Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Ríkiskaup birtu nýverið auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem lýst er eftir áhugasömum til að kynna skýjalausnir fyrir samskiptakerfi ráðuneyta og nokkurra undirstofnana fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ríkiskaup birtu nýverið auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem lýst er eftir áhugasömum til að kynna skýjalausnir fyrir samskiptakerfi ráðuneyta og nokkurra undirstofnana fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði í innkaup á nýjum kerfum en áhugasömum gefst kostur á að kynna lausnir sínar.

Gögnin í hýsingu

Guðrún Birna Finnsdóttir er sérfræðingur Ríkiskaupa á þessu sviði og verkefnastjóri verkefnisins.

„Í dag er verið að reka tölvubúnað ráðuneytanna og margra stofnana í hefðbundnum tölvubúnaði, sem felst í því að keypt er leyfi og sett upp kerfi. Gögnin eru svo í hýsingu annaðhvort hjá viðkomandi ráðuneyti eða stofnun, eða úti í bæ,“ sagði Guðrún Birna í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að breytingar séu að verða á markaði varðandi hýsingu og því hafi Ríkiskaup auglýst til þess að gefa aðilum á markaðnum kost á að kynna Ríkiskaupum hvað væri í boði varðandi þessar nýju lausnir.

Gætu verið hagkvæmari

„Sem dæmi um lausnir sem er verið að bjóða í skýjun er það sem Microsoft kallar Office 365. Almennt eru leyfi í skýjalausnum á lægra verði og jafnvel eru þessi kerfi kannski svolítið hagkvæmari í rekstri, en til þess að komast að raun um hvort svo er er leitað eftir upplýsingum hjá markaðnum,“ sagði Guðrún Birna. Hún segir að í skýjalausnum (e. cloud computing) felist það að verið sé að tengja saman tölvukerfi úti um allan heim, en líka sé hægt að útbúa ský sem sé staðsett bara fyrir nettengdar tölvur á Íslandi og hægt sé að búa til öryggisský sem sé nákvæmlega fyrir tiltekna aðila, sem ætti að auka öryggið í hýsingu gagna.

„Markmiðið með auglýsingunni er að skoða hvers konar öryggi er hægt að fá, hvaða tækni stendur til boða og fleira. Það hefur ekkert verið ákveðið hvort farið verði í innkaup á nýjum kerfum en til þess að hægt sé að ákveða að fara í útboð er þessi kynning undirbúningur þess að hugsanlegt útboð verði ákveðið,“ sagði Guðrún Birna.