Hjónin Eva og Eldar bregða á leik á tónlistarhátíð Pitchfork í París.
Hjónin Eva og Eldar bregða á leik á tónlistarhátíð Pitchfork í París.
Það er nóg að gera hjá mér í vikunni,“ segir Eva Einarsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Besta flokksins, sem er fertug í dag. „Ég er að klára meistaraverkefni mitt en ég er að ljúka MBA-námi mínu frá Háskólanum í Reykjavík.

Það er nóg að gera hjá mér í vikunni,“ segir Eva Einarsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Besta flokksins, sem er fertug í dag.

„Ég er að klára meistaraverkefni mitt en ég er að ljúka MBA-námi mínu frá Háskólanum í Reykjavík. Í gær voru tvennir tónleikar í tónleikaröð í Hörpunni sem ég sé um og heitir Blikktromman.“

Tónleikaröðin hófst í haust og eru haldnir fyrsta miðvikudags hvers mánaðar í Kaldalóni og meðal þeirra sem hafa komið fram eru Högni Egils og Mr. Silla. „Blikktromman hefur gengið vonum framar og verða tónleikar haldnir í næsta mánuði og byrja svo aftur næsta haust.“ Síðustu tónleikar vetrarins verða með spunameistaranum Davíð Þór Jónssyni.

„Í dag koma fimm vinkonur mínar frá Svíþjóð, við ætlum í Bláa lónið og svo ætla ég að sýna þeim náttúru landsins á morgun og hlakka mikið til. Svo verður partí á laugardaginn í tilefni afmælisins, það verður haldið úti í bæ með vinum mínum og fjölskyldu.“

Eva situr í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar, skóla- og frístundaráði og í stjórnkerfis- og lýðræðisráði fyrir hönd Bjartrar framtíðar.

„Það er ekki auðveldur róður í neinu þessara ráða miðað við fjárhagsstöðu borgarinnar en við reynum að gera það besta úr því. Það er margt jákvætt í gangi, meðal annars erum við loksins að bjóða upp á móðurmálskennslu fyrir börn sem eru með íslensku sem annað tungumál. Í ÍTR erum við að halda áfram með uppbyggingu sundlauga sem bæði borgarbúar og gestir höfuðborgarinnar njóta.“

Eiginmaður Evu er Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP. Börn þeirra eru Saga 9 ára og Hugi 5 ára.