[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópukeppni Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Liverpool er fulltrúi Englands í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir að hafa slegið út erkifjendurna í Manchester United í gærkvöld.

Evrópukeppni

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Liverpool er fulltrúi Englands í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir að hafa slegið út erkifjendurna í Manchester United í gærkvöld. Seinni viðureign liðanna á Old Trafford endaði 1:1 en Liverpool stóð vel að vígi í upphafi leiks eftir að hafa sigrað 2:0 í sínum heimaleik í síðustu viku.

United var þó komið hálfa leiðina að því að jafna metin því liðið fékk vítaspyrnu á 32. mínútu þegar Nathaniel Clyne felldi Anthony Martial og úr henni skoraði Martial sjálfur, 1:0. Annað mark þurfti til að ná í framlengingu, en ljóst var að eitt mark frá Liverpool myndi nánast gera út um viðureignina.

Það lét ekki bíða lengi eftir sér því á lokamínútu fyrri hálfleiks brunaði Philippe Cautinho upp vinstri kantinn og inn í vítateig United þar sem hann skoraði glæsilega framhjá David de Gea úr þröngu færi, 1:1.

Þar með hefði United þurft að skora þrjú mörk í seinni hálfleik til að fara áfram og það var aldrei möguleiki.

Sigur Liverpool er sögulegur að því leyti að Manchester United hefur aldrei áður verið slegið út af ensku liði í Evrópukeppni. Áður hafði United mætt Tottenham (1963), Everton (1964), Arsenal (2009) og tvívegis Chelsea (2008 og 2011) og haft betur í öll skiptin. Fyrri rimman við Chelsea var úrslitaleikur Meistaradeildarinnar og United sló Arsenal út í undanúrslitum sömu keppni.

Pochettino samur við sig

Vonir Tottenham voru litlar eftir 3:0-ósigur gegn Dortmund í Þýskalandi. Knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino lék sama leik og í fyrri viðureigninni og hvíldi marga af fastamönnum liðsins á White Hart lane í gærkvöld. Dortmund vann aftur, nú 2:1. Pierre-Emerick Aubameyang gerði bæði mörk Dortmund en Heung-Min Son minnkaði muninn fyrir Tottenham.

Ævintýri Birkis á enda

Evrópuævintýri Birkis Bjarnasonar lauk í gærkvöld þegar hann og félagar hans í Basel voru skotnir út úr keppninni í fyrri hálfleiknum í Sevilla á Spáni. Kevin Gameiro gerði út um viðureignina með tveimur mörkum í lok fyrri hálfleiks en áður hafði Adil Rami skorað fyrir Spánverjana. Lokatölur 3:0 eftir markalaust jafntefli í fyrri viðureigninni í Sviss.

Birkir lék fyrsta klukkutímann á vinstri kantinum hjá Basel en var þá skipt af velli.

Auk Liverpool, Dortmund og Sevilla eru það Villarreal, Sparta Prag, Valencia, Shakhtar Donetsk og Braga sem eru komin í átta liða úrslit keppninnar. Dregið verður um hádegið í dag.