Ufsi Þrátt fyrir að vinnsla á ferskum ufsaflökum hafi aukist á síðastliðnum tveimur árum þá er rúmlega 75% ufsaafla á Íslandi ráðstafað til frystingar.

Ufsi Þrátt fyrir að vinnsla á ferskum ufsaflökum hafi aukist á síðastliðnum tveimur árum þá er rúmlega 75% ufsaafla á Íslandi ráðstafað til frystingar. Í Noregi hengja menn og þurrka ríflega 70% af ufsaafla þannig að það er lítil samkeppni milli Noregs og Íslands varðandi sölu á ufsaafurðum.

Hvað varðar frosin ufsaflök og blokk þá hefur Þýskaland í gegnum tíðina verið langstærsti markaðurinn og afurðaverð voru lág og stöðug þannig að áhugi á ufsavinnslu var takmarkaður á tímabili. En frá árinu 2014 fóru fleiri markaðir að sækjast eftir frosnum ufsa og sérstaklega Tyrklandsmarkaður sem varð á skömmum tíma næststærsti markaður fyrir fryst íslensk ufsaflök og þar fékkst sömuleiðis hæsta verðið. Spánn og fleiri markaðir juku sömuleiðis við sig og meðalverð afurðanna hækkaði um 20-30% á öllum mörkuðum.

Eins og sést á myndinni sem sýnir magn og verðþróun á Þýskalands- og Tyrklandsmarkaði sést að Tyrkland leiðir verðhækkunina en Þýskalandsmarkaður eltir verðhækkanirnar uppi og það sem af er árinu 2016 er eins og þýskir kaupendur séu að ná yfirhöndinni aftur. Skilaverðið er aftur á móti umtalsvert hærra en það var fyrir árið 2014.

Færeyingar gerðu fríverslunarsamning við Tyrki árið 2014 en Íslendingar hafa notið fríverslunar þar mun lengur. Færeyingar hafa því krækt í hluta af sneiðinni á Tyrkland, en ufsaafli Færeyinga er um það bil 23-25 þúsund tonn á ári á móti um 50-55 þúsund tonna ársveiði Íslendinga.