Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sérfræðingar segja styrkingu evru gagnvart pundi og bandaríkjadal birtast í gengi íslensku krónunnar.

Nafngengi krónu gagnvart sterlingspundi hefur ekki verið jafn sterkt síðan í mars 2009. Miðgengi pundsins er nú um 174,5 krónur, en var til dæmis 212,17 krónur föstudaginn 17. júlí í fyrrasumar. Það er tæplega 18% lækkun. Gengisvísitalan hefur ekki verið jafn lág síðan á vormánuðum 2009 sem þýðir að krónan er sterkari.

Þetta segir Hallsteinn Arnarson, sérfræðingur hjá IFS greiningu. Hann segir mikilvægt að horfa til innbyrðis hreyfinga milli erlendra gjaldmiðlapara. Seðlabankinn hafi fyrst og fremst reynt að halda gengi krónu nokkuð stöðugu gagnvart evru. Engu að síður hafi gengi krónu styrkst á móti evru, sérstaklega frá miðjum febrúar. Meiri sveiflur hafi átt sér stað í gengi krónu gagnvart bandaríkjadal og pundi. Það skýrist af því að á sama tíma og gengi krónu hefur styrkst á móti evru hafi bæði gengi bandaríkjadals og punds veikst gagnvart evru. Það auki á þrýsting á styrkingu á gengi krónu gagnvart dalnum og sérstaklega á móti pundi. Þannig séum við að sjá bæði sterkara gengi krónu og veikara gengi dals og punds. Þá bendir Hallsteinn á að á síðustu vikum hafi dregið úr væntingum markaðsaðila um vaxtahækkanir vestanhafs í ár. Það hafi aftur neikvæð áhrif á gengi dalsins.

Magnar áhrifin

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir krónuna hafa styrkst um tæp 2% miðað við gengisvísitölu á árinu.

„Almennt hefur krónan verið að styrkjast. Það hægði á styrkingunni eftir styrkingarhrinuna sem varð á þriðja fjórðungi síðasta árs. Þó styrkist hún áfram jafnt og þétt. Þegar við bætist að dollar og pund hafa almennt verið að veikjast töluvert, ekki síst gagnvart evru, þá verða styrkingaráhrifin gagnvart þeim myntum enn meiri en t.d. gagnvart evrunni.“