Þorsteinn segir að vinna við holræsalagnir eftir stúdentspróf hafi sannfært sig um gildi góðrar menntunar.
Þorsteinn segir að vinna við holræsalagnir eftir stúdentspróf hafi sannfært sig um gildi góðrar menntunar. — Morgunblaðið/Eggert
Ársfundur atvinnulífsins verður haldinn í Hörpu í dag og mun Þorsteinn Víglundsson hafa í mörgu að snúast. Að þessu sinni er það peningastefnan sem verður skoðuð í þaula. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Ársfundur atvinnulífsins verður haldinn í Hörpu í dag og mun Þorsteinn Víglundsson hafa í mörgu að snúast. Að þessu sinni er það peningastefnan sem verður skoðuð í þaula.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Rekstur SA er í nokkuð föstum skorðum en miklar launahækkanir rífa í hjá okkur eins og hjá öðrum í atvinnulífinu. Stærsta áskorunin í starfinu er hins vegar án efa vinnan í kringum endurskoðun á íslenska vinnumarkaðslíkaninu, stundum kallað SALEK. Ólga og átök á vinnumarkaði undanfarin misseri sýna hversu nauðsynlegt er að bæta vinnubrögðin við gerð kjarasamninga og draga lærdóm af nágrönnum okkar annars staðar á Norðurlöndum.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ársfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann var mjög áhugaverður en ég þurfti þó að stinga af í hléi eins og svo oft áður.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég hef alltaf haft mikla ánægju af því að lesa mér til um sögu og þá sér í lagi hagsögu og tilurð nútíma markaðshagkerfa. Bækur um stjórnun og stefnumótun höfða líka til mín og þar kemur Michael Porter sterkur inn en sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig er Leading Change eftir John Kotter.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Netið segir DiCaprio eða Pitt og varla lýgur netið eða hvað? Verð reyndar að viðurkenna að þessi líkindi hafa alveg farið framhjá mér og líkast til kvenþjóðinni almennt, nema þá helst konunni minni sem er auðvitað það eina sem skiptir máli í þessu samhengi.

Hvernig heldurðu við þekkingu þinni?

Regluleg endurmenntun er mikilvæg. Það má heldur ekki gleyma því að við lærum mest í starfi og ég hef notið þeirrar gæfu að hafa fengið að sinna mjög fjölbreyttum störfum í gegnum árin með frábæru samstarfsfólki sem ég hef lært mikið af. Núverandi starf er þó sennilega með þeim fjölbreyttari og skemmtilegri sem ég hef sinnt og að baki mér er mjög öflugur hópur samstarfsfólks sem ég hef lært mikið af. Starfinu fylgja auk þess endalausar áskoranir sem ég þarf að takast á við og það hentar mér mjög vel.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, ég geri það og tel það nauðsynlegt til að geta sinnt erilsömu starfi. Ég reyni að hreyfa mig 3-5 sinnum í viku. Ég hleyp, lyfti og er í innanhússbolta einu sinni í viku. Ég stunda golf og fjallgöngur á sumrin og skíði á veturna svo eitthvað sé nefnt.

Ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa, hvert væri draumastarfið?

Ég er nú reyndar í algjöru draumastarfi en ef ég ætti að breyta til þá væri ég helst til í að byggja upp áhugavert fyrirtæki, helst eigið. Pólitík hefur reyndar líka alltaf heillað einhverra hluta vegna en hingað til hef ég borið gæfu til að forðast hana.

Ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu, hvað myndirðu læra?

Hagfræði, ekki spurning. Hef alltaf haft brennandi áhuga á hagfræðinni og þeim kröftum sem knýja efnahagslífið áfram. Ég er hins vegar lítt hrifinn af reiknilíkönum. Þau ná aldrei utan um mannlega þáttinn sem er lykilatriði í öllum mannanna verkum, líka hagkerfum.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég sæki orkuna í hreyfinguna en innblásturinn í þau viðfangsefni sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef verið svo lánsamur að þurfa ekki að vinna við neitt í gegnum tíðina sem mér finnst leiðinlegt ef undan er skilin vinna við holræsalagnir veturinn eftir stúdentspróf. Það starf sannfærði mig um gildi góðrar menntunar.

Ef þú værir einráður í einn dag, hvaða lögum myndirðu breyta?

Ég myndi flytja inn og innleiða þýska hagstjórn á Íslandi. Allt tal okkar um þennan mikla sveigjanleika og hversu fljótt við getum brugðist við í íslensku efnahagslífi er lítið annað en léleg afsökun fyrir agaleysi og skammsýni. Frumkvæði og kraftur eru lykildyggðir en þær njóta sín miklu betur í stöðugleika en eilífum efnahagslegum ólgusjó.

hin hliðin

Nám: Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1990; BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1995; Framhaldsnám við IESE 2004-2005; Meistaranám í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands 2011-2013.

Störf: Blaðamaður á Viðskiptablaði Morgunblaðsins 1995-1998; yfirmaður greiningardeildar Kaupþings 1998-2000; forstöðumaður hjá Kaupþingi Lúxemborg 2000-2002; Framkvæmdastjóri og síðar forstjóri BM Vallár 2002-2010; framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda 2010-2013; framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins frá 2013. Stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins 2004-2010, í stjórn Gildis lífeyrissjóðs frá 2014.

Áhugamál: Golf, skíði, hlaup, fótbolti, gönguferðir, útivist og ferðalög.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Lilju Karlsdóttur, grunnskólakennara og meistaranema í ferðamálafræði við HÍ. Saman eigum við þrjár dætur, Söru Ósk, 18 ára, Sóleyju Björk, 15 ára, og Evu Bjarkey, 11 ára.