Sigrún Ásdís Jónsdóttir fæddist á Akureyri 5. desember 1955. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 19. mars 2016.

Hún var dóttir Jóns A. F. Hjartarsonar, f. 26. september 1911, d. 3. október 1981, og Guðlaugar Bjarnadóttur, f. 15. febrúar 1913, d. 8. september 1998. Ásdís var yngst af sex börnum þeirra hjóna en hin eru: a) Guðrún Hjördís, f. 1941, gift Jóhanni A. Tryggvasyni og eiga þau þrjú börn og níu barnabörn og tvö barnabarnabörn. b) Hjörtur Bjarni, f. 1942, kvæntur Jóhönnu Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. c) Ingveldur Brimdís, f. 1946, gift Þorleifi Ananíassyni og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. d) Pálína Sigurlaug, f. 1948, gift Hjálmari Björnssyni og eignuðust þau fjóra syni og níu barnabörn. e) Steinn Björgvin, f. 1952, var kvæntur Höllu Óskarsdóttur. Halla á tvö börn og þrjú barnabörn.

Áður átti Guðlaug dótturina Birnu Gunnhildi, f. 1938. Hún er gift Agli Jónssyni og eignuðust þau þrjú börn, barnabörnin eru sex og barnabarnabörnin eru sex.

Ásdís var ógift og barnlaus.

Ásdís verður jarðsungin frá Glerárkirkju í dag, 7. apríl 2016, klukkan 13.30.

Mikill söknuður fylgir því að missa systur sína, en oft er það lausn þegar líkaminn er orðinn veikburða og erfiðleikar framundan. Þá er hvíldin kærkomin.

Ásdís var fædd á Akureyri, yngst sex alsystkina og bjó hún hjá foreldrum sínum þar, meðan þeirra beggja naut við. Eftir andlát föður hennar héldu þær mæðgur saman heimili og báru mikla umhyggju hvor fyrir annarri. Árið 1999 eignaðist Ásdís sitt eigið heimili, en hún saknaði samt alltaf gamla tímans á Sólvöllunum. Ásdís var alltaf hress í bragði og oftar en ekki í okkar mörgu samtölum sagði hún: „Ég verð að segja þér einn góðan.“ Og síðan skellihlógum við báðar. Hún hafði sko „húmorinn“ í lagi. Trygglyndi Ásdísar var einstakt, alltaf mundi hún alla afmælisdaga, sama hvað fjölskyldan stækkaði. Í desember síðastliðnum varð Ásdís sextug, og fórum við ásamt Pöllu systur okkar í afmælisferð til Þýskalands. Það er dýrmætt í minningunni að hafa átt þá daga saman.

Að geta stundað vinnu til hins síðasta var Ásdísi ómetanlegt. Samviskusemi hennar var mikil og gafst hún ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Sjúkrahúslegan varð því aðeins fjórir dagar, þar til yfir lauk. Aldrei kvartaði Ásdís undan veikindunum fyrr en síðasta kvöldið, þá leið henni líka mjög illa. Hún var orðin veikari en ég gerði mér grein fyrir.

Ég kveð Ásdísi mína að sinni og þakka henni tryggðina við mig og mína.

Veri hún Guði falin.

Þín systir,

Birna (Dunna).

Ásdís var litla systir mömmu. Hún var bæði yngst og minnst. Hún var órjúfanlegur hluti af heimsókn í Sólvelli 19 þar sem afi og amma bjuggu í bernsku okkar. Hjá foreldrum sínum bjó hún fram á fullorðinsár, fyrst með þeim báðum þangað til afi Jón lést en síðar með ömmu Laugu þar til hún lést árið 1998. Þá eignast Ásdís sína fyrstu íbúð í Þórunnarstræti. Sem unglingur byrjaði Ásdís að vinna á Sambandsverksmiðjunum og þar vann hún þangað til starfsemin var lögð niður. Eftir það vann hún hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar og nú undir það síðasta í þvottahúsinu á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Ásdís hafði gaman af ferðalögum og fór oft utan á sínum yngri árum. Eftir því sem árin liðu fækkaði ferðalögunum en þó fór hún ef hún mögulega gat komist. Ferðalögin voru sennilega það eina sem hún veitti sér fyrir utan það allra nauðsynlegasta og seríubækurnar sem hún átti í löngum röðum og las spjaldanna á milli.

Ásdís lifði frekar fábrotnu lífi og dró ekki alltaf hæstu spilin í lífinu. Stundum minnti hún mann frekar á einstæðing, þó að ekki skorti skyldmennin í nágrenninu. Það brást þó ekki að hún mundi eftir öllum afmælisdögum skyldmenna sinna og ósjaldan fékk maður afmælissönginn í símann þegar hún hringdi á afmælisdögum. Ásdís gat verið einþykk og tók ekki alltaf ráðleggingum þeirra sem vildu hjálpa henni. Henni fannst þetta oft óþarfa afskiptasemi og vildi fá að lifa sínu lífi óafskipt, hún sagði m.a. trúnaðarvini að stundum segði hún ekki satt til að forðast óþarfa spurningar um heilsuna og annað sem fólk hafði áhyggjur af.

Alla tíð sá Ásdís mjög illa og undir það síðasta var hún nánast blind án gleraugna. Seinni árin hrakaði almennri heilsu hennar mikið og dró hana loks til dauða. Þó að aðstandendur hafi sumir hverjir vitað í hvað stefndi grunaði engan að það tæki svona skamman tíma – það voru alltaf góðar fréttir frá lækninum að hennar sögn. Ástandið var mun verra en flesta grunaði. Það vissu fáir að hún tók leigubíl til vinnu síðustu mánuðina af því að þrekið leyfði ekki að hún gengi, sem hún hafði þó gert alla ævi. Reiðarslagið var því talsvert þegar fréttin kom að hún væri látin. Lögð inn á sjúkrahús á þriðjudegi eftir miklar fortölur og látin á laugardegi – södd lífdaga. Kannski var það það sem hún vildi, að komast sem fyrst í móðurfaðminn aftur og vafalaust hafa afi og amma tekið á móti henni opnum örmum.

Eftir sitjum við og minnumst hennar sem góðrar konu sem vildi öllum vel.

Takk fyrir allt, elsku frænka.

Björn Hjálmarsson

og fjölskylda.

Birkir Hjálmarsson

og fjölskylda.

Guðjón Unnar Hjálmarsson.