Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Hugmyndin var að prófa eitthvað nýtt í húsinu, en hún kviknaði í samtali okkar Ragnheiðar [Jónsdóttur] sem rekur húsið,“ segir Kristjana Stefánsdóttir söngkona sem ásamt djasstríói sínu tekur á móti gestum í djassaðan málsverð í Hannesarholti á Grundarstíg 10 í kvöld kl. 19. Tríóið skipa auk Kristjönu þeir Kjartan Valdemarsson á píanó og Gunnar Hrafnsson á kontrabassa.
Alla jafna er veitingastaðurinn í Hannesarholti ekki opinn á kvöldin og er þetta er í fyrsta sinn sem Hannesarholt býður upp á kvöldverð og lifandi tónlist fyrir almenning.
Að sögn Kristjönu verður boðið upp á þriggja rétta matseðil í kvöld, en tríóið leikur valda djassstandarda fyrir gesti og spjallar um matinn og tónlistina á persónulegum nótum.
„Margir tónlistarmenn eru miklir mataráhugamenn, sem tengist kannski eitthvað því að það er hægt að spinna bæði tónlistina og í eldhúsinu, því maður þarf ekki alltaf að fara eftir uppskrift,“ segir Kristjana og upplýsir að matseðill kvöldsins samanstandi af Manhattan-hanastéli í fordrykk ásamt munnbitum úr eldhúsinu, í aðalrétt er New Orleans Gumbo-sjávarréttasúpa og eftirrétturinn sé pekanhnetubaka með ís.
„Það lá beint við að tengja matseðilinn við New Orleans, því fyrstu djassböndin sem komu fram í heiminum störfuðu í New Orleans. Gumbo er sérréttur frá New Orleans. Þetta er matarmikil og vel krydduð súpa með miklu grænmeti. Pekanhnetubaka er á matseðli allra veitingahúsa í New Orleans. Forrétturinn er Manhattan kokteill, en New York er stóra djasshjartað í Bandaríkjunum í dag. Einn frægasti djassstandard sem Ella Fitzgerald hefur nokkurn tímann flutt heitir einmitt „Manhattan“. Það er því næsta víst að hann verður fluttur,“ segir Kristjana og tekur fram að efnisskráin muni samanstanda af fallegum djasslögum sem allir þekkja í bland við mikla fegurð.
Falleg lög með djúsí textum
„Okkur langaði til að flytja falleg lög með djúsí textum og brothættum laglínum. Þetta verður því mikið eyrnakonfekt,“ segir Kristjana. Meðal laga kvöldsins má nefna: „The Song is You“, „Blame it on My Youth“, „Time Alone Will Tell“, „Body and Soul“, „It Never Entered My Mind“, „On the Sunny Side of the Street“ og „Exactly Like You“. „Hver veit nema við endum síðan á „Summertime“ í tilefni þess að lóan er komin og vorið á næsta leiti.“Aðspurð segir Kristjana að liðsmenn tríósins muni ekki aðeins syngja og tala heldur líka fá sér af matnum. „Við ætlum að fá okkur að borða með fólkinu. Þetta verður mjög kósí stund og nánast eins og við strákarnir séum sjálf að taka á móti gestum þar sem við tökum lagið milli rétta. Þeir munu síðan leika instrúmental tónlist meðan gestir borða aðalréttinn, þannig að þeir fá líka að djamma smá án mín,“ segir Kristjana og reiknar með að dagskránni ljúki milli kl. 22 og 23.
Spurð hvort þessi djassaði málsverður kvöldsins sé kominn til að vera svarar Kristjana því til að hún viti það ekki. „Við erum að renna svolítið blint í sjóinn. Þetta prógramm gæti hentað mjög vel fyrir erlenda ferðamenn og þá væri ekkert vitlaust að bjóða líka upp á íslenskan djass.“
Þess má að lokum geta að gestafjöldi er takmarkaður og miðar einungis seldir fyrirfram á vefnum midi.is.