Aron Brimir Þorbergsson fæddist 18. janúar 1986 og ólst upp á Raufarhöfn.

Hann lést 27. mars 2016.

Foreldrar hans eru Þorbergur Gestsson, f. 8. júní 1963, og Fjóla Björg Þorgeirsdóttir, f. 16. ágúst 1964. Systur hans eru: 1) Alma Ýr Þorbergsdóttir, f. 1. september 1983, maki hennar er Margeir Þór Eggertsson og eiga þau soninn Jakob Darra. 2) Signý Lind Þorbergsdóttir, f. 15. október 1991, maki hennar er Helgi Rúnar Einarsson og eiga þau soninn Magna Frey.

Aron Brimir lætur eftir sig soninn Adel Brimi, f. 26. ágúst 2010, móðir hans er Henný Lind Halldórsdóttir, f. 21. febrúar 1988.

Aron Brimir bjó síðastliðin 11 ár á Akureyri og starfaði lengst af í Becromal.

Útför hans fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. apríl 2016, klukkan 13.

Elsku litli bróðir minn. Hjartað mitt er í milljón molum sem ég veit ekki hvernig ég á að púsla saman aftur. Þú litli fallegi glókollur sem alltaf varst svo hress, skemmtilegur og uppátækjasamur. Flýttir þér svo mikið að verða fullorðinn og sjálfstæður. Þú flýttir þér allt of mikið í gegnum lífið, elsku hjartað mitt. Minningarnar um þig eru svo margar og skemmtilegar og ég er svo þakklát fyrir að hafa þær, geta rifjað upp og brosað í gegnum þessa móðu með vinum okkar og fjölskyldu sem öll eiga svo erfitt núna. Engin orð geta lýst því hvað ég er þakklát fyrir þann hluta af þér sem þú lætur eftir þig, litla fallega og yndislega gullmolann sem er alveg nákvæmlega eins og pabbi sinn. Hann hefur gert síðustu daga svo miklu bærilegri fyrir okkur öll með sínum dásamlega karakter og sínu innilega faðmlagi sem hann hefur líklegast fengið í vöggugjöf frá pabba sínum því það eru fáir sem gefa eins innilegt faðmlag og þú gerðir. Það verður ekki eins að koma til Akureyrar og fá ekki skottugilsborgarann þinn, eða eitthvað af grillinu. Þetta er svo sárt elsku Aron minn, einhver sagði mér að það væri ekki meira á okkur lagt en við gætum höndlað, en ég er ekki að skilja það. Ég hugga mig við og vil trúa því að þú sért búinn að finna frið og ró, og að þér líði vel þar sem þú ert núna, fallegi engilinn minn. Ég skal alltaf halda uppi minningunni um þig, elsku bróðir minn. Ég elska þig af öllu mínu hjarta.

Alma.

Elsku besti bróðir minn, hvar á ég eiginlega að byrja, ég sit hér lömuð af sorg. Það er ekkert sem fær því lýst hversu sárt þetta er. Að hugsa um það að ég eigi aldrei eftir að sjá þig aftur er versta tilfinning í heimi. Svo óraunveruleg. Þessi dagur sem ég fékk hræðilega símtalið um að þú værir farinn frá okkur á eftir að sitja í mér alla ævi. Lífið gjörsamlega hrundi.

Ég mun aldrei gleyma hversu yndislegur stóri bróðir þú varst. Þú lést mig alltaf finna og vita hvað þér þótti vænt um mig. Ég er þakklát fyrir þær stundir sem þú áttir með Magna Frey mínum en græt þær stundir sem þið hefðuð getað átt saman. En ég lofa þér því að ég mun vera dugleg að tala um Aron frænda við hann og þú munt lifa í hjörtum okkar að eilífu.

Elsku bróðir, það sem ég á eftir að sakna þess að fá ekki innilegu faðmlögin frá þér, sjá fallega brosið þitt og hlæja með þér. Það verður erfitt að lifa með þessu en vonandi læri ég það einn daginn.

Elska þig alltaf.

Þín systir,

Signý Lind.

Elsku Aron minn, ég trúi ekki ennþá þessum fréttum, hjartað mitt sprakk í þúsund mola, mola sem aldrei verður hægt að setja saman aftur.

Við áttum ansi mörg ár saman, næstum hálfa ævi. Gleymi því aldrei þegar þú komst frá Raufarhöfn til Þórshafnar 12. apríl 2003 og bauðst mér á rúntinn. Þetta var svona eins og í bíómyndunum ást við fyrstu sýn. Þetta kvöld byrjuðum við saman, aðeins 15 og 17 ára gömul, við byrjum að búa aðeins ári síðar og áttum svo margar góðar stundir. Lífið var vissulega ekki alltaf dans á rósum, oft bara frekar erfitt enda varst þú ótrúlegur þverhaus, þegar þú hafðir myndað þér skoðun á einhverju þá varð þér ekki haggað en veistu hvað, ég er líka þver og þess vegna gekk þetta alltaf hjá okkur. Alveg sama hvað gekk á þá stóðum við alltaf við hlið hvort annars, kannski pínu bogin en náðum þó alltaf að rétta okkur við.

Fíflagangur var eitthvað sem einkenndi okkar samband þegar við vorum bara tvö, við gátum alltaf fíflast hvort í öðru og átt alveg einstakar stundir. Það voru ansi margar nætur sem við spjölluðum um lífið, drauma okkar og framtíðina sem við ætluðum okkur.

Þú brostir oft svo blíðlega til mín, svo blítt að maður fann ástina sem þú barst til mín.

Við eigum svo margar góðar minningar sem væri hægt að telja hér upp en það sem stendur upp úr er þegar við áttum strákinn okkar, hann Adel Brimi. Þú varst svo dáleiddur af þessum dreng sem við höfðum búið til að þú ætlaðir aldrei að geta hætt að horfa á hann.

Okkar tríó átti góðar stundir saman, margar ferðir í fjallið, á fjórhjólið, göngutúrar, sundferðir og svo margt annað sem við brölluðum saman með drengnum okkar.

Þó að við höfum flutt í sundur síðasta haust þá lágu leiðir okkar alltaf saman, enda varstu og verður alltaf kallinn minn, það vissir þú vel en þú varst líka svo miklu meira, þú varst mín fyrsta alvöruást, æskuástin, vinur minn og faðir drengsins okkar. Við sögðum oft að við ættum hjarta hvort annars, alveg sama hvað myndi ganga á því reynslan hafði sýnt okkur að við myndum alltaf ná sáttum.

Elsku kallinn minn, eftir sitjum við með sorg í hjarta og þurfum að læra að lifa án þín, ungur drengur sem grætur stundir með þér sem hann kemur ekki til með að fá. Í minningu lítils drengs varst þú flottastur, sterkastur og besti pabbi í öllum heiminum.

Þú skilur eftir djúp spor sem aldrei verður hægt að fylla en minningar um brosmildan og ástríkan mann lifa með okkur og hjálpa okkur að vinna úr sorginni með tímanum.

Vona að þú sért búinn að finna ró og við sjáumst aftur, elsku hjartað.

Þó að sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý,

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða

svo fallegur, einlægur og hlýr

en örlög þín ráðin – mig setur hljóða

við hittumst ei aftur á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár

þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ókunnur.)

Takk fyrir allt, elsku kallinn okkar.

Henný Lind og Adel Brimir.

Elsku hjartans ömmukúturinn okkar. Við kveðjum þig með mikilli sorg í hjörtum okkar, enginn á að lifa barnabarnið sitt. Við höldum fast í minningarnar, þær ylja og hjálpa okkur að komast yfir sorgina. Þú varst uppátækjasamur prakkari í Akurgerði, sast alltaf í gamla bláa bílnum hans afa nabba þíns og sagðist ætla að gera við hann og eiga þegar þú yrðir stór. Þú varst pönnsumaður mikill og elskaðir ömmupönnsurnar jafn mikið og pabbi þinn.

Mikið erum við þakklát fyrir síðustu vikur með þér heima á Raufarhöfn og þá sérstaklega stundina sem við áttum saman kvöldið áður en þú kvaddir þennan heim. Þú varst svo fallegur þegar amma strauk þér um hnakkann og sagði hvað hárið á þér væri flott svona nýklippt. Megi englar og allar góðar vættir vaka yfir þér, elsku „dóndulinn“ okkar, eins og afi kallaði þig oft.

Amma Signý og afi Þorgeir.

Við systkinin kveðjum í dag elskulegan frænda okkar, Aron Brimi, með miklum trega og söknuði, með fullt af spurningum ósvöruðum, spurningum sem enginn getur svarað og maður fær sennilega aldrei svör við.

Samband okkar var sérstakt, við vorum systrabörn og samheldnin milli okkar mikil sem við erum svo þakklát fyrir.

Margar góðar minningar koma upp í huga okkar, allar góðu stundirnar á Raufarhöfn, allar ferðirnar með ömmu og afa inn í sumarbústað, margar minningar sem við getum yljað okkur við.

Honum þótti mjög vænt um alla fjölskylduna okkar. Stórt og hlýtt faðmlag var einkenni hans, alveg sama hversu langt leið á milli stunda, alltaf kom hann með hlýjan faðminn sinn.

Fallegum, yndislegum, blíðum, miklum húmorista, snillingi og vinamörgum dreng fylgjum við síðasta spölinn í dag eftir allt of stuttan tíma saman en samt svo þakklát fyrir allt.

Elsku Fjóla, Beggi, Alma, Margeir, Signý, Helgi, amma, afi, Gulla, Henný, Adel Brimir og fjölskyldan okkar öll, Guð gefi okkur stoð og styrk á þessum erfiðu tímum.

Elsku fallegi frændi okkar, við munum ætíð minnast þín og hafa þig í huga okkar, halda minningu þinni á lofti og þá sérstaklega við þinn elskulega son, Adel Brimi. Við endum á fallegu ljóði til þín frá okkur eftir mann sem þú helst mikið upp á. Þín verður sárt saknað, hvíldu í friði.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Eva, Friðgeir og Þorgeir.

Elsku hjartans Aron minn, þú veist ekki hversu sleginn ég var yfir fréttunum um andlát þitt. Það var ekki nema nokkrum klukkutímum áður sem við fórum í gufu, spjölluðum um lífið og veginn og hlógum, fórum svo til ömmu og afa, borðuðum saman og áttum góða stund. Þú getur ekki trúað því hvað ég er ótrúlega þakklátur að hafa fengið þann heiður að fá að njóta síðustu daga þinna með þér á uppáhaldsstað okkar beggja, heima á Raufarhöfn. Þessir dagar eru þeir dagar sem ég mun halda upp á svo lengi sem ég lifi.

Þú varst svo miklu meira en bara frændi minn, þú varst líka einn besti vinur minn enda man ég vel þegar þú sagðir mér hvernig ég væri þér sem bróðir vegna þess að við báðir lentum í því að eiga bara systur og okkur báða hafði alltaf langað í bróður. Það eru svo sannarlega ekki margir sem ég hef átt eins sterk tengsl við og þig, bæði sem frændi og vinur. Öll samtölin, allar sögurnar sem þú sagðir mér, uppátækin sem okkur datt í hug, allt traustið sem við bárum til hvors annars. Þetta eru allt hlutir sem ég mun aldrei gleyma. Á undanförnum dögum hef ég líka hugsað um það hvernig það hefur aldrei nokkurn tíma verið neinn pirringur eða leiðindi til staðar á milli okkar og það er nokkuð sem er mjög sjaldgæft. Finnst mér það lýsa því mjög vel hvernig þú varst; alltaf glaður, alltaf góður, alltaf vinur vina þinna og alltaf til í að aðstoða mann eða hlusta á mann ef þess var þörf. Leiðindi og pirringur voru nokkuð sem þú hafðir aldrei áhuga á að rækta.

Svo er það yndislegi litli drengurinn sem þú skilur eftir þig, Adel Brimir. Hann er svo ótrúlega skemmtilegur strákur og hann minnir mig mikið á þig. Ég ætla svo sannarlega að vona að ég geti orðið honum eins mikill vinur og fyrirmynd eins og þú varst mér.

Þó svo að ég viti vel að ég á eftir að sakna þín alla mína ævi og af öllu mínu hjarta veit ég vel að þú hefðir miklu frekar viljað að ég minntist þín fyrir þann ótrúlega skemmtilega karakter sem þú varst og allar sameiginlegu minningarnar okkar, í stað þess að hugsa um það sem hefði getað verið. Elsku Aron minn, ég mun alltaf sakna þín.

Hittumst síðar, hvíldu í friði.

Einar Hafsteinn

Magnússon.