Litla-Hraun Innheimta sakarkostnaðar er mjög léleg hér á landi.
Litla-Hraun Innheimta sakarkostnaðar er mjög léleg hér á landi. — Morgunblaðið/RAX
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Útistandandi sektir Íslendinga eru um sex milljarðar króna.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Útistandandi sektir Íslendinga eru um sex milljarðar króna. Ný lög um fullnustu refsinga sem tóku gildi fyrir rúmri viku eiga að taka á þessum vanda þó að ekki verði farin „norska leiðin“ og farið að skoða laun fólks. Frumvarpið er ítarlegra en eldri löggjöf, en helstu breytingar snúa að rafrænu eftirliti og greiðslu sakarkostnaðar.

Þá eru einnig breytingar um ákvæði um stjórnsýslu fangelsismála, fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, réttindi og skyldur fanga, menntun fangavarða, rýmkun samfélagsþjónustu, reynslulausn og skilorðsbundnar refsingar og náðun.

Þegar Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í nóvember kom fram að innheimta sekta og sakarkostnaðar hér á landi væri afleit, sérstaklega þegar litið væri til Noregs, sem væri með mjög gott hlutfall.

„Samkvæmt tölum frá sýslumanninum á Blönduósi er munurinn sláandi. Innheimtuárangur sekta í Noregi miðað við þriggja ára innheimtu er 94% en sambærilegar tölur hér á landi eru 25–35%. Rétt er að benda á að útistandandi sektir eru tæpir 6 milljarðar króna. Hið sama gildir um sakarkostnað, en tugprósentamunur er á innheimtuárangri í Noregi og á Íslandi. Vegna þessa eru í kaflanum lagðar fram tillögur um að rýmka heimildir innheimtuaðila sekta og sakarkostnaðar.“

Niðurstaðan var þó sú að kerfið gæti ekki skoðað upplýsingar um laun sakamanna sem greiða ekki sakarkostnað, eins og Norðmenn gera.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, er ánægð með nýju lögin. „Þetta er skref í rétta átt. Innheimta sakarkostnaðar er mjög léleg hér á landi miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Í Noregi er heimild til að fara inn í laun og það voru umræður í þingsal um þetta atriði. Ríkisendurskoðun hefur gert skýrslu þar sem hún bendir á ýmsar leiðir sem hægt væri að fara og gera betur til að laga þetta innheimtuhlutfall hjá okkur. Við erum að biðja ráðuneytið að koma með tillögur um það í haust. Það er galinn munur á Noregi og Íslandi til dæmis. Það eru ekki víða heimildir til að fara inn í laun fólks og því vildum við að ráðuneytið kæmi með tillögur þar að lútandi,“ segir Unnur.

Rýmri heimild er í nýju lögunum fyrir rafrænu eftirliti fanga. Þannig geta fangar sem dæmdir hafa verið í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eða lengri verið í afplánun undir rafrænu eftirliti í 60 daga. Afplánun undir rafrænu eftirliti lengist um fimm daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið 360 dagar hið mesta. Áður var hún 30 dagar, 2,5 fyrir hvern mánuð, og gat mest orðið 240. Unnur segir að nefnd muni skilgreina hverjir geti sótt um rafræna eftirlitið. „Okkar tillaga var að rýmka reglur en það þarf að skilgreina hverjir myndu uppfylla skilyrði, hvaða skilyrði á að setja og hvernig utanumhaldið á að vera,“ segir Unnur.