Náttsól Þrjár stelpur skipa Náttsól sem komst í úrslit Músíktilrauna.
Náttsól Þrjár stelpur skipa Náttsól sem komst í úrslit Músíktilrauna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hórmónar léku frábær lög og ferskur hljómur var í bandinu. Síðara lagið var kolsvartur gjörningur, dularfullur og með saxófónsólói!

Af tónlist

Heiða Eiríksdóttir

heidatrubador@gmail.com

Það er komið að síðasta undanúrslitakvöldi Músíktilrauna 2016 og ekki laust við að um mig hríslist blendnar tilfinningar. Það er gott að vinnutörninni sé að ljúka en leiðinlegt að vita til þess að á morgun sé bara venjulegur miðvikudagur og engar tólf hljómsveitir að keppa um sæti í úrslitum Músíktilrauna.

Rokksveitin KYN var fyrst og þrátt fyrir prýðileg lög pössuðu tónlist og rödd ekki alltaf saman. Það var ekki fyrr en í lok síðara lags í ósungnum spilakafla sem ég virkilega náði þessari sveit, en svo hófst söngur að nýju. Kyrrð er kvartett stofnaður á námskeiðinu Stelpur rokka! í fyrra. Einfaldar lagasmíðar sem reynast svo margslungnari ef vel er lagt við hlustir, og bæði þverflautulínur og raddanir búa til sérkennilega og flotta stemningu. Hin 19 ára Hanna Sólbjört er með virkilega þroskaða rödd sem er óvenjuleg fyrir jafn unga söngkonu. Síðara lagið var miklu betra en þar var búið að hlúa betur að gítarútsetningu. Ég ætla bara að segja eins og er: Mér leiddist atriði Yolo Swaggins and The Fellatio of the Bling, sem einnig kepptu í fyrra. Þeirra grín á sér allt stað neðanbeltis og það eldist „swag“alega illa. Hórmónar léku frábær lög og ferskur hljómur var í bandinu. Síðara lagið var kolsvartur gjörningur, dularfullur og með saxófónsólói! JR lokaði fyrri hluta kvölds með syngjandi trommara og dularfullum hljómi saxófónleikara, en bakraddasöngkonan var ónauðsynleg.

Náttsól hóf leik eftir hlé: Þrjár syngjandi og leikandi stelpur sem hófu samstarfið sem listahópur hjá Hinu húsinu í fyrra. Verulega nákvæmar þríraddanir og vel æft, en of sykursæt tónlist fyrir minn smekk. Simultaneous Sounds léku meira af eldmóði en nákvæmni, og eins gaman og það er að fylgjast með spilagleði hljómsveita er nauðsynlegt að fínstilla áður en bandið er tilbúið. Þá var komið að Arcade Monster frá Keflavík og þarna var allt ágætlega flutt og gítarsánd skemmtilegt, en það vantaði mjög upp á kraftinn. Maður stóð sjálfan sig að því að bíða eftir sprengjunni – sem kom svo aldrei. Crimson úr Reykjavík var næst á svið og þar var ekki alveg búið að raða nógu vel niður í hljóðmyndina. Það er mjög erfitt að vinna með trommur, bassa, tvö hljómborð og söngkonu. Það var einfaldlega of mikið af öllu og fyrir vikið fékk ekkert að njóta sín. Minna er í alvörunni stundum meira.

Vídalín átti frábært fyrra lag, minnti á Megas í lok 9. áratugarins, en síðara lagið gekk alls ekki upp. Söngvarinn úr fyrra laginu ætti að halda sig við sönginn. Síðust á svið, og jafnfram seinasta hljómsveitin til að spila á undanúrslitakvöldi Músiktilrauna 2016, var hljómsveitin Deffice, sem keppti í annað sinn. Lögin voru epísk og flott en gítarar blönduðust ekki vel og hljómurinn hrár. Kannski vantar bara meiri æfingahúsnæðissvita í hljóminn? Söngvari þarf líka bara að kýla á þetta með krafti.

Salurinn kaus Hórmóna áfram en dómnefnd kaus að hleypa Náttsól í úrslitin. Að lokum var tilkynnt hvaða bönd myndu bætast í hóp þeirra hljómsveita sem leika til úrslita, en það eru Spünk, Körrent og Miss Anthea. Sjáumst í Hörpu á laugardagskvöld.