Víkverja leiðist að fara til læknis. Hann hefur raunar ekkert upp á heimilislækninn sinn að klaga, en sá hefur ávallt brugðist við öllum krankleikum Víkverja, ímynduðum sem raunverulegum, af miklum myndarskap. Kannski sérstaklega þeim ímynduðu.

Víkverja leiðist að fara til læknis. Hann hefur raunar ekkert upp á heimilislækninn sinn að klaga, en sá hefur ávallt brugðist við öllum krankleikum Víkverja, ímynduðum sem raunverulegum, af miklum myndarskap. Kannski sérstaklega þeim ímynduðu. Nei, það er allt ferlið í kringum það að fara til læknis sem Víkverja leiðist.

Fyrst þarf að bóka tíma, sem oftar en ekki lendir svo seint í dagatalinu að Víkverji verður orðinn heill heilsu þegar hann kemst loks til læknisins. Raunar hefur hann þá oft þann valkost að fara á tilteknum tímum á heilsugæsluna sína í staðinn og reyna að fá bót sinna meina utan „formlegrar dagskrár“.

Þegar á læknastofuna er komið tekur við bið. Bandaríski grínistinn Jerry Seinfeld sagði eitt sinn að nafnið biðstofa segði allt sem segja þyrfti: Það væri enginn kostur á öðru en að bíða þar! Mönnum til dægrastyttingar eru þó oftast tímarit sem hægt er að lesa.

Víkverji veigrar sér þó oft við því af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi veit hann ekki hvort fyrri lesandi á biðstofunni hefur verið með snert af svartadauða eða stórubólu, að ekki sé talað um holdsveiki. Í öðru lagi hefur Víkverji oft takmarkaðan áhuga á því að vita hvað fólk var að gera á næstsíðasta áratug, þegar tímaritið kom út. Víkverja grunar að allar biðstofur landsins panti tímaritin sín af heildsölu, þar sem verið sé að losa fimmtán ára gamlan lager.

Víkverji þurfti raunar að leita á náðir heilbrigðiskerfisins í vikunni, þó ekki fyrir sína hönd, heldur fyrir Víkverja yngri, þriggja vikna gamlan. Víkverji yngri tók biðinni á biðstofunni með miklu jafnaðargeði, þar sem hann svaf bara allan tímann, en föður hans hafði ekki dottið sú lausn í hug áður. Á sama tíma horfði Víkverji eldri öfundaraugum á Andrésblöðin og Lego-kubbana sem hinir krakkarnir voru að leika sér að.