Afmæli Nokkrar úr hollinu ásamt eiginmönnum fögnuðu hálfrar aldar útskriftarafmæli sínu 11. mars síðastliðinn.
Afmæli Nokkrar úr hollinu ásamt eiginmönnum fögnuðu hálfrar aldar útskriftarafmæli sínu 11. mars síðastliðinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bítlaæðið var í algleymingi, rauðsokkur fóru að kveðja sér hljóðs og alls konar samfélagsbreytingar voru að ganga í garð árið 1966 þegar tuttugu og ein hjúkrunarkona útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands.

Bítlaæðið var í algleymingi, rauðsokkur fóru að kveðja sér hljóðs og alls konar samfélagsbreytingar voru að ganga í garð árið 1966 þegar tuttugu og ein hjúkrunarkona útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands. Þær tengdust vináttuböndum og hafa um fjórtán úr „hollinu“ hist a.m.k. einu sinni í mánuði síðan þær fengu þrjá bláa hnappa í kappa fyrir hálfri öld. Unnur Ragnars, nöfnurnar Valgerður Lárusdóttir og Valgarðsdóttir og Þórdís B. Kristinsdóttir eru „hollsystur“.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Hjúkrunarkonurnar tuttugu og ein sem útskrifuðust frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1966 voru með þeim síðustu sem gengu til starfa sinna í ljósbláum kjólum með hvíta smekksvuntu bundna um sig miðja og kappa á höfði. Og raunar líka með þeim síðustu sem kölluðust hjúkrunarkonur en ekki hjúkrunarfræðingar eins og starfsheiti þeirra breyttist í um leið og námið varð háskólanám og fyrstu karlarnir menntuðu sig sem slíkir.

Hinn 11. mars síðastliðinn fögnuðu fjórtán kvennanna ásamt eiginmönnum sínum hálfrar aldar útskriftarafmæli með pomp og pragt; kræsilegu matarboði heima hjá einu parinu. Á afmælisárinu stendur svo til að hersingin fari saman til útlanda á aðventunni. Berlín eða Vín koma helst til greina. Hópurinn hefur þegar drepið niður fæti í helstu stórborgum heims, New York, París, Róm, Madríd og fleiri. Saman hefur meirihluti útskriftarhópsins 1966, með eða án maka, fagnað einu og öðru í áranna rás; í heimahúsum, á veitingastöðum, ferðalögum innanlands og utan eða bara hvar sem þeim dettur í hug að gera sér glaðan dag. „Og oft ekki af öðru tilefni en til að njóta samverunnar,“ segja vinkonurnar Unnur Ragnars, Valgerður Lárusdóttir, Valgerður Valgarðsdóttir og Þórdís B. Kristinsdóttir.

Holl eins og Danskurinn segir

Þær og fleiri úr útskriftarhópnum hittast a.m.k. einu sinni í mánuði á „hollkvöldum“. Þegar meira stendur til, svo sem ferðalög, afmæli og þess háttar, er eiginmönnunum boðið með, en þær segja þá ekki síður hafa ánægju af samverustundunum. Hópurinn nái einfaldlega prýðisvel saman í alla staði. „Vináttan vex hjá holli 66,“ segja þær.

Hollkvöldin svokölluðu eru þó kvennanna einna, nokkuð svipuð saumaklúbbum nema hvað lítið er um hannyrðir. Þær eru meira í að spjalla saman, rifja upp gamlar minningar, skipuleggja ferðalög og alls konar skemmtilegheit og uppákomur fyrir hópinn í heild. Nafngiftin hollkvöld er ekki eins og kannski mætti ætla hollur í merkingunni heilnæmur heldur hópur eins og Danskurinn segir – og skrifar reyndar „hold“. „Þegar við hófum nám í Hjúkrunarskóla Íslands var allt námsefnið á dönsku,“ útskýra þær. Og þótt þeim hafi nánast fallist hendur til að byrja með yfir öllum þessum dönsku orðum „sygdom“, „sygeplejerske“ og þaðan af vitaskuld erfiðari, voru þær fljótar að komast inn í málið. Eins og þær voru að aðlaga sig ströngum aga í heimavist skólans þar sem nemum var skylt að dvelja án tillits til þess hvort þeir ættu lögheimili í Reykjavík eða annars staðar.

„Við komum hvaðanæva af landinu og þekktumst ekkert innbyrðis þegar við hófum þriggja ára hjúkrunarnám um áramótin 1963. Heimavistin varð ábyggilega til þess að hópurinn þjappaðist enn betur saman en ella, en þar dvöldumst við þegar við vorum ekki í verklega náminu sem fólst í tímabundnum störfum á sjúkrahúsum og fæðingardeildum í Reykjavík og úti um allt land.“

Ástarfundur í setustofu

Þær muna ennþá herbergisnúmerin sín á heimavistinni. „Fyrir mér var heimavistin svolítið eins og að ganga í klaustur,“ segir Þórdís, en hún var sú eina í árganginum sem átti kærasta á þessum árum. „Hann mátti heimsækja mig í setustofuna, en húsinu var lokað klukkan hálftólf.“ Hún rifjar líka upp að Unnur hafi einhverju sinni sagt við sig að það mætti ætla að hún hefði alist upp í paradís á jörðu en ekki á Patreksfirði eins og raunin var þegar hún var að barma sér yfir reglunum í vistinni.

En helgarleyfin urðu þeim til bjargar og þegar líða tók á námið viðurkenna vinkonurnar að þeim hafi á stundum tekist að lauma sér út og inn aftur án þess að eftir því væri tekið.

Þeim verður tíðrætt um agann sem ríkti jafnt í skólanum sem og á fyrstu starfsárum sínum. Sumar deildarhjúkrunarkonurnar segja þær hafa verið gríðarlega strangar. „Þær lifðu fyrir starfið og við bárum óttablandna virðingu fyrir þeim,“ segir Unnur. Eins og sýndi sig þegar ein ónafngreind úr hollinu endaði á að borða sjálf mat sjúklings, sem hafði harðneitað að láta hann inn fyrir sínar varir.

„Þegar ónefndur nemi sagði deildarhjúkrunarkonunni að sjúklingurinn vildi ekki matinn kvað hún upp úr um að slíkt næði engri átt, maturinn skyldi ofan í hann hvað sem tautaði og raulaði og sendi nemann umsvifalaust aftur inn á stofu með matarbakkann. Sjúklingurinn var enn við sama heygarðshornið, neminn fékk ekki við neitt ráðið og tók því til bragðs að ganga afsíðis og borða matinn til að forðast ákúrur,“ rifja þær upp.

Verklag, verkaskipting og ótal margt fleira á sjúkrahúsunum tók miklum breytingum áratugina sem þær störfuðu við hjúkrun. Sérstaklega fyrsta áratuginn. Eins og flest annað. Hjúkrunarkvennabúningarnir með hvítu köppunum voru aflagðir, getnaðarvarnarpillan kom til sögunnar, Bítlaæðið var í algleymingi, rauðsokkur létu til sín taka og vöktu athygli á misjafnri stöðu kynjanna og menn komust meira að segja til tunglsins.

„Sjúkraliðar voru ekki til sem starfstétt og því sinntum við líka störfum sem þeir hafa núna á sinni könnu. Milli þess sem við önnuðumst sjúklingana, bjuggum við til umbúðir og brýndum nálar svo fátt eitt sé talið, enda hlutirnir yfirleitt ekki einnota eins og núna. Við sátum aldrei auðum höndum, gerðum nánast flest annað en að þrífa.“

Valgerður Lárusdóttir minnist þess hversu mikil áhersla var lögð á við þær að bruðla ekki með línið. „Gerir þú þér grein fyrir hvað kostar að þvo eitt stykki koddaver? spurði deildarhjúkrunarkona mig eitt sinn í ávítunartón og nefndi krónutöluna.“

Þórdísi eru líka í fersku minni ákúrur ljósmóður á fæðingardeildinni í Reykjavík 23. nóvember 1963. „Þetta var dagurinn sem Kennedy var myrtur, en mér varð svo mikið um að ég gleymdi að gefa sprautu. „Þú verður aldrei hjúkrunarkona ef þú hagar þér svona,“ sagði ljósmóðirin á vaktinni.“

En enginn verður óbarinn biskup og þær komust í gegnum hjúkrunarnámið með glans og hafa aldrei séð eftir að hafa valið sér hjúkrun sem starfsvettvang.

Hið ljúfa líf

Útskriftarhópurinn 1966 er af fyrstu kynslóð kvenna á Íslandi sem almennt stefndi að starfsnámi og vann utan heimilis. Vinkonurnar fjórar hafa allar látið af störfum sem og væntanlega allar í árganginum og eru alsælar með hið ljúfa líf sem þær hafa lifað og eiga í vændum um ókomin ár.

Valgerður Valgarðsdóttir varð síðust til en hún vann alla tíð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, fyrst við hjúkrun og síðan sem djákni til ársins 2012. Nafna hennar Lárusdóttir starfaði hvort tveggja sem flugfreyja og hjúkrunarfræðingur til 2004, Þórdís vann fyrst í stað á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði en eftir framhaldsnám í öldrunarfræðum á Hrafnistu þar í bæ til ársins 2009. Fyrstu árin eftir útskrift gætti Unnur bús og barna í Bandaríkjunum þar sem eiginmaður hennar var í framhaldsnámi, en hóf síðan störf á Borgarspítalann og vann þar til ársins 2008. „Ég hef alltaf hlakkað til að fara í vinnuna,“ segir hún og hinar taka undir.

Þær eru sammála um að hjúkrun sé ákaflega gefandi starf og hafi kennt þeim að takast á við ýmislegt í daglega lífinu. „Þótt starfið sé launalega vanmetið, fylgja því margir kostir, til dæmis starfsöryggi, vinna á fjölbreyttum deildum með góðu fólki, möguleikar á hlutastarfi ef þess er óskað og síðast en ekki síst starfslok samkvæmt 95 ára reglunni, sem gerði okkur kleift að hætta störfum áður en við yrðum komnar að fótum fram. “

Þær eiga langt í land.