Ævar og Birna Sigrún. Námsefnið skoðar m.a. hættuna af plastmengun, olíumengun og efnamengun.
Ævar og Birna Sigrún. Námsefnið skoðar m.a. hættuna af plastmengun, olíumengun og efnamengun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Nýtt kennsluefni verður prufkeyrt á vorönn 2017. Margar hættur steðja að auðlindinni og áríðandi að komandi kynslóðir sofni ekki á verðinum.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins ákvað á dögunum að styrkja verkefni sem miðar að gerð fræðsluefnis um mengun sjávar. Að verkefninu standa Birna Sigrún Hallsdóttir, umhverfisverkfræðingur, ráðgjafi hjá Umhverfisráðgjöf Íslands og stundakennari við Skipstjórnarskóla Tækniskólans, og Ævar Þór Benediktsson, vísindamaður og barnabókahöfundur með meiru.

Birna segir ætlunina að gera kennsluvef þar sem nemendur og kennarar geta nálgast fræðslurit, myndbönd og verkefni sem fjalla um mengun sjávar. „Efninu verður skipt upp í fimm kafla: Við fjöllum um loftslagsbreytingar og súrnun sjávar, olíumengun, efnamengun, plast og annan úrgang og loks geislavirkni,“ útskýrir hún. „Þetta efni ætti að koma í góðar þarfir, t.d. í náttúrufræðikennslu á grunnskólastigi eða í umhverfisfræðiáföngum framhaldsskólanna og ætlunin er að prufukeyra námsefnið í Tækniskólanum og í Landakotsskóla á vorönn 2017. Í framhaldinu má meta hvort og hvernig kennsluvefurinn getur stutt við námskrá skólanna.“

Mikil verðmæti í húfi

Að sögn Birnu er brýnt að auka þekkingu landsmanna á þeirri hættu sem mengun í sjó getur skapað. „Því miður hafa Íslendingar verið svolítið meðvitundarlitlir í umhverfismálum, kannski vegna þess að við búum ekki við mikla mengun í okkar daglega lífi, erum fámenn þjóð í stóru landi sem þýðir að sú mengun sem frá okkur kemur dreifist yfir hlutfallslega stórt svæði. Reyndar má greina veruleg umskipti í umhverfisvitund landsmanna á undanförnum árum, og meðal annars hafa mörg fyrirtæki – þar á meðal sjávarútvegsfyrirtæki – sett umhverfismál í forgang í rekstrinum.“

Mikið er í húfi enda hefur ástand lífríkisins umhverfis landið mikið að segja fyrir afkomu sjávarútvegsins og um leið fyrir allan efnahag þjóðarinnar. Segir Birna að jafnt minnháttar sem meiriháttar áföll af völdum mengunar myndu geta gert allt frá því að raska vexti stofna yfir í að eyðileggja orðspor íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum.

Súrnun ógnar ýsunni

En hverjar eru mengunarhætturnar og hvernig snerta þær Ísland? Birna nefnir fyrst af öllu súrnun sjávar, vegna aukins magns koltvísýrings í andrúmslofti, og hnattræna hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda. Súrnun sjávar segir hún að geti komið hvað harðast niður á köldum hafsvæðum eins og Íslandsmiðum. „Breyting á sýrustigi sjávar hefur áhrif á kalkmettun hafsins sem svo truflar vöxt kalkberandi lífvera, s.s. skelfisks. Það getur í framhaldinu haft áhrif á alla fæðukeðjuna og komið illa við ýmsar fisktegundir, t.d. ýsu. Frekar stutt er síðan athygli vísindaheimsins fór að beinast að súrnun sjávar og upp á síðkastið hafa birst sláandi rannsóknarniðurstöður sem sýna t.d. merki um vefjaskemmdir í þorskalifur í súrari sjó og að sýrustigið getur haft áhrif á heila fiska.“

Sjórinn er mjög viðkvæmur fyrir olíumengun, ekki síst á norðlægum slóðum þar sem olían brotnar seint niður, lífríkið er viðkvæmt og viðbragðstími björgunaraðila langur. Tiltækar aðferðir við björgun virka líka oftast verr í köldum sjó, að sögn Birnu. Hún segir mikilvægt að huga að því hvað gæti gerst ef olía læki úr stóru olíuflutningaskipi, eða ef tæki að leka úr olíulind á Drekasvæðinu. „Líkurnar á stóru olíuslysi eru vonandi ekki miklar, en afleiðingarnar gætu orðið svo svakalegar að nauðsynlegt er að vera á verði. Við höfum fordæmi frá t.d. Exxon Valdez-slysinu undan ströndum Alaska árið 1989 þar sem lífríkið hefur ekki enn náð að jafna sig að fullu. Ekki er nægjanlegt að huga að forvörnum heldur þarf líka að íhuga hvernig brugðist verður við hugsanlegum slysum. Bæði í Alaska og síðar í mengunarslysinu í Mexíkóflóa árið 2010 reyndust sum efnin sem notuð voru til hreinsunar margfalt eitraðri en olían sjálf.“

Hræðsla grípur um sig

Losun geislavirkra efna í hafið getur líka valdið gríðarlegu tjóni, ekki aðeins vegna beinna áhrifa heldur geta viðbrögð neytenda jafnvel orðið sterkari en efni standa til. „Þegar vart verður við geislavirkni grípur um sig mikil hræðsla. Þá geta slys sem verða í fjarlægum heimshlutum haft áhrif hér á landi. Þannig mældist geislavirkni sem rekja má til slyssins í kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan, hér við land áður en hennar varð vart í öðrum löndum Evrópu.“

Plastmengun hefur verið mjög í umræðunni undanfarin ár og alkunna er að stórir plastflákar hafa myndast á ákveðnum stöðum í heimshöfunum. Þekktastur þeirra er flákinn í norðanverðu Kyrrahafinu. Birna segir að þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið hér við land bendi til þess að plastmengun sé vandi umhverfis Ísland eins og annars staðar. „Plastagnir hafa ýmis neikvæð áhrif á lífverur í hafinu og flytja að auki með sér ýmis eiturefni sem hafa ratað í sjóinn. Þessi efni geta borist með plastinu inn í fæðukeðjuna og valdið þar miklum skaða.“

Loks nefnir Birna efnamengun af ýmsum toga sem berst með úrgangi frá byggðum og atvinnustarfsemi út í hafið. „Á norðlægum slóðum, s.s. í Norðursjó og Eystrasalti, hafa næringarefni sem berast út í sjó verið mikið vandamál og komið ójafnvægi á lífríkið. Tekist hefur að marka betri stefnu í þessum málum í löndunum í kringum okkur en vandinn er fjarri því leystur og nú þegar má finna í hafinu alls kyns óæskileg efni sem brotna mjög seint niður í hafinu. Hér má t.d. nefna þrávirk lífræn efni sem safnast fyrir á norðlægum slóðum og vex styrkur þegar ofar kemur í fæðukeðjuna.“