[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

Körfubolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Tryggvi Snær Hlinason, miðherjinn hávaxni í liði Þórs á Akureyri, segist spenntur fyrir því að spila með liðinu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik á næstu leiktíð en Þór tryggði sér fyrir nokkru sæti í deild þeirra bestu með því að bera sigur úr býtum í 1. deildinni.

„Þetta tímabil var svona smátilbreyting frá síðasta vetri,“ sagði Tryggvi Snær við Morgunblaðið en Þór endaði í neðsta sæti 1. deildarinnar í fyrra með aðeins 2 stig. „Ég frétti frekar snemma að Benni (Benedikt Guðmundsson) væri á leið til liðsins sem nýr þjálfari og þá jókst tiltrúin hjá mér að góðir tímar væru í vændum. Hann er reyndur og góður þjálfari og honum tókst að búa til gott lið sem fór upp. Nú veit ég að menn leggjast á eitt til að bæta í svo við getum gert góða hluti í Dominos-deildinni á næsta tímabili. Það er mikill hugur í félaginu sem er virkilega jákvætt,“ sagði Tryggvi Snær.

Miklar framfarir á skömmum tíma

Tryggvi er 19 ára gamall miðherji og er engin smásmíði en hann 2,14 metrar á hæð og tveimur sentímetrum betur í körfuboltaskónum. Það vita það ekki allir að Tryggvi fór ekki að æfa körfubolta að neinu viti fyrr en árið 2014 og síðan þá hefur uppgangur hans í íþróttinni verið mikill. Hann hefur spilað með U18 og U20 ára landsliðunum og var valinn í æfingahóp A-landsliðsins fyrir Smáþjóðaleika í fyrra. Hugur hans stefnir til Bandaríkjanna en forráðamenn nokkurra háskólaliða hafa sett sig í samband við Tryggva með það fyrir augum að fá hann til liðs við sig.

„Það er næstum því 100% öruggt að ég spila með Þór á næsta tímabili en eftir það er stefnan að fara út og þá í háskólaboltann í Bandaríkjunum. Nokkrir skólar hafa haft samband við mig en þessi mál skýrast síðar,“ sagði Tryggvi Snær.

Geggjað að finna smjörþefinn

Spurður hvort stóru liðin hér heima hafi reynt að fá hann til liðs við sig segir hann; „Nei, ekkert eftir að ég samdi við Þór. Ég á tvö ár eftir af mínum samningi en það eru ákvæði í honum að ég geti farið út eftir næsta tímabil,“ segir Tryggvi sem var útnefndur íþróttamaður Þórs í fyrra.

Tryggvi segir að draumurinn sé að spila með A-landsliðinu í framtíðinni.

„Það var alveg geggjað að finna smjörþefinn fyrrasumar með A-landsliðinu og ég tel að ég hafi bætt mig heilmikið síðan þá. Vonandi gefst mér aftur tækifæri til að æfa með landsliðinu því maður græðir gríðarlega mikið á því æfa með þessum köppum,“ segir Tryggvi Snær, sem telur næsta víst að hann verði ekki hærri í sentímetrum en raun ber vitni. Hann segist klára rafvirkjanám á næstu önn og útskrifist sem stúdent önnina á eftir og eftir það ætti að hann að verða klár í að halda í víking til Bandaríkjanna.

*Sjá nánar viðtal við Benedikt Guðmundsson þjálfara og umfjöllun um Þór á bls. 4.