[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þór Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Eftir sjö ára fjarveru úr efstu deild verða Þórsarar frá Akureyri í deild þeirra bestu á næstu leiktíð en undir stjórn hins margreynda þjálfara, Benediks Guðmundssonar, tryggðu Þórsarar sér sigur í 1.

Þór

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Eftir sjö ára fjarveru úr efstu deild verða Þórsarar frá Akureyri í deild þeirra bestu á næstu leiktíð en undir stjórn hins margreynda þjálfara, Benediks Guðmundssonar, tryggðu Þórsarar sér sigur í 1. deild karla í körfuknattleik og leika því í Dominos-deildinni á næstu leiktíð.

Benedikt yfirgaf Þór úr Þorlákshöfn eftir gott starf þar og tók að sér þjálfun Þórsliðsins fyrir þetta tímabil og óhætt er að segja að umskiptin hafi orðið gríðarleg. Þórsarar enduðu síðustu leiktíð í neðsta sæti 1. deildarinnar þar sem þeir unnu aðeins einn leik. En þar sem fjölgað var í 1. deildinni héldu þeir sæti sínu og nú ári síðar eru þeir sigurvegarar í 1. deildinni þar sem þeir unnu 15 leiki en töpuðu þremur.

Gaman og gott þegar markmiðin ganga eftir

„Strax þegar ég tók við liðinu settum við okkur það markmið að komast upp og það er alltaf gott og gaman þegar markmiðin ganga eftir. Maður tekur því ekkert sem sjálfsögðum hlut. Sem betur fer fengum við öfluga leikmenn til liðs við okkur fyrir tímabilið sem ég taldi nauðsynlegt. Það var að vísu ekkert auðvelt að fá menn til að koma til liðs sem er í ströggli en við vorum heppnir. Liðið hafði misst marga menn tímabilið á undan en sá þjálfari sem á undan mér var gerði vel miðað við aðstæður. Við vorum ekkert allt of sannfærandi fyrir jól en eftir áramót var þetta engin spurning. Við náðum að stilla saman strengi okkar og vorum með sterkasta liðið,“ sagði Benedikt Guðmundsson við Morgunblaðið.

Ennþá verðugra verkefni

Spurður hvort ekki séu spennandi tímar í vændum hjá Þórsliðinu segir Benedikt;

„Jú, ekki spurning. Nú tekur við ennþá verðugra verkefni fyrir okkur að sýna að við eigum heima í efstu deild. Bæði liðin sem fóru upp í fyrra féllu aftur niður. Það er mikill munur á milli deildanna þannig að við verðum að vera duglegir við æfingar í sumar. Ég er alveg viss um það að það er hægt að festa liðið í sessi sem úrvalsdeildarlið. Þór Akureyri á að vera í efstu deild að staðaldri. Starfið í kringum körfuknattleiksdeildina er alltaf að verða betra og betra. Það er komið öflugt fólk í unglingaráð og í stjórnina og ég finn að það er mikill hugur í fólki að gera starfið betra, ekki bara meistaraflokkinn heldur hjá öllum flokkum félagsins. Það er fullt af fólki sem er að vinna að þessum markmiðum og það er vel,“ segir Benedikt en jafnframt því að þjálfara meistaraflokk karla stýrir hann einnig kvennaliði félagsins sem hafnaði í 5. sæti af sex liðum í 1. deildinni í vetur.

Benedikt gerir sér vonir um að halda flestum leikmönnunum sem léku með karlaliðinu í vetur og stefnan er svo að bæta í hópinn sterkum leikmönnum.

„Það er ljóst að við missum alla vega einn en hans skarð verður fyllt og svo bætist vonandi fleiri leikmenn í hópinn,“ segir Benedikt. Umræddur leikmaður sem yfirgefur Þórsarana er Elías Kristjánsson sem Benedikt segir að hafi verið í stóru hlutverki hjá liðinu í vetur. Elías var að klára nám fyrir norðan og flytur aftur suður en Benedikt segist ekki vera viss um hvaða lið Elías hyggst ganga til liðs við.

Er ekkert á förum

Um samning hans við Þór segir Benedikt: „Ég gerði svokallaðan einn plús tveir samning. Það er endurskoðunarákvæði í honum í maí en ég reikna með því að verða alla vega einn vetur til viðbótar hjá Þór. Ég er ekkert á förum sem stendur,“ segir Benedikt.

„Öll plön sem við gerðum hafa gengið upp og nú er bara verið að útbúa ný plön. Það hefur ekkert upp á sig að fara upp ef klúbburinn er ekki tilbúinn til þess en mér sýnist á öllu að Þór hafi allt til þess að bera að vera á meðal þeirra bestu. Við erum á stóru svæði. Hér er háskóli og það hjálpar til að halda leikmönnum og fá leikmenn. Íþróttafélagið Þór er metnaðarfullt félag svo ég og mitt fólk er bara spennt fyrir framhaldinu,“ sagði Benedikt.

Þór á Akureyri
» Fyrir þetta tíma bil fékk Þór til sín Danero Thomas, bandarískan framherja, sem lék með Fjölni og Val í fyrra en áður með Hamri og KR.
» Andrew Jay Lehman, bandarískur bakvörður, kom einnig til Akureyrarliðsins.
» Þröstur Leó Jóhannsson kom frá Keflavík og Ragnar Helgi Friðriksson frá Njarðvík. Sindri Davíðsson sneri aftur eftir eitt ár hjá Snæfelli.
» Lehman skoraði mest fyrir Þór, 21,6 stig í leik, Tryggvi Snær Hlynason tók flest fráköst, 9 í leik og Ragnar Helgi átti flestar stoðsendingar, 7,9 í leik. Ragnar spilaði mest, 31 og hálfa mínútu í leik að meðaltali.