[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Árangurinn hefur verið mjög góður í vetur,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari þýska handknattleiksliðsins TV Hüttenberg, í gær, en um liðna helgi endurheimti lið hans sæti í sitt í 2.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Árangurinn hefur verið mjög góður í vetur,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari þýska handknattleiksliðsins TV Hüttenberg, í gær, en um liðna helgi endurheimti lið hans sæti í sitt í 2. deild á næstu leiktíð eftir eins árs veru í deildinni fyrir neðan. Enn eru fjórar umferðir eftir en staða liðsins er það góð að engu máli skiptir hvernig þeir leikir enda. „Ég er nánast kominn inn á undirbúningstímabil fyrir næsta keppnistímabil,“ sagði Aðalsteinn, sem hefur stýrt liðinu í rúmlega eitt ár. Hann tók við Hüttenberg í slæmri stöðu í neðsta sæti 2. deildar og náði ekki að bjarga því frá falli þrátt fyrir að leikur þess hafi skánað á lokasprettinum í fyrra undir hans stjórn.

TV Hüttenberg hefur unnið 23 af 26 leikjum vetrarins. „Við lögðum grunninn með því að vinna nítján leiki í röð framan af leiktíðinni. Veturinn hefur verið skemmtilegur og gaman að fara í gegnum sigurtíma á nýjan leik,“ segir Aðalsteinn sem hefur þjálfað í Þýskalandi í átta ár, lengst af hjá Eisenach.

Ekki á vísan að róa

„Eftir fallið í fyrra var stefnan tekin á að fara upp aftur. Það er hins vegar ekki alltaf sjálfgefið eins og mörg dæmi sanna. Á hverju ári eru alltaf þrjú til fjögur lið sem ætla sér upp úr 3. deildinni og leggja þar af leiðandi talsvert undir. Af þessu leiðir að það er ekki alltaf á vísan að róa,“ segir Aðalsteinn og bendir á að forráðamenn HC Elbflorenz, sem er í öðru sæti, hafi lagt mikla fjármuni í lið sitt með það að markmiði að fara upp. „Það var mjög öflugt af okkar hálfu að skilja það lið eftir,“ segir Aðalsteinn.

Þýska 3. deildin er leikin í fjórum riðlum og flyst sigurlið hvers hluta upp í 2. deild.

Aðalsteinn segist svo gott sem búinn að skipuleggja leikmannahóp liðs síns fyrir næsta keppnistímabil. Vafi leikur á um eina stöðu, sem hann vonast til þess að fylla upp í fljótlega. Ekki verði miklar breytingar á leikmannahópnum. Helst er að aðeins verður fjölgað og reynslan aukin.

„Ég hrifnastur að því að vinna með þá leikmenn sem ég hef í höndunum hverju sinni. Eftir því sem tíminn liður hér ytra kemst ég í beri sambönd við þýska leikmenn sem gott að vinna með,“ segir Aðalsteinn.

Þegar litið er til baka yfir keppnistímabilið segir Aðalsteinn vera ánægðastur með stöðugleika liðsins. „Eftir að ég tók við fórum við að vinna eftir ákveðinni áætlun sem ég mótaði. Það er virkilega gaman að sjá þegar hlutirnir ganga upp og þær hugmyndir sem maður hefur verða að veruleika. Það er gott fyrir sjálfstraustið, ekki síst eftir veruna hjá Eisenach þar sem ég varð fyrir ákveðnu skipbroti,“ sagði Aðalsteinn og bætir við. „Það er gaman að koma í óplægðan akur, sá og uppskera. Ég hef mikið verið í því í gegnum tíðina.“

Aðalsteinn segir mikla möguleika vera fyrir hendi hjá TV Hüttenberg. Félagið er vel staðsett í nágrenni við Wetzlar og Frankfurt. Þar af leiðandi sé auðvelt t.d. að fá upprennandi leikmenn til liðsins sem leggi stund á nám samhliða handboltaiðkun. Einnig sé yngri flokka starf öflugt og standi traustum fótum. Þar af leiðandi séu möguleikarnir á að byggja upp öflugt lið sem geti gert það gott í annarri deild fyrir hendi.

Ánægja með Ragnar

Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson kom til TV Hüttenberg um svipað leyti og Aðalsteinn, sem segir Ragnar hafa leikið afar vel í vetur og bætt sig mikið, m.a. sem varnarmaður. Þá hafi hann skorað um fimm mörk að jafnaði í leik og spilað svo að segja alla leiki liðsins frá upphafi til enda. „Það hefur mikið mætt á Ragnari. Hann hefur æft mjög vel og komist hjá meiðslum, sem er afar jákvætt. Menn hér eru afar ánægðir með Ragnar,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari TV Hüttenberg.