Barcelona Katalóníutorg í hjarta Barcelona iðar af lífi allan sólarhringinn.
Barcelona Katalóníutorg í hjarta Barcelona iðar af lífi allan sólarhringinn. — Morgunblaðið/Ómar
Jaume Subirana, sem er fæddur og uppalinn í Barcelona, höfuðborg Katalóníu á Spáni, flytur fyrirlestur við Háskóla Íslands um ímynd borgarinnar í dag kl. 12 í stofu 101 í Odda. Subirana hefur fjallað um sögu Barcelona í ræðu og riti.

Jaume Subirana, sem er fæddur og uppalinn í Barcelona, höfuðborg Katalóníu á Spáni, flytur fyrirlestur við Háskóla Íslands um ímynd borgarinnar í dag kl. 12 í stofu 101 í Odda.

Subirana hefur fjallað um sögu Barcelona í ræðu og riti. Honum er meðal annars hugleikið hvernig borginni tókst að hrista af sér drunga Franco-tímans í kringum Ólympíuleikana sem voru haldnir þar sumarið 1992 en í kjölfar þeirra hefur hún orðið einn vinsælasti viðkomustaðar ferðamanna í Evrópu.

Í fyrirlestri sínum mun hann varpa ljósi á það hvernig hugmyndir fólks um staðinn hafa mótast og ræða að hvað miklu leyti ímynd Barcelona nú á dögum byggist á huglægum þáttum og hugtökum, sem eiga upptök sín ýmist í kolli heimamanna eða ferðamanna. Hér er um ræða fyrirlestur sem ætti ekki aðeins að höfða til þeirra fjölmörgu sem hafa tekið ástfóstri við höfuðborg Katalóníu á Spáni heldur einnig þeirra sem velta fyrir sér ímynd ferðamannastaðarins Reykjavíkur á okkar dögum.

Jaume Subirana (f. 1963) er skáld, þýðandi og bókmenntafræðingur. Hann skrifar skáldverk sín á katalónsku, sérgrein hans sem fræðimanns er katalónskar bókmenntir og um hríð starfaði hann sem forstöðumaður Miðstöðvar katalónskra bókmennta. Hann er nú dósent við Universitat Oberta de Catalunya, sem er annar fjölmennasti háskóli Katalóníu. Heimsókn Subirana hingað til lands er styrkt af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins. Fyrirlesturinn er á ensku.