Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, gerði tillögu um Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem ráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Inga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, gerði tillögu um Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem ráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Inga. „Frá því að ég byrjaði í pólitík hef ég reynt að fá fólk til þess að vinna með mér sem hefur sýnt að það hafi hæfileika, greind og þekkingu á þeim sviðum sem við er að fást. Lilja er mikil yfirburðamanneskja á mörgum sviðum og mikill fengur fyrir ríkisstjórnina að fá hana til liðs við sig,“ sagði Sigmundur Davíð við Morgunblaðið í gær.

Lilja Dögg er verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, er stjórnmálafræðingur með meistaragráðu frá Columbia-háskóla í alþjóðahagfræði og vann áður hjá Seðlabanka Íslands, m.a. sem aðstoðarframkvæmdastjóri, og hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington D.C. milli 2010 og 2012.

Hún hefur áður sinnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en í forsætisráðuneytinu hefur hún sinnt ýmsum störfum, þ.á.m. setið í starfshóp um Leiðréttinguna svokölluðu og leiddi vinnuhóp sem skipaður var til þess að finna lausnir á vandamálum Grímseyjar. Hún er almennt sögð náinn samstarfsmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra.

Lilja er dóttir fv. borgarfulltrúa Framsóknar og stjórnarformanns Orkuveitunnar, Alfreðs Þorsteinssonar. Eiginmaður hennar er Magnús Óskar Hafsteinsson, hagfræðingur sem starfar í fjármálaráðuneytinu, og eiga þau tvö börn: Eystein Alfreð og Signýju Steinþóru.