— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sjálfvirk upplýsingaskipti við Lúxemborg verða notuð í fyrsta skipti á Íslandi á næsta ári. Seðlabankinn hyggst skoða aflandsfélög.

Seðlabanki Íslands (SÍ) hyggst kanna hvort tilefni sé til sérstakrar skoðunar vegna aflandsfélaga.

Þetta kemur fram í svari SÍ við fyrirspurn ViðskiptaMoggans.

„Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur ekki framkvæmt heildstæða úttekt á starfsemi aflandsfélaga eða erlendra eignarhaldsfélaga í svokölluðum lágskattaríkjum. Hins vegar hefur gjaldeyriseftirlitið haft til skoðunar slík félög í ákveðnum tilvikum þegar snertiflötur hefur verið við lög um gjaldeyrismál. Í ljósi eftirlitsskyldu Seðlabankans með lögum um gjaldeyrismál mun bankinn yfirfara hvort umræðan að undanförnu gefi tilefni til sérstakrar skoðunar,“ sagði í svari bankans. Ekki fékkst upplýst hverju fyrri athuganir hefðu skilað.

Heimildarmaður sem þekkir vel til reksturs Kaupþings á árunum fyrir efnahagshrunið segir marga Íslendinga hafa nýtt sér möguleikann á frestun söluhagnaðar af hlutabréfum. Sá möguleiki á rætur í breytingum sem voru gerðar á lögum árið 1996 (nr. 75/1981) um tekjuskatt og eignarskatt. Með þeim varð einstaklingum heimilað að fresta skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa um tvenn áramót.

Afnumin um aldamótin

Breytingin kom til framkvæmdar við staðgreiðslu gjalda á árinu 1997. Heimildin var svo afnumin haustið 2000. Fram kom í greinargerð með frumvarpi um breytingu á lögunum að heimildin hefði ýtt undir stofnun hlutafélaga í Lúxemborg.

„Þá virðast sífellt fleiri telja að hagstæðara sé að ávaxta það fé í hlutafélögum, sem eru annars staðar en á Íslandi, vegna hagstæðari skattareglna og í ýmsum tilvikum í skjóli bankaleyndar. Leiða má líkur að því að í mörgum tilvikum falli skattlagningin jafnvel niður vegna skorts á upplýsingum,“ sagði þar.

Á vormánuðum 2009 var bankaleynd afnumin í Lúxemborg.

Með innleiðingu svonefndra CFC-reglna á Íslandi í ársbyrjun 2010 „ber innlendum eigendum erlendra félaga, sjóða eða stofnana sem staðsett eru á lágskattasvæðum að greiða skatt vegna hagnaðar sem myndast hjá lögaðilanum og ekki hefur verið úthlutað til eigenda CFC-félagsins,“ að því er segir um reglurnar á vef Ríkisskattstjóra.

Hjá embættinu fengust þær upplýsingar að sjálfvirk upplýsingaskipti við Lúxemborg yrðu notuð í fyrsta skipti á næsta ári vegna ársins 2016. „Á hinn bóginn voru rýmkaðar reglur sem tóku gildi árið 2011 þannig að unnt var að fá meira af upplýsingum, en þær voru ekki sjálfkrafa eins og verða mun á næsta ári vegna tekna frá 1. janúar 2016,“ sagði í svari embættisins.

Nær til félaga á Jómfrúaeyjum

Heimildarmaðurinn sem þekkir til starfsemi Kaupþings í Lúxemborg segir að með innleiðingu CFC-reglnanna hafi skattayfirvöld fengið upplýsingar um eignir í félögum á Bresku Jómfrúaeyjum. Þessi félög þurfi ekki að skila ársreikningi eins og til dæmis félög í Lúxemborg.

Sé það ætlunin að fela „svarta peninga“ þurfi nú að fara „til eyja sem ekki falla undir alþjóðlega staðla um upplýsingagjöf“. „Það er ekki lengur hægt að skýla sér á bak við bankaleynd,“ segir hann.

Annar heimildarmaður, sem þekkir vel til starfsemi Landsbankans í Lúxemborg, segir skattaumhverfið á Íslandi nú að mörgu leyti hagstæðara en í mörgum öðrum löndum Evrópu, til dæmis þegar fjárfest sé í hlutabréfum í gegnum eignarhaldsfélög á Íslandi. Greiða þurfi 30% skatt af hagnaði af sölu hlutabréfa í Lúxemborg ásamt lágmarks árlegum skatti upp á 4.815 evrur. Íslensk eignarhaldsfélög greiði hins vegar nær enga skatta af hagnaði hlutabréfa og nær enga lágmarksskatta.