Hvergi elskaði Tómas Guðmundsson jafn heitt og í sandinum á ónefndri, suðrænni eyju. Þar var drukkið, dansað og kysst.

Hvergi elskaði Tómas Guðmundsson jafn heitt og í sandinum á ónefndri, suðrænni eyju. Þar var drukkið, dansað og kysst. En Tómas var enginn peningamaður og því er í frægum texta um ástarævintýrið ekkert minnst á bankareikninga og því síður kaupmála milli hans og hinnar svarteygðu konu sem vafði hann örmum. En í textanum fyrrnefnda er aftur og aftur minnst á það sem virðist nefnast Tondeley. Telja glöggir menn í landafræði að staður þessi sé mitt í eyjaklasa í Karíbahafinu.

Gott væri ef Árnastofnun gæti grennslast fyrir um hvaðan Tondely dregur nafn sitt en hugtakið tondel er þekkt í hollensku og vísar það til hvers þess efnis sem telst mjög eldfimt. Bretar þýða það með hugtakinu tinder. Ekki er þó talið líklegt að Tómas heitinn hafi verið að vísa til stefnumótaforritsins alræmda sem ber sama heiti. Það var minna um snjallsímana á þeim dögum þegar hann var upp á sitt besta.

Tondel-kenningin, sem Innherji heldur fullum fetum fram, er reyndar sennileg af ýmsum ástæðum. Þannig hefur Árnastofnun bent á að hin alræmda Tortólaey dragi nafn sitt líklega af eyju undan Hollandsströndum sem ber heitið Tholen og að þegar fólkið sem þaðan kom nam land á Tortólaey virðist það hafa kosið að nota kunnuglegt nafn að heiman.

Hvað sem þessum orðsifjalegu vangaveltum líður er ljóst að suðrænar eyjar, hvort sem þær tilheyra hinum Bresku Jómfrúaeyjum eða öðrum eyjaklösum á hinu stóra hafsvæði, þá er ljóst að þær koma víða við í íslenskri menningu. Það á bæði við í viðskiptum og ljóðlist. Tengingarnar leynast reyndar eflaust víðar og kannski er ekki eins djúpt á þeim og mörgum þeim reikningum og bankahólfum sem á eyjunum leynast.