Fundurinn var vel sóttur. Átján tölvuleikjafyrirtæki eru starfandi í landinu.
Fundurinn var vel sóttur. Átján tölvuleikjafyrirtæki eru starfandi í landinu. — Ljósmynd / Odd Stefán - Samtök Iðnaðarins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á árunum 2008 til 2015 velti íslenski tölvuleikjageirinn samtals 67,8 milljörðum króna.

Samtök leikjaframleiðenda, IGI – Icelandic Game Industry, héldu ársfund sinn á þriðjudag á Vox Club á Hilton Reykjavik Nordica. Fjöldi gesta sótti fundinn, en á Íslandi eru starfandi 18 fyrirtæki sem fást við leikjaframleiðslu og þar af 12 sem eiga aðild að samtökunum.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, flutti erindi á fundinum auk Þorsteins Baldurs Friðrikssonar, forstjóra Plain Vanilla Games, Kjartans Emilssonar, forstjóra Sólfars, og David James Thue, sem kennir leikjaforritun við Háskólann í Reykjavík.

Að jafnaði 18% vöxtur

Fjallaði Hilmar Veigar um uppsafnaða veltu og áhrif íslenska tölvuleikjageirans á tímabilinu 2008 til 2015. Nam velta greinarinnar samtals 67,8 milljörðum króna á þessum árum og árlegur vöxtur nam 18% á ári að meðaltali. Þá sýna tölurnar að 95% af tekjum íslenskra leikjaframleiðenda koma frá útlöndum.

Þegar tímabilið 2008 til 2013 er skoðað kemur í ljós að velta var 46,3 milljarðar og tekjur ríkissjóðs af starfsemi fyrirtækjanna 6,6 milljarðar, í formi staðgreiðslu starfsmanna, tryggingagjalds og tekjuskatts af hagnaði.

Upplýsti Hilmar Veigar að CCP hygðist fjárfesta fyrir fjóra milljarða króna í nýsköpun á þessu ári og benti hann á að fyrirtæki í leikjabransanum leituðu þangað í heiminum þar sem umhverfi til nýsköpunar væri hvetjandi, s.s. með tilliti til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði.

IGI er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins og eiga eftirfarandi leikjaframleiðendur aðild: CCP, Plain Vanilla Games, Radiant Games, Lumenox, Solid Clouds Games, Rosamosi, Skema, Novomatic, Convex, Locatify, Ymir Mobile, Mystack og Jivaro. ai@mbl.is