Bókin Nú þegar sýndarveruleikabylting virðist við það að bresta á og allur þorri fólks er kominn með öfluga litla tölvu í farsímann sinn, er ágætt að líta um öxl og skoða hvernig tölvuvæðingin fór af stað.

Bókin

Nú þegar sýndarveruleikabylting virðist við það að bresta á og allur þorri fólks er kominn með öfluga litla tölvu í farsímann sinn, er ágætt að líta um öxl og skoða hvernig tölvuvæðingin fór af stað.

Tæknisagnfræðingurinn Tom Lean skoðar þróunina eins og hún varð í Bretlandi í bókinni Electronic Dreams: How 1980s Britain Learned to Love the Computer .

Þeir sem muna eftir 9. áratugnum geta staðfest að þá var tölvutæknin ósköp frumstæð miðað við það sem við búum við í dag, en nánari skoðun leiðir í ljós að metnaðurinn var mikill og meira í gangi en margur heldur.

Þannig voru gerðar tilraunir með að selja matvörur yfir frumstætt internet sem breska póstþjónustan hélt úti og tölvueign var útbreidd, með einkatölvu á tíunda hverju heimili á Bretlandseyjum þegar best lét.

Þetta var líka tímabil mikillar frumkvöðlastarfsemi. Vítt og breitt um Bretland voru rekin fyrirtæki sem smíðuðu tölvur. Mörg nöfn sem voru áberandi þá eru í dag flestum gleymd: Ferranti, English Electric, Acorn Computers eða British Tabulating Machinery. Önnur nöfn lifa enn, eins og Clive Sinclair og samnefnd smátölva sem hann átti heiðurinn af.

Kannski er líka að finna í bókinni lexíu um hvað hlutirnir gerast hratt í tækniheiminum. Sá sem virðist vera ofan á í dag getur verið horfinn af sjónarsviðinu fyrr en varir. Þeir sem eru fyrstir af stað og bjóða upp á bestu tæknina eru ekki endilega þeir sem sigra markaðinn, en þeir ryðja brautina fyrir framtíðina og búa neytendur undir það sem koma skal. ai@mbl.is