[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Fæðingatíðni á Íslandi hefur aldrei verið lægri en árið 2015. Þá fæddust 4.098 börn hér á landi sem er nærri 1.000 færri börn en fæddust árið 2009.

Sviðsljós

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Fæðingatíðni á Íslandi hefur aldrei verið lægri en árið 2015. Þá fæddust 4.098 börn hér á landi sem er nærri 1.000 færri börn en fæddust árið 2009. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Talnabrunns, fréttabréfs Embættis landlæknis.

Fæðingatíðnin segir til um hlutfallið milli lifandi fæddra barna á árinu og meðalfjölda kvenna á aldrinum 15 til 44 ára. Í fyrra voru 60,8 lifandi fædd börn á hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri og hefur hlutfallið aldrei verið lægra. Árið 2009 fæddust 74,5 börn fyrir hverjar 1.000 konur en eftir það hámark hefur fæðingum og fæddum börnum fækkað nokkuð undanfarin ár.

Síðbúin kreppuáhrif

Ólöf Garðarsdóttir, prófessor á menntavísindasviði, hefur skoðað þróun fæðingatíðni undanfarna áratugi. Hún bendir á að önnur og algengari leið til að mæla fæðingatíðni sé svokallað uppsafnað fæðingarhlutfall. Með því er gerð tilraun til að meta fjölda lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu.

Ólöf bendir á að eftir að ný fæðingarorlofslöggjöf tók gildi um síðustu aldamót hækkaði fæðingatíðni en með þeim lögum var réttur mæðra og feðra til fæðingarorlofs aukinn verulega. Þetta breyttist svo með efnahagshruninu en þá voru orlofsgreiðslur skertar verulega. Ólöf telur þetta eina meginorsök fyrir því að fæðingatíðnin hefur lækkað. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að feður taka nú mun minna fæðingarorlof en fyrir efnahagshrunið.

„Fólk sér hreinlega ekki fram á að geta verið heima með börn og svo vantar að brúa bilið yfir í leikskólana,“ segir Ólöf.

Stórir árgangar eignuðust fá börn sem eignast fá börn

Fæðingatíðnin núna er svipuð því sem hún var um miðjan níunda áratuginn þegar sá árgangur sem er á barneignaraldri núna var að fæðast. „Þeir árgangar sem fæddust um miðjan níunda áratuginn, fólk um þrítugt í dag, voru fámennir. Árin 1985 og 1986 var fæðingarhlutfallið álíka lágt og það er í dag, en eftir það voru gerðar nokkrar umbætur á fæðingarorlofi,“ segir Ólöf. Svo skemmtilega vill til að foreldrar þessara árganga tilheyra fjölmennustu árgöngum Íslandssögunnar, fólki fætt á árunum 1958 til 1962. Þessir árgangar áttu fá börn og þess vegna var fæðingatíðnin svo lág upp úr 1980 og fram undir 1990.

Ólöf spáir því að fæðingatíðnin muni áfram haldast lág. „Það fer þó eftir því hvort breytingar verða á greiðslum í fæðingarorlofi. En málið er að ef þú bíður of lengi með svoleiðis aðgerðir getur orðið erfitt að snúa þróuninni við. Fólk fer þá að líta á það sem eðlilegan hlut að eignast fá börn. Eins og í Þýskalandi, þar var ekkert gert í að koma til móts við fólk sem vildi bæði eiga börn og vinna. Þar féll fæðingarhlutfallið niður fyrir 2 börn á ævi hverrar konu í kringum 1970. Svo ætluðu þeir að fara að gera eitthvað í málunum 2005 en þá er komið yfir í þriðju kynslóð fólks sem er ekkert vant að eiga börn yfirhöfuð eða í mesta lagi eitt eða tvö.“

Færri á vinnualdri

Ólöf segir að það sé þó bót í máli að fæðingatíðnin hér sé frekar há miðað við önnur Evrópulönd og svo sé hér mikill innflutningur fólks svo við séum ekki í slæmum málum. „En við verðum samt að hafa í huga að kynslóðirnar sem fara á eftirlaun á næstu 20 árum eru mjög fjölmennar og þá er slæmt að vera með mjög fámenna árganga á vinnualdri.“

Flestar fæða 25 til 29 ára

Algengasti barneignaraldur kvenna árið 2015 var 25 til 29 ár en konur á þessum aldri fæddu 32,3% af heildarfjölda barna það ár. Næstflestar fæðingar voru meðal kvenna á aldrinum 30 til 34 ára.

Fæðingatíðnin í yngsta aldurshópnum, 15 til 19 ára, hefur farið lækkandi frá aldamótum en einungis 2,1% fæðandi kvenna á Íslandi árið 2015 var undir tvítugu, en þær áttu 87 börn af þeim 4.098 sem fæddust það ár.

Konur yfir fertugt fæddu tæplega 4% af heildarfjölda barnanna sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. 145 börn fæddust hjá aldurshópnum 40 til 44 ára en 11 börn hjá 45 til 49 ára konum.

Langflestar konurnar fæddu á Landspítalanum eða ríflega 75%. Næstflest börnin fæddust á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Heimafæðingar voru 74 árið 2015 eða 1,8% af heildarfjölda fæðinga og er það svipaður fjöldi og fyrri ár. Þrjú börn fæddust á leið á fæðingarstað.