Vonbrigði fullorðinsáranna Atli Bollason fjöllistamaður í hlutverki sínu í kanadísku myndinni O, Brazen Age. Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda, en í henni er meðal annars byggt á leikriti Shakespeares um Lé konung.
Vonbrigði fullorðinsáranna Atli Bollason fjöllistamaður í hlutverki sínu í kanadísku myndinni O, Brazen Age. Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda, en í henni er meðal annars byggt á leikriti Shakespeares um Lé konung.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is „Þetta er mjög módern mynd og tilheyrir okkar samtíma.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Þetta er mjög módern mynd og tilheyrir okkar samtíma. Hún er að mörgu leyti heimspekileg og það er mikið af samtölum í myndinni en þau snúast oftar en ekki um minningar, þátt minnisins í því hvernig hlutirnir eiga það til að þróast á annan veg en við höldum,“ segir Atli Bollason, fjöllistamaður og leikari í myndinni, um kvikmyndina O, Brazen Age sem sýnd verður í Bíó Paradís dagana 7.-9. apríl.

Alexander Carson leikstýrir myndinni en hann er kanadískur kvikmyndagerðamaður og er O, Brazen Age fyrsta mynd hans í fullri lengd. Hann hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda um heim allan og var myndin nýlega valin besta kanadíska mynd ársins.

Myndin er sögð jöfnum höndum þroskasaga og hugleiðing um ljósmyndun, minningar, minjagripi sem dregur upp áleitna mynd af vináttu og trú á 21. öldinni. Hún sæki markvisst í sígildar bókmenntir, fagurfræði nýbylgjunnar og stælingar á tíunda áratugnum.

O, Brazen Age hefur áður verið sýnd hér á landi á kvikmyndahátíðinni RIFF síðasta haust en hún hefur einnig verið á ferðalagi um kvikmyndahátíðir vestanhafs í vetur og fer í almenna dreifingu þar í október.

Vísað í Lé konung

„Myndin er um vinahóp úr úthverfi Toronto en þau eru öll flutt í bæinn og eru að endurnýja gömul kynni. Þá kemur ýmislegt upp úr dúrnum og gömul sár ýfast og vonbrigði með það hvernig fyrsti hluti fullorðinsáranna hefur þróast,“ segir Atli um söguþráð myndarinnnar. Ljósmyndarinn Sam og atvinnulausi leikarinn Jack eru nýkomnir úr ferðalagi um Quebéc þar sem þeir kynntust táningsstúlkunni Charlie sem kveðst ólétt eftir heilagan anda. „Þeir fara svo báðir að endurskoða sitt líf í kjölfar þessarar viðkynningar,“ bætir Atli við.

Um svipað leyti snýr Harvey aftur til Toronto. Hann er nýútskrifaður úr lögfræði og heilsar upp á gamlan vin sinn, kvikmyndaframleiðandann Danny. Harvey æsir upp afbrýðisemina í Danny þegar hann segist eiga nektarmyndir af kærustu Danny, frá því að þau Harvey voru saman í menntaskóla.

„Myndin er því langt frá því að vera venjuleg,“ segir Atli, en leikrit Shakespeares, Lér konungur, sé mikill undirtexti í myndinni. „Það gæti því hjálpað til við túlkun á myndinni að skoða hana með leikritið til hliðsjónar,“ bætir hann við.

Stökkva milli tíma

Persónur myndarinnar eru duglegar að segja sögur að sögn Atla, og stór hluti myndarinnar gerist því utan innri tíma hennar sjálfrar. „Sena eftir senu þar sem verið er að segja frá því sem gerðist fyrir einhverjum dögum, mánuðum eða árum og það er svo myndskreytt,“ bætir hann við, en því sé stöðugt verið að kippa áhorfandanum á milli aðstæðna.

Myndin samsamar sig einnig að miklu leyti við mannlegan breyskleika. „Fólkið stendur á tímamótum – á mörkum þess að vera fullorðið. Það er erfitt og það er komið út í djúpu laugina. Ég held að það eigi sérstaklega við í dag þegar unglingsárin eru orðin lengri og það eru ekki þessi skýru skil eins og voru áður. Þannig að í staðinn fyrir að ákveða að hætta þá fjarar áhuginn meira út – þetta er því mjög í takt við okkar samtíma,“ segir Atli.

Samræður myndarinnar hafa hlotið mikið lof og telur Atli að það megi þakka hve vel myndin var unnin. „Aðaltökutímabilið var fjórar til fimm vikur og við skutum mestallan daginn og svo sátu allir saman að borða og horfa á afrakstur dagsins,“ segir Atli og þetta hafi borið þess merki að vera einskonar tímabundin kommúna. „Leikstjórinn var svo ákveðinn miðpunktur og langflestir leikaranna eru vinir.“

Atli þekkir leikstjórann Alexander Carson vel en þeir voru við nám á sama tíma í Montreal. Þá hefur Atli einnig leikið í stuttmyndum sem Alexander hefur gert.

Atli líklega byggður á Atla

„Mitt hlutverk er sérstakt að því leyti að allir hinir eru æskuvinir en hann kynntist þeim seinna á lífsleiðinni og er ekki úr sama hverfi og þau. Hann er svona náungi á listasenunni í Toronto og kannski einmitt af því að hann hefur ekki þekkt þau öll svona lengi þá virkar hann sem gestsaugað,“ segir Atli en hann leikur listamanninn Atla í myndinni.

Aðspurður hvort það hafi verið tilviljun að persónan sem hann leiki sé með svo sterka skírskotun til hans sjálfs segist hann ekki vita það með vissu. „En það er ekkert ólíklegt að hann hafi í aðra röndina byggt Atla á Atla,“ segir hann léttur í bragði en hann þekki leikstjórann vel, eins og áður sagði.

Farvegur hugmyndanna

Er þetta í fyrsta sinn sem Atli leikur í kvikmynd í fullri lengd en hann hefur í gegnum tíðina fundið list sinni farveg með ýmsum ólíkum hætti. „Ég sé ekki mikinn mun milli listgreina. Hugmynd getur tekið á sig ýmsar myndir,“ segir hann, en hann sé því ekki faglegur í þeim skilningi. „Mér finnst mjög skemmtilegt að prófa að vinna í ólíkum miðlum og er þetta eitt box til að tikka í.