkaskiptum með flennistórum ljósmyndum, nærmyndum af andlitshlutum (auga, nefi, eyra og tönnum) í verkinu Fjölskylduportrett . Engu er líkara en að hið arkitektóníska rými hafi öðlast lífræna eiginleika; að það leggi við hlustir, þefi af safngestum, sýni tennurnar og fylgist með honum. Þá berst náttúruhljóð (lækjarniður) úr hátölurum í hljóðverki eftir Tuma; hljóð sem örvar skilningarvitin og minnir á framrás tímans í hinu annars upphafna safnrými.

Stækkun ljósmyndanna og afstraksjón formanna sem hún hefur í för með sér, gerir að verkum að þær fá malerísk yfirbragð. Þær kallast þannig á við verk hinna listamannanna inni í sal 1, sem og við önnur verk Tuma sem kallast Holbein . Þau verk skírskota til málverks eftir endurreisnarmálarann Hans Holbein og svonefndrar trompe-l‘oeil tæknibrellu í málverki. Teygð og toguð mynd af hauskúpu í þessu verkum Tuma skírskotar til dægurmenningar samtímans og felur í sér áminningu um hverfulleika lífsins í anda vanitas -hefðar (þar sem hauskúpan er sígild táknmynd).

Í myrkvuðu rými í sal 2 sjást myndskeið (með hljóði) af bílum er aka fram og aftur í sterkri hrynjandi sem minnir á andardrátt. Með þessari endurhljóðblöndun á síbylju hversdagslegs umhverfis í borgarlandslaginu tekst Tuma að skapa sérstakt andrúmsloft sem höfðar til skynjunar áhorfandans og innri viðbragða.

Nosturslega máluð verk Huberts hafa einnig vissa líkamlega nærveru og sterka tilfinningu fyrir tíma. Fyrirsætur hans eru flestar komnar nokkuð til ára sinna, ein þeirra telur meira en 500 ár í tíma eða allt aftur til þeirra stunda þegar Hans Holbein málaði portrett af henni ungri. Aðrar sátu fyrir hjá Picasso og virðast andlitsdrættirnir á einhvern annarlegan hátt hafa runnið saman við hina kúbísku túlkun spænska málarans – eða er það tíminn sem hefur þessi umbreytingaráhrif á andlit kvennanna? Verk hans fela einnig í sér ágenga tilfinningu fyrir áhorfi. Listamaður horfir á fyrirsætu sína sem sjálf horfir, ýmist inni í verkinu eða út úr því – á okkur sem horfum. Og hvert horfum við? Hvers konar spegill er andlit áhorfandans?

Myndir Huberts eru úthugsaðar með tilliti til myndbyggingar og litameðferðar og sækja þannig styrk sinn ekki síður í formræna útfærslu en hugmyndalega þætti. Sama má segja um málverk Joffe af sínu nánasta fólki, en hún leggur mikið upp úr vönduðu málverki, þótt verkin kunni í fyrstu að virðast kæruleysislega máluð og hafa yfirbragð skyndiljósmyndarinnar. Hversdagsleikinn er henni hugleikinn og leitast hún við að laða fram töfra hans og persónuleika fyrirsætanna í gegnum málunarferlið.

Bæði Joffe og Hubert sækja í og vísa í fyrirmyndir úr listasögunni, rétt eins og Tumi, og er mannslíkaminn „nálægur“ í túlkun þeirra, bæði sem fyrirmynd verkanna og í því hvernig verkin höfða líkamlega til áhorfandans.

Þótt Nordström virðist skera sig nokkuð úr með samklippiverkum sem skírskota í myndasöguformið þá búa verk hans engu að síður yfir efniskennd og blæbrigði í áferð.

Hið skoplega og bernska yfirbragð verkanna og annarleiki frásagnarinnar á sér einnig hliðstæður í verkum Huberts. Í verkunum Hljóðið , Morgunninn , Ár hundsins og Beltið leggur Nordström minna upp úr myndasögunni og leyfir sér súrrealískari efnistök þar sem óvæntar samsetningar skapa formrænan galdur.

Kvartett er áferðarrík sýning og blanda listamannanna áhugaverð. Samleikur verka þeirra er hljómfagur kvartett, fullur af fjöri og leik – en með íhugulum undirtónum.

Anna Jóa

Höf.: Anna Jóa