Henný Bartels fæddist í Reykjavík 7. apríl 1941. Hún var fimmta barn móður sinnar Ólafar Guðrúnar Elíasdóttur, f. 1897, d. 1950, en einkabarn föður síns, Carls Ferdinands Bartels, f. 1883, d. 1967.

Henný átti ættir að rekja vestur á firði og til Danmerkur. Móðir hennar fæddist á Laugalandi í Nauteyrarhreppi og lést langt fyrir aldur fram, aðeins 53 ára að aldri, eftir langa og erfiða sjúkralegu.

Faðir Hennýjar, Carl F. Bartels, fæddist í Keflavík en átti ættir að rekja til Danmerkur. Hann var úrsmiður að mennt og starfrækti verslun og úrsmíðaverkstæði við Laugaveg. Bjuggu þau á Laugavegi 19b.

Hálfsystkini Hennýjar voru Guðmundur Sigurður Sigurjónsson, f. 1920, d. 2004, Elías Sigurjónsson, f. 1922, d. 1998, Hafsteinn Sigurjónsson, f. 1925, og Halldóra Sigurjónsdóttir, f. 1926, d. 2008.

Henný gekk að eiga Jón Erlings Jónsson þann 3. nóvember 1963 og bjuggu þau lengst af í Hléskógum 8, Reykjavík.

Saman eignuðust þau fimm börn. Þau eru 1) Karl Bartels Jónsson, f. 1964. Maki er Tatiana M. Rivkina. Sonur þeirra er Erlingur Mark Bartels, f. 2006, en Karl á fyrir dótturina Margréti Huldu, f. 1989. 2) Hulda Hrönn Bartels Jónsdóttir, f. 1965. Maki er Guðmundur Ólafsson. Dætur þeirra eru Henný Hrund, f. 1989, Hugrún Hlín, f. 1994, og Hafrún Helga, f. 2000. 3) Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir, f. 1966. Maki er Albert K.D. Imsland. Dætur þeirra eru Glódís Björt, f. 2004, og Sóldís Urður, f. 2006. 4) Erlingur Örn Bartels Jónsson, f. 1969. Maki er Sigurveig Ástgeirsdóttir. Sonur þeirra er Karl Matthías Bartels, f. 2013. 5) Helga Bára Bartels Jónsdóttir, f. 1973. Dóttir hennar er Henný Bára Bartels, f. 2007. Jón Erlings á auk þess eina dóttur, Önnu Maríu, f. 1960. Maki er Einar P. Matthíasson. Saman eiga þau Pétur Karl, f. 1996, en Anna María á fyrir dæturnar Sigurborgu, f. 1983, og Sólrúnu, f. 1991.

Vegna erfiðra aðstæðna við fráfall móður Hennýjar var hún níu ára gömul send í sveit á Laugaból við Ísafjörð, þar sem hún bjó við ástríki heimafólks til þrettán ára aldurs. Þá fluttist hún tilbaka til Reykjavíkur.

Henný stundaði nám við Reykjanesskóla á meðan hún dvaldi á Laugabóli en hélt áfram námi við Austurbæjarskóla og lauk gagnfræðiprófi frá Skógarskóla í Rangárþingi eystra.

Henný vann lengst af hjá Reiknistofu bankanna, m.a. sem deildarstjóri.

Henný lést 18. september 2015 á Landspítalanum.

Ástkær móðir okkar, Henný Bartels, hefði orðið 75 ára í dag, en hún lést sviplega á Landspítalanum sl. haust.

Mamma var einkabarn föður síns, Carls Bartels, og hans „hjartasól“, en fimmta barn móður sinnar, Ólafar Guðrúnar, og langyngst í þeim systkinahópi. Mikil hlýja einkenndi þau systkinin og alltaf var stutt í gleðina þegar þau hittust, enda öll með ríka kímnigáfu og hláturmild með eindæmum.

Andlát Ólafar ömmu markaði djúp spor í líf mömmu, sem var aðeins barn að aldri á þessum tímamótum. Þurfti hún í kjölfarið að takast á við miklar breytingar í lífi sínu, sem hafa án efa mótað persónuleika hennar og gefið þá seiglu, kjark og viljastyrk sem hún ávallt bjó yfir. En mótlæti þetta hafði þó engin áhrif á eitt helsta persónueinkenni mömmu, sem var leiftrandi lífsgleði, smitandi fjör, kátína og hlátur. Ó já, hláturinn! Hann var svo smitandi, léttur og leikandi að hún fékk alla til að hlæja með sér, jafnvel þótt allt væri á huldu um hvað hefði kætt hana.

Elsku mamma var sannarlega mörgum kostum prýdd. Ekki aðeins var hún afar sterkur persónuleiki með mikla útgeislun og gullfalleg, heldur einstaklega kraftmikil, drífandi og iðin kona sem lét sér aldrei verk úr hendi falla. Hún var skipulögð með eindæmum, afar listræn, hjartahlý og vitur. Hún söng eins og engill og elskaði að dansa. Það var sannarlega aldrei lognmolla í kringum þessa elsku.

Foreldrar okkar fundu ástina í ágúst 1962 og voru óaðskiljanleg síðan. Byggðu þau okkur, börnum sínum, fallegt og ástríkt heimili, hvort sem það var í Stigahlíðinni, í Mosfellsbæ eða Hléskógum þar sem við bjuggum lengst af. Það hús byggðu þau sjálf af fádæma útsjónarsemi, dugnaði og elju. Faðir okkar, Jón Erlings, er sannkallaður þúsundþjalasmiður og listamaður mikill, og saman voru þau hjónin „hið fullkomna par“, eins og eitt barnabarnið orðaði það svo réttilega.

Minningar um sleðaferðir, lautarferðir og ýmis ferðalög verma hjartað, en kraftmiklir foreldrar okkar víluðu ekki fyrir sér að fara með allan barnaskarann vítt og breitt í ævintýraleit. Þótti nú mörgum ævintýramennska þeirra heldur drjúg þegar þau, árið 1979, seldu bílinn og buðu okkur börnunum í ævintýraferð til Bandaríkjanna, þrátt fyrir að vera með fokhelt hús í smíðum. Þessi einstöku hjón létu sannarlega ekkert stoppa sig og fyrir það erum við þeim ævinlega þakklát.

Um fertugt tók mamma fram skíðin og varð fullnuma í skíðalistinni á örskotsstundu, eins og hennar var von og vísa. Ekki einungis voru það Bláfjöll og Kerlingarfjöll sem hún heiðraði með nærveru sinni, heldur sótti hún, ásamt pabba, brekkur Austurríkis heim, sem og hæstu tinda Spánar. Lífskraftur hennar og vilji var óþrjótandi.

Elsku mamma. Þú varst sannarlega einstök kona og ákaflega góð fyrirmynd. Teljum við okkur afar lánsöm að hafa átt þig sem móður. En nú kveðjum við þig og þökkum þína einstöku nærveru og þá fallegu arfleifð sem þú skilur eftir í lífum okkar. Þín verður ávallt minnst með mikilli ást og hlýju, og þinn einstaki hlátur og lífsgleði þín munu ávallt lifa í hjörtum okkar.

Þín börn,

Karl, Hulda Hrönn, Ólöf Dóra, Erlingur Örn og Helga Bára.

Veturinn, sem senn er á enda, hefur einkennst af tómleika og söknuði hjá litlu fjölskyldunni í Kaupmannahöfn. Karl Matthías spyr oft eftir ömmu sinni og skilur ekki af hverju hún og afi eru ekki saman. Það er sárt að hugsa til þess að hann eigi aldrei eftir að kynnast ömmu sinni, aldrei heyra dillandi hlátur hennar eða dansa við hana. Henný var frábær amma og tengdamamma, sem alltaf var til í glens og gaman, söng og dans.

Í ár eru 20 ár síðan við hittumst fyrst og þrátt fyrir að við byggjum í sitthvoru landinu nánast öll árin, var tíminn vel nýttur þegar við vorum saman. Skíðaferðirnar þrjár í Alpana eru efstar á listanum í minningabankanum, það var endalaust gaman hjá okkur í brekkunum – og lyftunum – og hlátrasköllin heyrðust örugglega í margra kílómetra radíus. Þegar áfallið kom í haust vorum við einmitt að gæla við þá hugmynd að plana fjórðu ferðina og Henný var sko meira en til í það. Það verður án efa mjög skrýtið að fara í Alpana í framtíðinni án „hvellhettunnar“ okkar, en við munum gera allt til að halda í minninguna um allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Karl Matthías mun heyra margar sögur af ömmu sinni í framtíðinni, og það er af nógu að taka. Hann mun t.d. heyra söguna af keiluferðinni í Blokhus, þar sem Henný sló í gegn á brautinni með einstakri tækni, sem vakti mikla lukku allra viðstaddra. Sögurnar eru margar og eiga það sameiginlegt að innihalda lýsingar á gleði og hlátri og endalausri ást hennar til fjölskyldunnar.

Minning Hennýjar mun lifa áfram í hjarta okkar.

Sigurveig Ástgeirsdóttir

og Karl Matthías Bartels

Erlingsson.