Hilmar Jónasson fæddist 26. júní 1950. Hann lést 2. mars 2016.

Foreldrar hans voru Ólafur Jónas Helgason, f. 12. október 1914, d. 2. júní 1994, og Sólveig Magnea Guðjónsdóttir, f. 18. ágúst 1918, d. 19. maí 2002.

Minningarathöfn um Hilmar fer fram í Oddakirkju í dag, 7. apríl 2016, klukkan 17.

Að kvöldi dags er kveikt á öllum

stjörnum,

og kyrrðin er þeim mild sem vin sinn tregar,

og stundum skýla jöklar jarðarbörnum,

og jafnvel nóttin lýsir þeim til vegar.

(Davíð Stefánsson)

Gamall vinur minn, starfsbróðir og baráttumaður fyrir bættum kjörum launafólks á Íslandi til fjölmargra ára er nú látinn á 66. aldursári eftir erfiða sjúkdómsbaráttu. Um árabil gegndi Hilmar Jónasson fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Hann var formaður Verkalýðsfélagsins Rangæings frá 1970 til 1986, aðalhvatamaður að stofnum Lífeyrissjóðs Rangæinga 1971 og fyrsti formaður hans og sat m.a. í Miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Kynni okkar hófust fyrir alvöru þegar ég hóf störf hjá Verkalýðsfélaginu Rangæingi undir forystu Hilmars á fyrstu árum sjöunda áratugar síðustu aldar. Þetta var á upphafsárum virkjanaframkvæmda á Tungnaársvæðinu þegar júgóslavneska verktakafyrirtækið Energoprojekt hófst handa um að byggja Sigölduvirkjun. Á þessum tíma var lagður grunnur að fyrsta heildstæða virkjanasamningi starfsfólks við atvinnurekendur og er á engan hallað þó fullyrt sé að þáttur Hilmars og forystuhlutverk hafi þar verið afgerandi. Hilmar var ævinlega vakinn og sofinn yfir kjörum verkafólks í hinum hefðbundnu starfsgreinum sunnlenskra byggða, kjörum farandverkafólks á hálendinu og fyrir verkafólk almennt á landsvísu. Hann var lipur samningamaður en gat jafnframt verið harður í horn að taka ef honum fannst á rétt verkafólks gengið. Kjaramál voru honum mjög hugleikin og á stundum var glöggskyggni hans og framsýni í þeim efnum með ólíkindum. Í störfum sínum og einkalífi, á þessum árum, var hann hrókur alls fagnaðar og ávann sér traust og vináttu fjölmargra, þ.m.t. lykilmanna í verkalýðshreyfingunni og á stjórnmálasviðinu. Það vafðist ekki fyrir Hilmari að spjalla opinskátt eða rökræða við ríkissáttasemjara, forsætisráðherra, vegaverkstjóra eða ræstingakonur í mötuneytum. Hann gerði ekki mannamun og var afskaplega bóngóður og hjálpsamur, ekki síst þeim sem áttu um sárt að binda. Hilmar var ekki heilsuhraustur síðari hluta starfsævinnar. Eftir að hann hætti störfum fyrir verkalýðshreyfinguna flutti hann til Malmö í Svíþjóð og vann þar meðan heilsan leyfði, en átti síðustu misseri í baráttu við sjúkdóm sem ekki varð sigraður. Útför Hilmars er gerð í dag 4. apríl frá Fosie-kirkjunni í Malmö.

Blessuð sé minning hans.

Við hjónin kveðjum góðan vin og dreng og vottum aðstandendum hans okkar fyllstu samúð.

Sigurður Óskarsson,

Eygló Guðmundsdóttir.

Hilmar bjó við þá fötlun að annar fóturinn var styttri en hinn. Átti hann því erfitt með að fylgja krökkunum eftir. Gat hann varla hlaupið og var svolítið feitlaginn, sem þætti ekki tiltökumál í dag.

Foreldrar hans höfðu slitið samvistum þegar Hilmar var mjög ungur og Jónas faðir hans flutt á Akranes. Þetta var Hilmari mjög erfitt og tók hann upp á því að segja okkur yngri krökkunum ofurhetjusögur af pabba sínum. Hann hafði ríka frásagnargáfu sem leiddi af sér spuna ævintýra sem átti ekkert skylt við raunveruleikann.

Í garðinum hjá Hilmari var skúr, athvarf fyrir okkur strákana. Svona eins og leynistaður eða svarthol, að minnsta kosti sagði maður ekki frá því heima hjá sér þegar maður hafði verið í skúrnum hjá Hilmari að reykja og hlusta á ýkjusögur.

Hann var vel til forystu fallinn og leiddi oft leikinn með sínum sérstaka hætti sem mótaðist af líkamlegu ástandi hans og fjarveru við föðurinn. Og ekki síst af því hvernig búsetu hans var háttað í þorpinu. Veiga móðir hans var hótelstýra hjá Kaupfélaginu Þór og þar höfðu þau aðsetur að hluta til, ásamt húsi sínu inni í þorpi. Maður hafði það á tilfinningunni að Hilmar væri einfaldlega hluti af Hótelinu og Hellubíói.

Við þessar aðstæður vex Hilmar úr grasi. Kynnist allskonar fólki. Hann var mannblendinn, hlýr í viðmóti, greiðvikinn og hrókur alls fagnaðar, þegar því var að skipta. Hann var einhvern veginn þannig að allir vildu gera allt fyrir hann ef þeir mögulega gátu.

Hilmar tók sér margt fyrir hendur um dagana. Bæði í starfi og félagsmálum. Innan við tvítugt er honum falin ábyrgð á hendur í ríkum mæli. Oft gekk vel og á stundum var eins og maðurinn færi með himinskautum, slík var ábyrgðin sem honum var falin.

En úthaldið var ekki hans sterkasta hlið og vildi loftið þá stundum síga úr blöðrunni þegar frá leið. En þá tóku bara ný ævintýri við. Hilmar átti framan af ævi ótrúlegan feril í félagsmálum og starfi, en seinnihluta ævinnar var þyngra fyrir fæti.

Ég votta aðstandendum innilega samúð mína.

Sævar Jónsson.