Einvígi Myron Dempsey hjá Tindastóli reynir skot en Jerome Hill úr Keflavík, fyrrverandi leikmaður Sauðkrækinga, reynir að stöðva hann.
Einvígi Myron Dempsey hjá Tindastóli reynir skot en Jerome Hill úr Keflavík, fyrrverandi leikmaður Sauðkrækinga, reynir að stöðva hann. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.

Í Keflavík

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

„Við komum til með að bera virðingu fyrir þessu Keflavíkurliði þegar þeir koma í heimsókn,“ sagði Helgi Margeirsson, leikmaður Tindastóls, við Morgunblaðið eftir fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik í gærkvöldi í Keflavíkinni. Tindastóll fór með sigur í leiknum með 100 stigum gegn 90 stigum heimamanna. Þar með leiða Tindastólsmenn 1:0 í þessari seríu og halda heim í Skagafjörðinn með gott veganesti en liðin mætast aftur fyrir norðan á sunnudagskvöldið.

Umtalið fyrir leik var þannig að Keflavíkurliðið væri minnimáttar í þessari seríu þrátt fyrir að vera með heimavallarréttinn. Kannski ekki að undra þar sem Tindastólsmenn hafa varla tapað leik síðan þeir losuðu sig við Jerome Hill, sem einmitt leikur með Keflavík.

Neituðu að gefast upp

Tindastólsmenn voru öllu öruggari í sínum aðgerðum þetta kvöldið og má segja að sigur þeirra hafi verið nokkuð sanngjarn. Keflvíkingar sýndu hins vegar að það er aldrei óhætt að leggja niður vopn fyrr en síðasti maður er fallinn. Hvað eftir annað virtist Tindastóll vera að fara að koma sér í þægilegt forskot en Keflvíkingar neituðu að gefast upp og klóruðu sig til baka inn í leikinn. Nokkuð sem þeir bláklæddu geta byggt á fyrir komandi rimmur.

En það var mikill hiti í mönnum þetta kvöldið og dómarar höfðu aðvarað nánast alla í húsinu fyrir utan undirritaðan vegna ýmissa mála. Svo fór að Magnús Þór Gunnarsson fékk að fjúka út úr húsi með tvær ódýrar tæknivillur á bakinu og ekki hjálpaði það heimamönnum að missa sinn reyndasta mann í sturtuna.

En það er þetta með varnarleik Keflvíkinga, sem hefur verið þeirra akkilesarhæll í vetur. Hvað eftir annað fá þeir á sig þessi 100 stig eða meira og þegar í úrslitakeppni er komið er afar erfitt að komast upp með það. Annað sem þjáði þá einnig í gær vasr að þeir pössuðu knöttinn ekki nægilega vel og 20 tapaðir boltar voru þeim dýrkeyptir.

Tindastólsmenn líta gríðarlega vel út og vopnabúr þeirra með tvo erlenda leikmenn sannaði sig í gær. T.a.m. murkaði Myron Dempsey lífið úr Keflavíkurvörninni en fór svo á bekkinn og inn kom Anthony Gurley sem hélt áfram að þjarma að heimamönnum. Skagfirðingar hafa nú slegið helsta vopn Keflvíkinga úr höndum þeirra; heimavallarréttinn. Miðað við leik gærkvöldsins ætti fátt að stoppa þá í því að komast áfram í fjögurra liða úrslit. Keflvíkingar hins vegar sýndu að þeir hætta aldrei en þeir þurfa að vonast til að Tindastólsmenn hitti á slæman leik heimafyrir, sem reyndar hefur ekki gerst svo mánuðum skiptir.

Keflavík – Tindastóll 90:100

TM-höllin, Dominos-deild karla, 8-liða úrslit, 1. leikur, fimmtudag 17. mars 2016.

Gangur leiksins : 5:7, 7:11, 13:22, 21:27 , 28:37, 37:44, 43:48, 48:54 , 50:56, 52:65, 59:72, 69:79 , 76:83, 80:86, 85:90, 90:100 .

Keflavík : Reggie Dupree 17/4 fráköst, Jerome Hill 15/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 14/6 fráköst, Valur Orri Valsson 13/9 fráköst/10 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 8, Ágúst Orrason 6, Davíð Páll Hermannsson 6, Andri Daníelsson 5, Magnús Már Traustason 4, Andrés Kristleifsson 2.

Fráköst : 27 í vörn, 13 í sókn.

Tindastóll : Myron Dempsey 31/9 fráköst, Darrel Lewis 21/4 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir, Anthony Isaiah Gurley 18/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 14/6 fráköst, Viðar Ágústsson 7/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 5, Svavar Atli Birgisson 4.

Fráköst : 19 í vörn, 11 í sókn.