Hellisheiði Borholur til niðurdælingar vatns við Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiði Borholur til niðurdælingar vatns við Hellisheiðarvirkjun. — Morgunblaðið/Golli
Orka náttúrunnar er að undirbúa stækkun niðurdælingarsvæðis Hellisheiðarvirkjunar. Til stendur að nota til þess gamlar og ónýttar vinnsluholur á Stóra-Skarðsmýrarfjalli.

Orka náttúrunnar er að undirbúa stækkun niðurdælingarsvæðis Hellisheiðarvirkjunar. Til stendur að nota til þess gamlar og ónýttar vinnsluholur á Stóra-Skarðsmýrarfjalli. Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda hjá Orku náttúrunnar, segir það hafa gefið góða raun að nota holur á vinnslusvæðum til niðurdælingar.

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst sjö breytingar á deiliskipulagi fyrir Hellisheiðarvirkjun auk umhverfisskýrslu. Ein af stærri breytingunum er lögn og niðurrennslissvæði á Stóra-Skarðsmýrarfjalli.

Í auglýsingu kemur fram að reisa eigi forskilju fyrir skiljuvatn á fjallinu. Vatninu verður komið í holur sem boraðar voru sem vinnsluholur nyrst á fjallinu og lögð ofanjarðar pípulögn á milli. Lögnin er um 1,5 km að lengd. Marta segir að hún sé lögð meðfram núverandi vinnslulögnum af fjallinu og vegslóðum. Fylgi því lágmarks rask framkvæmdinni. Framkvæmdin er í samræmi við umhverfismat virkjunarinnar. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 230 milljónir kr.

Orka náttúrunnar er fyrir með tvö niðurdælingarsvæði, Gráuhnúka og Húsmúla. Dælt er niður vatni sem búið er að nota við orkuöflun í virkjuninni.

Marta segir að aðferðir við niðurdælingu hafi verið þróaðar og starfsmenn fyrirtækisins hafi lært heilmikið um samspil niðurdælingar og vinnslu. Hún vonast til að niðurdælingin styðji vel við vinnsluna á svæðinu, það er að segja að þrýstingi verði betur viðhaldið en ef ekki væri dælt niður.

Mat á jarðskjálftahættu

Þegar niðurdæling vatns hófst á Húsmúlasvæðinu varð töluvert vart við jarðskjálfta. Þeir fundust í byggð, sérstaklega í Hveragerði. Vegna þess hefur fyrirtækið sett sér verklag við niðurdælingu sem miðar að því að lágmarka hættu á að niðurdæling valdi sjálftavirkni sem finnst í byggð. Það verklag hefur gefist vel, að sögn Mörtu.

Hún bendir einnig á að Orkustofnun hafi í síðasta mánuði gefið út nýjar reglur um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar vökva í jörðu. Í þeim felst að gera þarf frummat á skjálftahættu. Marta segir unnið að slíku mati.

Þeir sem hafa athugasemdir geta komið þeim á framfæri við skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss fyrir 12. maí. helgi@mbl.is