Ný ríkisstjórn Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson tilkynntu nýja ríkisstjórn í gær. Boðað verður til ríkisráðsfunda á Bessastöðum í dag.
Ný ríkisstjórn Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson tilkynntu nýja ríkisstjórn í gær. Boðað verður til ríkisráðsfunda á Bessastöðum í dag. — Morgunblaðið/Golli
Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson verður forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir verður ráðherra samkvæmt samkomulagi milli ríkisstjórnarflokkanna sem Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynntu á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í gærkvöldi.

Fram kom í máli Sigurðar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, muni biðjast lausnar í dag. Boðað verður til ríkisráðsfunda á Bessastöðum og er búist við að þeir verði um miðjan dag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, sagðist í samtali við Morgunblaðið mundu verða áfram þingmaður. Hann muni verja ríkisstjórnina vantrausti og síðan taka sér frí til að vera með fjölskyldunni og hitta kjósendur úti á landi. Síðan muni hann snúa aftur á þing og leggja ríkisstjórninni lið.

Kosningum verður flýtt og munu þær fara fram í haust. Samkvæmt reglum Framsóknarflokksins lagði formaðurinn fram tillögu um núverandi ráðherra flokksins og Lilju Alfreðsdóttur.

Sigmundur Davíð vildi að ný ríkisstjórn starfaði fram á vor 2017. Þá hefði hún haft meiri tíma til að vinna að mikilvægum verkefnum. Hann segist vona að stjórnarandstaðan veiti nýrri ríkisstjórn starfsfrið.

Forgangsröðun ekki mótuð

Sigurður Ingi sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki hefði verið ákveðið hvernig verkum nýrrar ríkisstjórnar yrði forgangsraðað.

Hins vegar kom fram í máli hans að ríkisstjórnarinnar biðu verkefni vegna afnáms hafta, húsnæðismál og heilbrigðismál, málaflokkur sem ríkisstjórnin muni „taka í fangið“.

Sigurður Ingi vildi ekki staðfesta á fundinum hvaða ráðherraembætti Lilja muni gegna í stjórninni. Hann sagði einingu um þetta fyrirkomulag meðal framsóknarmanna.

Bjarni Benediktsson sagði ríkisstjórnina hafa traustan meirihluta. Hún myndi fella vantrauststillögu með 38 samhljóða atkvæðum.

Bjarni sagði í samtali við Morgunblaðið ekki víst að þingið muni starfa fram í september. Það muni ráðast af framvindu mála.

„Ég er ánægður með að fá skjóta niðurstöðu í þetta. Það var eðli málsins samkvæmt ekki flókið mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn að tryggja framhald samstarfsins á málefnalegum forsendum. Þær hafa legið fyrir frá kosningum.

Stærstu málin sem við þurftum að útkljá voru í raun og veru það hvernig við ætluðum að hrinda í framkvæmd okkar stefnumálum. Við ákváðum jafnframt að flýta kosningum. Það þýðir að þetta verður síðasta löggjafarþingið á þessu kjörtímabili og í framhaldinu verður kosið... Formlega séð getur þetta þing starfað fram í september, en það er ekki sjálfgefið að það þurfi að starfa svo lengi,“ sagði Bjarni.

Aðgerðir í skattamálum

Bjarni segir „mjög góða samstöðu“ hafa verið meðal sjálfstæðismanna um þessa niðurstöðu. Auðvitað hefðu verið uppi ýmis sjónarmið.

Spurður um forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar nefnir Bjarni afnám hafta, lækkun tryggingagjalds og aðgerðir í skattamálum sem m.a. er ætlað að efla rannsóknir og nýsköpun og sprotafyrirtæki.

Hræringar 2, 4, 10

Þinghald hefst á óundirbúnum fyrirspurnum

Óundirbúinn fyrirspurnatími verður á Alþingi kl. 10:30 fyrir hádegi í dag. Ekki er fyrirséð að breytingum á ríkisstjórn verði lokið fyrir þann tíma. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. „Ég ætla að hitta þingflokksformenn þegar þingstörfin eru að hefjast að nýju og þingfundurinn verður svo í framhaldinu,“ segir Einar.

Fundahöld þingflokkanna drógust talsvert fram eftir kvöldi í gær og óvissa var um stöðuna en Einar segir það ekki hafa verið vegna alvarlegs ágreinings innan flokkanna.

„Það sem ég held að hafi gert það að verkum er að formaður Sjálfstæðisflokksins og ég ásamt varaformanni Framsóknarflokksins fórum til fundar við fulltrúa stjórnarandstöðunnar til þess að geta farið yfir áherslurnar sem framundan eru, sem ég tel að sé til fyrirmyndar. Það má segja að þetta hafi brotið upp fundinn hjá okkur og teygt úr honum,“ segir Einar.