Örn Pálsson
Örn Pálsson
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, er á sama máli og rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar samgönguslysa í Morgunblaðinu sl. þriðjudag um að ofhleðsla fiskibáta sé áhyggjuefni.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, er á sama máli og rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar samgönguslysa í Morgunblaðinu sl. þriðjudag um að ofhleðsla fiskibáta sé áhyggjuefni. „Ég tek undir svona áhyggjur og vil brýna fyrir mínum mönnum að kunna sér hóf í svona og fækka þá frekar línum í sjó þannig að ekki sé tekin áhætta gagnvart mannskap og bát,“ segir hann.

Spurður hvort meira beri á þessu í seinni tíð en áður bendir Örn á að á stundum sé mikið fiskirí og þá hafi menn yfirleitt brugðið á það ráð að fækka veiðarfærum í sjó eða að draga ekki allt um borð til að lenda ekki í svona aðstöðu. ,,Þetta hefur líka eitthvað með stýringu veiðanna að gera,“ segir hann.

Þessi mál koma öðru hvoru upp í umræðunni m.a. í tengslum við umræðu um meðferð aflans. ,,Við leggjum gríðarlega áherslu á það við okkar menn að ganga mjög vel um og ég ætla ekki annað en að menn geri það. En auðvitað getur orðið misbrestur á því þegar svona mikill afli kemur um borð. Við höfum brýnt þetta fyrir mönnum bæði vegna öryggissjónarmiða og aflameðferðar.“ omfr@mbl.is