Ný stjórn tók við í Lífeyrissjóði verslunarmanna um miðjan síðasta mánuð.
Ný stjórn tók við í Lífeyrissjóði verslunarmanna um miðjan síðasta mánuð. — Morgunblaðið/Júlíus
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna var ekki hafður með í ráðum þegar kallað var eftir margfeldiskosningu hjá HB Granda. Þetta segir stjórnarformaður fyrirtækisins.

Allir núverandi stjórnarmenn í HB Granda drógu framboð sín til baka á aðalfundi fyrirtækisins af þeirri ástæðu að í ljós hafði komið að krafa Lífeyrissjóðs verslunarmanna um margfeldiskosningu á fundinum hafði ekki verið borin undir þá stjórn sjóðsins sem þá var tekin við á vettvangi hans.

Í símtali sem nýr stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Guðrún Hafsteinsdóttir, átti við Kristján Loftsson, stjórnarformann HB Granda, þann 23. mars, kom fram að hún var ekki upplýst um að stjórn HB Granda hefði borist beiðni frá Lífeyrissjóði verslunarmanna um að margfeldiskosning yrði viðhöfð við stjórnarkjör í félaginu sem fram átti að fara þann 1. apríl síðastliðinn.

Kristján Loftsson segir í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag að sú vitneskja að stjórnarformaðurinn hafi hvorki komið að ákvörðun um að kalla eftir margfeldiskosningu né ákvörðun um að tefla Önnu G. Sverrisdóttur, sem sæti hefur átt í aðalstjórn lífeyrissjóðsins og situr nú í varastjórn hans, fram í stjórnarkjöri, hafi orðið þess valdandi að stjórnin dró framboð sitt til baka. „Við viljum einfaldlega gefa núverandi stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna tækifæri til að taka þetta til athugunar og að hún meti þetta á eigin forsendum og láti ekki einhverja skuggastjórn ákveða þetta, stjórn sem var ýtt út, meðal annars vegna þess að hún hafði staðið í svona stappi áður. Nú kann það vel að vera að hún komist að sömu niðurstöðu og fyrri stjórn, þá stendur þetta bara. Það á eftir að koma í ljós,“ segir Kristján.

Ný stjórn tók við hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna á ársfundi sjóðsins 15. mars síðastliðinn. Sjö dögum síðar barst HB Granda tilkynning um að lífeyrissjóðurinn færi fram á margfeldiskosningu. Sú beiðni var undirrituð af framkvæmdastjóra sjóðsins, Guðmundi Þ. Þórhallssyni.

Kristján Loftsson segir að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að skipta sér af því hvernig stjórn HB Granda sé mönnuð og að það skýrist af þeirri ástæðu að fyrir sé í fyrirtækinu kjölfestufjárfestir með ríflega 40% hlutafjár. „Þeir eiga ekki að skipta sér af stjórnum þessara fyrirtækja í Kauphöllinni. Það er reyndar ekki hægt að tala um þessa sjóði í fleirtölu. Ef þú talar við þessa aðila sem stýra sjóðunum þá heyrir þú þá í annarri setningunni tala um „lífeyrissjóðinn“ og í hinni „lífeyrissjóðina“. Ef þeir eru að tala um „lífeyrissjóðina“ þá er þetta orðin grúppa og þá eiga þeir að tilkynna sig inn til Kauphallarinnar sem einn hóp, ef ég skil reglurnar rétt. Það gera þeir hins vegar ekki.“