Bjór Þorvarður Gunnlaugsson býr í Lofoten í Noregi og framleiðir þar bjór undir heitinu Lofotpils.
Bjór Þorvarður Gunnlaugsson býr í Lofoten í Noregi og framleiðir þar bjór undir heitinu Lofotpils. — Morgunblaðið/Anna Lilja Þórisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Norskur bjór, framleiddur af Íslendingnum Þorvarði Gunnlaugssyni, hefur fengið afbragðsviðtökur meðal Norðmanna. Framleiðslan hófst í fyrra, nú eru bjórtegundirnar orðnar tíu og fleiri eru í bígerð.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Norskur bjór, framleiddur af Íslendingnum Þorvarði Gunnlaugssyni, hefur fengið afbragðsviðtökur meðal Norðmanna. Framleiðslan hófst í fyrra, nú eru bjórtegundirnar orðnar tíu og fleiri eru í bígerð. Í ár er stefnt að því að framleiða meira en þrefalt meira magn en í fyrra og ákavítis er að vænta.

Fyrirtæki Þorvarðar heitir Lofotpils og er staðsett við höfnina í Svolvær sem er um 5.000 manna bær í Lofoten í Norður-Noregi og þar hefur hann búið í rúm 20 ár. „Vatnið hér í Lofoten er sérlega mjúkt og nánast laust við steinefni. Það hentar því sérstaklega vel til framleiðslu á pils-bjór,“ segir Þorvarður.

Hjá Lofotpils starfa fimm manns, m.a. þýskur bruggmeistari. Að sögn Þorvarðar er Lofotpils skilgreint sem „mikrobryggeri“ eða smábrugghús, en það hafi þó töluverða sérstöðu í hópi slíkra brugghúsa. ,Allur okkar bjór er bragðmildur, öfugt við mörg smærri brugghús sem leggja áherslu á bragðsterkan bjór. Við erum reyndar í stærri kantinum fyrir smábrugghús, í fyrra seldum við 120.000 lítra og seldum 50.000 á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Stefnan er sett á 400.000 lítra í ár, “ segir Þorvarður og bætir við að það markmið ætti auðveldlega að nást. Bjórinn er enn sem komið er eingöngu seldur í Noregi, en Þorvarður segir að verið sé að skoða mögulegan útflutning.

Reyndar er verksmiðjan búin tækjabúnaði sem ræður við tvær milljónir lítra á ári, en tankarnir í verksmiðjunni taka 500.000 lítra á ári. „Ef við förum yfir það, þurfum við að bæta við tönkum.“

Skiptir máli að marka sér sérstöðu

Þegar blaðamaður tók hús á Þorvarði í verksmiðjunni í síðustu viku var verið að brugga þar hveitibjór. Inn um glugga á stállituðu tæki, sem leit út eins og þvottavél í yfirstærð, sást eitthvað sem helst líktist þykkum hafragraut. Þar var verið að sjóða bjórinn.

Nú eru tíu tegundir bjórs undir merkjum Lofotpils seldar um allan Noreg, m.a. kaldgerjaður bjór eða pils, jólabjór og nokkrar gerðir hveitibjórs. Sumar gerðirnar eru framleiddar í tveimur styrkleikum, annars vegar með 4,7% áfengisinnihald sem selja má í almennum matvöruverslunum og hins vegar 5,2% sem seldur er í áfengisverslunum. Nýjasta viðbótin er bjór sem heitir Møysalen og hann dregur nafn sitt af samnefndu fjalli sem er það hæsta í Lofoten. Miðinn á bjórflöskunni er í laginu eins og fjallstindurinn og vatnið í mjöðinn er afrennslisvatn úr jökli fjallsins. „Sífellt fleiri vilja fá eitthvað ekta, eitthvað sérstakt eins og við erum að bjóða upp á. Það var enginn að bíða eftir því að við brugguðum þennan bjór, það er til nóg af bjór. Það skiptir máli að marka sér sérstöðu.“

Spurður hvaða bjór honum falli best í geð segir hann það vera upprunalegu tegundina sem heitir einfaldlega Lofotpils. „Annars veit ég ekkert mjög mikið um bjór og þegar ég byrjaði með verksmiðjuna vissi ég ekki neitt,“ svarar Þorvarður hlæjandi. „En ég vissi talsvert um framleiðslu, hafði lengi unnið við að setja upp framleiðslulínur.“ Drekkurðu mikinn bjór sjálfur? „Ég held ekki. Ætli ég drekki ekki minna af honum eftir að ég byrjaði á þessu.“

Ákavíti á siglingu

Brátt kemur á markað ákavíti frá Lofotpils, framleitt úr kartöflum og vatni frá Lofoten og bragðbætt með kryddi þaðan. Gerður hefur verið samningur við strandferðaskipið Hurtigruten um að taka tunnur með ákavítinu um borð, sigla með þær sömu leið og þorskseiðin fara, síðan til Bergen og svo aftur til Lofoten.

„Þarna er verið að fara tvisvar yfir heimskautsbaug, “ segir Þorvarður. „Margir vilja mat og drykk úr staðbundnum hráefnum en til að selja það þarf sögu. Og hún þarf að vera sönn.“