Ljósverkið Musteri ásetningsins verður lýst upp við sólsetur í kvöld á Landakotshæð og mun sjást til sólarupprásar á morgun, í tilefni af nýju tunglári.
Ljósverkið Musteri ásetningsins verður lýst upp við sólsetur í kvöld á Landakotshæð og mun sjást til sólarupprásar á morgun, í tilefni af nýju tunglári. Musterið er unnið undir merkjum rannsóknarfyrirtækisins LHNT og er samstarf Kristínar Gunnarsdóttur myndlistarmanns, Kristjáns Leóssonar ljóseðlisfræðings, Kristins Más Ingvarssonar húsasmiðs og Hildigunnar Sverrisdóttur arkitekts og teiknað með ljósgeislum sem verður varpað frá turni Landakotskirkju og turni Landakotsspítala til himins og niður í jörð. Um verkið segir að lýsingin sé „tilraun til að draga fram eins konar landakort – eðli ásetningsins og það musteri sem við búum í – og bjóða bil þess velkomið“. Landakot sé tilvalinn staður til að draga upp landakortið – á milli bygginga trúar og vísinda, þar sem önnur byggingin birti formgervingu þekkingar okkar og vísi í hina bygginguna sem sé tákn fyrir máttinn handan okkar þekkingar og auðmýktina sem því fylgi. Byggingarnar séu báðar af sama meiði og hvor um sig herbergi í musterinu.