Ólafur Gunnarsson fæddist á Akureyri 8. mars 1953. Hann lést á heimili sínu 24. mars 2016.

Foreldrar hans voru Sólveig Sigurbjörg Hermannsdóttir frá Kambhóli Arnarneshreppi, fædd 26. janúar 1932, dáin 16. apríl 2006, og Gunnar Ólafsson frá Kljáströnd í Höfðahverfi, fæddur 1. október 1917, dáinn 6. september 1991.

Systur Ólafs eru Þórunn, gift Hermundi Jóhannessyni, Jóhanna María, gift Kristjáni Þorkelssyni, Guðrún Elín, gift Jóni Inga Cæsarssyni, og Anna Dóra, gift Eiríki Vigni Kristvinssyni.

Þann 21. febrúar 1986 giftist Ólafur Kristínu Antonsdóttur, fædd 4. júní 1948. Foreldrar hennar voru Anton Eiríksson, fæddur 25. mars 1913, dáinn 5. maí 1988, og Sigurrós María Jónasdóttir, fædd 16. mars 1916, dáin 19. janúar 1952. Börn Ólafs og Kristínar eru Rósa Björg Hema Ólafsdóttir, fædd 13. október 1987, í sambúð með Braga Magnússyni, og Anton Gunnar Ólafsson, fæddur 11. febrúar 1992.

Útför Ólafs verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 7. apríl 2016, og hefst klukkan 13.30.

Ólafur frændi okkar Gunnarsson er allur. Lokið er jarðnesku lífi góðs frænda og vinar. Við sem eftir erum drúpum höfði í sorg og hljóðri bæn. Sláttumaðurinn slyngi kom ekki óvænt. Hans hafði verið beðið um nokkra hríð en á meðan vann krabbameinið smám saman á honum frænda okkar og svo fór að líkaminn gafst upp en dauðinn kom sem líknandi vinur. Í faðmi konu og barna hóf Óli þá för sem okkur öllum er ætluð.

Ungur fór Óli á sjóinn með föður sínum. Hann var smástubbur þegar honum var treyst til að stýra á eyfirskum miðum en hann fékk kassa til að standa á svo hann gæti séð út um gluggann á stýrishúsinu. Á þessum árum var hrefnuveiði stunduð úti fyrir Norðurlandi og Óli tók þátt í henni af lifi og sál. Hafið varð hans starfsvettvangur; ýmist á litlum bátum á norðlenskum miðum eða á togurum ÚA.

Óli var náttúrubarn í bestu merkingu þess orðs. Hann þekkti æðaslög sjávarins og virtist alltaf vita hvar væri von á veiði og skipti þá ekki máli hvort bráðin væri þorskur, ýsa eða sjófuglar af ýmsu tagi. Best þekkti Óli lífríki Eyjafjarðar og hann bar mikla virðingu fyrir öllu sem þar á sér bólstað. Rjúpu- og laxveiði var að sjálfsögðu hluti af lífsmunstrinu og Fljótið átti sinn sess hjá frænda okkar.

Nú er Óli er kominn í skipsrúm hjá almættinu. Ef veiðar eru stundaðar á hinum himnesku höfum, þá er Óli án efa búinn að fá vilyrði fyrir þokkalegri trillu og verbúð að auki. Ef við þekkjum hann frænda okkar rétt þá er hann líka búinn að kanna hvort ekki sé sæmileg laxveiði á svæðinu. Gamlir spilafélagar hafa án efa leitt hann til sætis og spilað nokkrar rúbertur en fáir voru Óla slyngari við spilaborðið. Það fengum við frændur að reyna í skólafríum þegar við snerum við sólarhringnum og spiluðum fram á rauðan morgun. Bensínið hlýtur að hafa verið ódýrt á þessum árum því helgi eftir helgi ókum við hundruð kílómetra um miðbæ Akureyrar án þess að nokkur hefði áhyggjur af kostnaði. Aldrei skorti okkur frændurna umræðuefni en líklegt má telja að oftar en ekki hafi það verið hið veikara kyn. Ótal ferðir voru farnar út á Kljáströnd og róið á þekkt mið, silunganet lögð og þeirra vitjað samviskusamlega um lágnættið. Á þessum árum voru þeir hnútar hnýttir sem héldu þótt árin liðu.

Það er erfitt að sjá á bak góðum frænda sem fer alltof snemma, en eftir lifir hinsvegar minning um góðan mann sem ásamt konu sinni, kom tveimur börnum til manns.

Við minnumst Óla með þakklæti og virðingu um leið og hugur okkar er með Kristínu, Antoni, Rósu og Braga.

Áskell Þórisson, Sigurður Vigfússon, Ólafur Haukur Baldvinsson, Ólafur Haraldsson og fjölskyldur.

Elsku Óli.

Það er ekki markmið mitt að skrifa æviágrip þitt heldur eingöngu að stikla á stóru um samskipti okkar.

Fyrir 30 árum kom ég að heimili Óla og Stínu til að færa þeim gjafir vegna komu dóttur þeirra frá Indlandi eftir langþráða bið. Óli reyndist bara heima með stúlkuna en bauð mér inn í kaffi eftir að ég hafði horft á litla undrið við rúm móður sinnar, já undur eftir allt sem búið var búið að reyna. Á meðan við drukkum kaffið myndaðist á milli okkar vinskapur sem hélt til hins síðasta dags. Mér var strax ljóst að þar var á ferð góður maður alveg sama hvernig á það er litið. Ófáar komur mínar urðu svo í Lundargötuna þar sem mér var sagt að hætta að banka, ég skyldi bara koma inn. Óli var mér sannur vinur og heimili þeirra Stínu auk efnilegra barna þeirra var alltaf hlýlegt og fallegt. Þarna sagði ég brandara og þarna felldi ég tár á erfiðri stundu eftir andlát móður minnar og alltaf var ég velkomin og er.

Nokkrum dögum fyrir andlátið leit ég við hjá honum og við kvöddumst; vissum bæði hvað væri fram undan. Síðustu ósk mína bar ég fram en hún er sú að ég komi í sumar í heimsókn og að við fáum okkur kaffi saman í sumar á sólpallinum og efa ég ekki að hann verður hjá mér í anda.

Guð varðveiti minningu þessa einstaka manns. Einnig bið ég Guð um að veita fjölskyldu hans ljós og styrk á erfiðum tímum.

Þó kveðji vinur einn og einn

og aðrir týnist mér,

ég á þann vin, sem ekki bregst

og aldrei burtu fer.

Þó styttist dagur, daprist ljós

og dimmi meir og meir,

ég þekki ljós, sem logar skært,

það ljós, sem aldrei deyr.

Þótt hverfi árin, líði líf,

við líkam skilji önd,

ég veit, að yfir dauðans djúp

mig Drottins leiðir hönd.

Í gegnum líf, í gegnum hel

er Guð mitt skjól og hlíf,

þótt bregðist, glatist annað allt,

hann er mitt sanna líf.

(Margrét Jónsdóttir)

Sigurlína Hólmfríður

Styrmisdóttir.