Listfræðingurinn, rithöfundurinn og blaðamaðurinn Calvin Tomkins fylgdi Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni um nokkurt skeið á meðan hann stóð að undirbúningi sýngar sinnar í Palais de Tokyo í París.

Listfræðingurinn, rithöfundurinn og blaðamaðurinn Calvin Tomkins fylgdi Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni um nokkurt skeið á meðan hann stóð að undirbúningi sýngar sinnar í Palais de Tokyo í París. Sýningunni lauk í febrúar og nýlega birtist grein Tomkins um Ragnar í The New Yorker .

Tomkins, sem er níræður, hefur skrifað fyrir The New Yorker í 56 ár og er hvergi nærri hættur. Hann er þó líklega þekktastur fyrir bók sína um listamanninn Marcel Duchamp. „Tomkins þvælist um heiminn eins og hetja og er mikill töffari. Það er ekki óeðlilegt að The New Yorker sé að fylgjast með því sem er að gerast hjá Ragnari, þar sem hann hefur sýnt mjög víða undanfarin ár,“ segir Börkur Arnarson hjá i8 gallerí.

Sýning Ragnars á samtíðarlistasafninu í París, Palais de Tokyo, var stærsta einkasýning hans til þessa. Í grein Tomkins, sem er mjög umfangsmikil, fylgir hann Ragnari eftir í öllu ferlinu, frá undirbúningi til opnunar. Tomkins fer fögrum orðum um Ragnar í grein sinni og lýsir því hvernig honum tekst að breyta endurtekningu í list.

Inni á milli má finna skemmtilegar lýsingar á samskiptum Tomkins og Ragnars á ýmsum veitingastöðum og kaffihúsum Parísarborgar, auk lýsinga á nánum tengslum Ragnars við fjölskyldumeðlimi og vini sem ferðast til Parísar í aðdraganda sýningarinnar.

Gjörningalist í aðalhlutverki

Sýningin nefndist Seul Celui Qui Connait Le Désir (Aðeins sá sem þekkir þrána) og byggist meðal annars á gjörningnum „Bonjour“ sem var settur upp í formi leikhúsverks.

Börkur segir umfjöllun Tomkins í The New Yorker vissulega vera mikla viðurkenningu, þó svo að Ragnar sé löngu orðinn þekktur í listheiminum. „Þetta er svo sem ekki fyrsta greinin sem er skrifuð um Ragnar sem myndlistarmann en það er ánægjulegt að lesa hvernig Tomkins talar um verkin hans í listfræðilegu samhengi.“

Sýningunni í París er nú lokið en Ragnar verður með stóra sýningu í Barbican í London í sumar. „Þegar grein á borð við þessa sem birtist í The New Yorker er unnin er óskað eftir því að hann veiti ekki persónuleg viðtöl á sama tíma. Nú er því aflétt og ég veit að aðstandendur sýningarinnar í London eru kátir með að fjölmiðlabanninu sé nú aflétt,“ segir Börkur.

Áætlað er að sýning Ragnars í Barbican í London verði opnuð í júlí en verði síðar sett upp á Hirshhorn-safninu í Washington-borg.

erla@mbl.is