[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Katrín Atladóttir starfar sem forritari hjá CCP en hún er í nýjasta þætti Fagfólksins á mbl.is. Þegar vinnu lýkur veit hún fátt skemmtilegra en að þeysast um á hjóli á fjöllum.

Síðastliðin 7 ár hefur Katrín Atladóttir starfað sem forritari hjá CCP. Þar vinnur hún í teymi við að forrita og þróa viðmótið sem birtist spilurum EVE online-leiksins. Hún segir starfið vera afar skapandi í samanburði við önnur forritunarstörf sem hún hefur starfað við. „Þú ert að búa til geimleik, það er allt opið. Svo margt hægt að gera.“

Vinnustaðinn segir hún vera einstakan. Erlendir starfsmenn séu margir og búi að reynslu og bakgrunni sem gaman sé að kynnast.

Hjóladella á háu stigi

Tölvunarfræði og forritun hefur ávallt verið mikið karlavígi þrátt fyrir að fyrsti forritarinn hafi verið breska hefðarkonan Ada Lovelace. Þegar Katrín var í námi um aldamótin voru stelpur einungis í kringum 10% nemenda í faginu og hún skýtur á að hlutfallið sé svipað meðal kvenforritara hjá CCP núna. Nauðsynlegt sé þó að auka hlut kvenna. „Ég held að það sé alltaf mikilvægt að vera með allskonar fólk. Ef þú ert alltaf með sömu týpuna þá færðu sömu niðurstöðuna alltaf.“ Fjölbreyttari hópur tryggi að hugmyndirnar verði það einnig.

Katrín er fús til að viðurkenna að hún sé með hjóladellu á háu stigi. „Hjóladellan er þannig að fyrst byrjar maður að hjóla. Svo vill maður bara hjóla meira og meira. Svo vill maður eignast meira af græjum til að maður geti hjólað meira.“ Skemmtilegast segir hún að sé að hjóla á fjöllum, hvort heldur ein síns liðs eða í góðum félagsskap og það kemur blik í augun á henni þegar hún talar um ferð sem hún fór í síðastliðið sumar þar sem hjólað var niður gamla veginn í Siglufjarðarskarði. Frelsið sé einstakt og þannig sé hægt að komast yfir miklu lengri vegalengdir en annars væri hægt.

Katrín hefur þurft að draga úr hjólreiðunum upp á síðkastið þar sem hún á von á sínu öðru barni í byrjun sumars. „Ég reyni samt að hjóla ef ég kemst eitthvað í það og ef aðstæður eru góðar.“ Hálkan á undanförnum mánuðum hafi t.a.m. sett strik í reikninginn.

Hjólað um ítölsku Alpana

Nýverið var sett upp aðstaða fyrir hjólreiðaáhugamenn í höfuðstöðvum CCP þar sem hægt er að æfa sig á góðum hjólum innanhúss. Katrín segist þó ekki finna fyrir mikilli þörf til að nýta sér hana. Útivistin og ferska loftið séu of stór hluti af upplifuninni. Síðastliðið sumar fór Katrín ásamt manni sínum, sem einnig er mikill áhugamaður um fjallahjólreiðar, í hjólaferð um ítölsku Alpana í fylgd leiðsögumanns. Það segir hún hafa verið einstaka upplifun. „Það var skemmtilegasta frí sem ég hef farið í og ég hlakka mikið til að fara aftur í fjallahjólaferð í Ölpunum,“ segir Katrín Atladóttir, sem er viðmælandi vikunnar í Fagfólkinu á mbl.is.

Hátæknifyrirtæki í fremstu röð

Crowd Control Productions eða CCP er leiðandi fyrirtæki í íslenskum hátækniiðnaði. Frá stofnun þess árið 1997 hefur fyrirtækið framleitt þónokkra tölvuleiki en engan jafn farsælan og EVE Online sem ríflega hálf milljón manns leikur að staðaldri. Nýjasta viðbótin, EVE Valkyrie, er væntanleg á markað en sá leikur er hannaður fyrir Oculus Rift-sýndarveruleikagleraugun og hefur hann verið lofaður í hástert.

Starfsmenn fyrirtækisins eru um 600 talsins og starfa á fjórum skrifstofum fyrirtækisins: í Reykjavík þar sem framleiðsla EVE fer fram, í Atlanta er sýndarveruleiki þróaður, í Shanghai er leikurinn Gunjack framleiddur og EVE Valkyrie er framleiddur í Newcastle. Mikið er lagt upp úr því að mynda góð tengsl við spilara EVE Online sem margir hverjir ferðast til landsins á Fanfest-hátíðina. Á dögunum var kynnt verkefni þar sem spilarar leiksins flokka myndir af próteinum í þágu vísindanna. Gegn því fá þeir verðlaun í leiknum.