Rannsókn Gianni Infantino, forseti FIFA, á blaðamannafundi í Sviss.
Rannsókn Gianni Infantino, forseti FIFA, á blaðamannafundi í Sviss. — AFP
Svissneska lögreglan gerði í gær húsleit í höfuðstöðvum Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, meðal annars vegna upplýsinga í Panama-skjölunum þar sem nokkrir hátt settir menn innan sambandsins komu við sögu.

Svissneska lögreglan gerði í gær húsleit í höfuðstöðvum Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, meðal annars vegna upplýsinga í Panama-skjölunum þar sem nokkrir hátt settir menn innan sambandsins komu við sögu.

Meðal þeirra sem eru nefndir í skjölunum er Gianni Infantino, núverandi forseti FIFA, sem var lengi einn af aðalmönnunum hjá UEFA. Hann er sakaður um að hafa samið um útsendingarétt fyrir Meistaradeild Evrópu í Ekvador í gegnum félagið Cross Trading. Það félag er rekið af argentínskum feðgum, Hugo og Mariano Jinkis, sem eru sakaðir um mútugreiðslur.

Talið hafa greitt milljónir dollara í mútur

Feðgarnir eru á meðal 39 manna sem tengjast alþjóðaknattspyrnusambandinu og hafa verið ákærðir í Bandaríkjunum fyrir spillingu. Bandarískir saksóknarar hafa sagt að Cross Trading hafi greitt milljónir dollara í mútur fyrir að tryggja sér sjónvarpsréttarsamninga í Suður- og Mið-Ameríku, að sögn fréttaveitunnar AFP .

Fyrirtækið er meðal annars sagt hafa borgað 111 þúsund dollara, jafnvirði tæpra 14 milljóna króna, fyrir sýningaréttinn í Ekvador en selt hann svo samstundis áfram á þrefalda þá fjárhæð. Svissnesk yfirvöld vilja afla sér frekari upplýsinga um samninginn á milli UEFA og Cross Trading, en Infantino sá um málið fyrir UEFA.

Neitar sök

Gianni Infantino neitar því að hann hafi gerst sekur um lögbrot og spillingu.

Hann var yfirmaður lagadeildar sambandsins þegar samningurinn var gerður. Hann varð seinna framkvæmdastjóri UEFA og var kjörinn forseti FIFA í febrúar, eftir að Sepp Blatter neyddist til að segja af sér vegna spillingarmála. Mál Blatters og Jerome Valcke, fyrrverandi framkvæmdastjóra FIFA, eru enn í rannsókn í Sviss.