Jakob Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfuknattleik, fór á kostum í gærkvöld og skoraði 34 stig þegar Borås sótti Nässjö heim í átta liða úrslitunum um sænska meistaratitilinn. Þetta dugði þó ekki því Nässjö vann leikinn, 67:66, og jafnaði metin í einvíginu í 1:1. Þrjá sigra þarf til að fara áfram. Jakob kom Borås yfir, 66:65, með þriggja stiga körfu þegar átta sekúndur voru eftir en heimamenn skoruðu sigurkörfuna fjórum sekúndum síðar.
Hlynur Bæringsson skoraði 15 stig fyrir Sundsvall í góðum sigri á Norrköping, 67:65, og lið hans jafnaði metin í 1:1. vs@mbl.is