Í Alþingishúsinu Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson kynna breytingarnar fyrir fjölmennum hópi innlendra og erlendra blaðamanna.
Í Alþingishúsinu Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson kynna breytingarnar fyrir fjölmennum hópi innlendra og erlendra blaðamanna. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í gærkvöldi að fulltrúar nýrrar ríkisstjórnar vænti þess að fá frið til að koma málum sínum áfram.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í gærkvöldi að fulltrúar nýrrar ríkisstjórnar vænti þess að fá frið til að koma málum sínum áfram. Með breytingu á ríkisstjórninni sé stuðlað að stöðugleika í samfélaginu. Ýmis stórmál, þar með talið gjaldeyrisuppboð vegna afnáms hafta, bíði þingsins á næstu vikum.

Sigurður Ingi sagði að ríkisstjórnin myndi halda áfram að vinna að þeim stóru verkefnum sem hún hefði unnið að og náð glæsilegum árangri með. Hann sagði að áhersla yrði lögð á stóru málin; afnám hafta, húsnæðismál og heilbrigðismál. Hann sagði að það mikilvægasta í þessu sambandi væri að þegar ríkisstjórnin hefði lokið sínum störfum væri búið að skapa svigrúm til að styrkja innviði á öllum sviðum.

Bjarni Benediktsson sagði ríkisstjórnina hafa traustan meirihluta. Hún myndi fella vantrautstillögu með 38 samhljóða atkvæðum.

„Við höfum komist að samkomulagi um það að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu á grundvelli sömu verkaskiptingar og verið hefur. Það þýðir að flokkarnir fara fyrir sömu ráðuneytum og gert hefur verið. Það liggur fyrir stór og skýr meirihluti fyrir áframhaldandi samstarfi flokkanna og við munum byggja það samstarf á þeim stóra meirihluta,“ sagði Bjarni.

Mun ráðast af framvindunni

„Við ætlum að stíga viðbótarskref til þess að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu og til þess að koma til móts við þá stöðu sem hefur myndast og hyggjumst stefna að því að halda kosningar í haust, stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing. Nákvæm dagsetning á kosningunum mun ráðast af framvindu þingmálanna... Stærsta einstaka málið sem er enn óframkomið í þinginu er tengt afnámi gjaldeyrishaftanna og það kemur fram innan um það bil tveggja til þriggja vikna.“

Spurður hvort ríkisstjórnin hafi nægilegt traust til að halda áfram störfum segir Bjarni mælingar sýna að hann hafi það traust sem hann þurfi frá sínu flokksfólki, frá sínum þingflokki og Sjálfstæðisflokki „til þess að vinna úr þessari stöðu“.

„Kannanir sveiflast upp og niður og stjórnarandstaðan er í rusli líka. Eigum við ekki bara að segja það eins og það er. Flokkarnir hér á þingi eru fæstir að mælast vel. Það er einn flokkur sem... skreið inn á þing fyrir nokkrum árum en er núna með mikinn stuðning. Hvað annað en nákvæmlega sú staða er til vitnis um að ... skoðanakönnun dagsins í dag er ekki nema vísbending um það hvað gerist næst þegar kosið verður,“ sagði Bjarni.

Ganga til fundar við kjósendur

Bjarni sagði aðspurður við spurningu úr sal „alltof sterkt til orða tekið“ að ræða um upplausn í samfélaginu. „Það er kallað eftir viðbrögðum við aðstæðum sem hafa skapast.

Við erum að kynna hér að við ætlum að stytta kjörtímabilið og ganga til fundar við kjósendur fyrr en áður var áætlað. Þið þekkið síðan önnur skref sem hafa verið stigin í þessari viku. Það er einmitt við svona aðstæður sem það reynir á stjórnmálaflokkana og þingið.“

Haftamál hefðu mátt ganga hraðar

• Fráfarandi forsætisráðherra telur hægt að ná árangri í stórum málum fyrir þinglok • Hefði viljað sjá haftamálin „ganga hraðar fyrir sig“ • Hefði talið æskilegra að menn hefðu klárað kjörtímabilið Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að stíga til hliðar og leggja til að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við [sem forsætisráðherra] er að ég taldi mjög mikilvægt að skapa starfsfrið fyrir ríkisstjórnina svo hún gæti fylgt eftir stórum og mikilvægum málum sem eru langt komin og mikilvægt er að takist að ljúka. Þetta eru mál sem varða verðtryggingu, endurskipulagningu fjármálakerfisins, afnám hafta og húsnæðismál,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, seint í gærkvöldi þegar breytingar á stjórninni lágu fyrir.

Mikill undirbúningur að baki

„Ég lagði áherslu á að við myndum beita okkur afdráttarlaust hvað þessi mál varðaði og vona að nýrri ríkisstjórn takist að áorka sem mestu í því. Það á að vera hægt miðað við þá undirbúningsvinnu sem hefur verið unnin.“

Spurður hvort raunhæft sé að ríkisstjórnin nái til dæmis að ljúka verkefnum í húsnæðismálum áður áður en þetta þing rennur sitt skeið, segir Sigmundur Davíð „allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“. „Ég er reyndar þeirrar skoðunar að tíminn sé mjög naumur. Það hefði verið æskilegra að menn kláruðu þetta kjörtímabil af ýmsum ástæðum. Ef viljinn er fyrir hendi er hægt að gera margt vegna þess hversu mikil undirbúningsvinna liggur fyrir. Það á meðal annars við um húsnæðismálin og auðvitað hefði maður viljað sjá haftamálin ganga hraðar fyrir sig, enda voru sérfræðingar ríkisstjórnarinnar í þeim efnum búnir að leggja upp plan fyrir margt löngu sem hefði gjarnan mátt vera komið lengra.“

Stjórnarandstaðan veiti frið

– Hvaða væntingar mega stuðningsmenn stjórnarinnar hafa fyrir þetta kjörtímabil?

„Hvað það varðar þá ítreka ég það sem ég nefndi áðan að ég hefði talið æskilegra að menn hefðu einfaldlega klárað þetta kjörtímabil. Ef það hefði verið gert hefðu menn tvímælalaust haft nægan tíma til þess að ljúka þeim málum sem ljúka þyrfti. Það er erfitt að segja hversu mikið klárast á þeim skamma tíma sem gert er ráð fyrir fram að kosningum. Það mun auðvitað meðal annars velta á því hvort stjórnarandstaðan veiti ríkisstjórninni frið til þess að klára sín mál.“

Spurður hvort hann hefði kosið að lengra yrði til kosninga segist Sigmundur Davíð „hefðu kosið að menn hefðu haldið sig við fyrirliggjandi kjördag“. „Ég hefði talið það eðlilegt og miklu betur til þess fallið að ljúka þessum stóru málum, en þetta var niðurstaðan og þá verða menn að reyna að nýta tímann sem best,“ sagði Sigmundur Davíð.

Greindi frá ráðherraefnum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, var meðal þeirra fyrstu sem gengu í gegnum þéttan hóp blaðamanna á leið sinni út úr þinghúsinu. Aðspurður hver yrði næsti forsætisráðherra sagði hann aðeins að næsti forsætisráðherra væri traustur og góður maður þannig að ástæða væri til að óska þjóðinni til hamingju.

Næstur framsóknarmanna til að staldra við hjá blaðamannahópnum var Höskuldur Þórhallsson. Hann greindi frá því að Sigurður Ingi yrði næsti forsætisráðherra og jafnframt að Lilja Alfreðsdóttir yrði ráðherra. Er leið á samtalið við fjölmiðlamenn kom í ljós að Höskuldur taldi að Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson hefðu áður gert grein fyrir niðurstöðum funda þingflokkanna.